27.04.1949
Sameinað þing: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (4947)

182. mál, afnám ríkisfyrirtækja o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Með þessari þáltill. er farið fram á að fela ríkisstj. að beita sér fyrir ýmsum ráðstöfunum, þ. á m. lagasetningu varðandi mál, sem eru fimmtán talsins. Ég mun ekki nú ræða þetta mál svo mjög efnislega, en ég vil láta í ljós undrun mína yfir því, að hv. flm. bera þetta fram í þessu formi. Það kann að vera, eins og hv. 1. flm. sagði áðan, að á einhverju stigi verði leyft við atkvgr. að bera upp sérstaklega einstaka liði, en að sjálfsögðu verður till. svo borin upp í heild, og þá býst ég við, að þm. komist í vanda, er öllu er grautað saman í eina heild. Þannig er um mig, því að í þessum fimmtán liðum er um að ræða mál, er ég gæti verið sammála flm. um, en síðan eru önnur, þar sem ég er á gagnstæðri skoðun. Ég held því, að þetta form sé óheppilegt, ef flm. er það alvara að fá niðurstöðu. Það er kunnugt, að um suma liðina er ágreiningur innan Sjálfstfl., þó að það séu tveir þm. úr flokknum, sem bera till. fram. Hér er m. a. í 1.–9. lið talað um að leggja niður ýmsar ríkisstofnanir og selja eignir þeirra. Það kann að vera, að þetta megi ákveða löglega með þál., en þó skal ég ekki um það segja varðandi allt það, sem tilgreint er í þessum níu liðum. Síðan eru liðirnir 1–13 um að afnema ákveðin l., og flm. leggja til, að stj. verði falið að undirbúa lagabreyt., því að ljóst er, að það verður ekki gert með þál. En því hafa flm. ekki sjálfir flutt frv. í stað þess að fela stj. þetta? Ef um vandasöm viðfangsefni er að ræða, getur það átt við, að stj. undirbúi slíka lagasetningu, og það getur haft rétt á sér, ef það er ekki á valdi einstakra þm. nema að leggja í það meiri vinnu, en þeir hafa tök á meðan þing stendur yfir. En hér er því ekki til að dreifa. Hér er lagt til, að afnumin verði lög um orlof, jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, búnaðarskóla í Skálholti og vinnumiðlun. Það gegnir hið sama um alla þessa liði. Hver þm. getur á einni mínútu búið til frv. um, að lög númer þetta og þetta frá þessu og þessu ári séu úr gildi felld. Það þarf ekki langar ræður um það að fela stj. slíkt. Ég tel þetta því óhagkvæm vinnubrögð. — Það eru ákveðnar tvær umr. um þessa till., og á milli þeirra verður hún athuguð í n. Margir mæla, að þingið sé orðið nógu langt og frekar ástæða til þess að stytta það en lengja, m. a. til þess að spara útgjöld. Það er ekki í þá stefnu að koma með þáltill. um að fela stj. að undirbúa afnám laga, er þm. geta sjálfir borið fram frv. um, að verði afnumin, og ætla þessari þáltill. tvær umr. og athugun í n. og síðan, að borin verði fram frv., er koma þarf gegnum sex umr. Það kann að gilda um síðustu tvo liðina, lækkuð framlög til almannatrygginga og fræðslumála, að flm. geri sér ekki sjálfir svo ljóst, hvað þeir vilja, en það á ekki við um hina fjóra liðina. Ég veit ekki, af hverju þetta stafar, en það er orðin lenzka að leggja fyrir þingmálafundatill. í þál.-formi í stað þess að bera fram frv., þegar um mál er að ræða, er ekki verða afgr. nema með lagasetningu. — Trúlega er till. borin fram í alvöru, en ekki til þess að sýnast, enda þótt kunnugt sé, að flokksmenn hv. flm. séu þeim ósammála um suma liðina.

Ég mun ekki ræða þetta frekar að svo stöddu. Ég mun geta fellt mig við suma liðina, en aðra ekki. Það er vitanlega mikið rétt í því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði í framsöguræðu sinni, að ástæður ríkissjóðs eru þannig, að brýn þörf er á því að koma þeim málum í betra horf. Fjárhagur ríkissjóðs er vissulega bágborinn eftir að Sjálfstfl. hefur farið með fjármálastjórnina í tíu ár, en flokkurinn átti tíu ára fjármálastjórnarafmæli í þessum mánuði. Víst er þörf á því að koma á þau mál betri skipan. Ég get tekið undir með hv. 5. þm. Reykv. um það.