13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í D-deild Alþingistíðinda. (4964)

194. mál, óeirðirnar 30. marz 1949

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Fyrir þá, sem sátu hér á þingfundi í grjótkastinu hinn 30. marz, er þessi till. allfurðuleg, og ég held, að hún sé flutt af meiri ósvífni, en nokkurt annað mál, sem sézt hefur á Alþ. Það er alveg furðulegt að bera það fram hér, að þm. viti ekki, hverjar voru orsakir og hvert var eðli þeirra óeirða, sem þá urðu hér við þinghúsið. Ég skal ekki fara neitt út í rökstuðninginn fyrir þessari till., því að hann er vitanlega alveg eins og till. sjálf, alveg með fádæmum. Á bls. 6 í grg. till. segir, að lögreglustjóri hafi tekið á ólöglegan hátt að sér stjórnina í alþingishúsinu. Eins og hv. þm. muna, þá vék forseti Sþ. úr sæti, eftir að atkvgr. hafði farið fram um málið, og óskaði eftir því, að þm. sætu kyrrir í sætum sínum meðan hann véki sér frá. Þegar hann kom aftur, lýsti hann því yfir, — og ég hygg sem sinni ósk, en ekki annarra, — að þm. væru beðnir að fara ekki úr húsinu, nema í samráði við lögreglustjóra. Þetta, að forseti Sþ. ber fram þessa ósk úr forsetastóli, leyfir flm. sér að kalla það, að lögreglustjóri hafi tekið að sér stjórn í þinghúsinu á þessum degi. — Af öðru furðulegu vildi ég leyfa mér að benda á ummæli á bls. 7 í þessu þskj., þar sem svo er komizt að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt bendir þetta til þess, að hér hafi verið um fyrir fram undirbúna pólitíska „provokation“ af hálfu ríkisstj. og lögreglustjóra að ræða, sem átti að gefa tilefni til aðgerða af hálfu ríkisvaldsins og lögreglunnar til að hefta starfsemi verkalýðshreyfingarinnar og Sósíalistaflokksins.“

Mér er ekki alveg ljóst, hvaða orð á að hafa um svona ósvífni. Ég þekki í raun og veru engin orð yfir svona ósvífni. Það er vitanlegt, að sá undirbúningur, sem hafður var vegna árásarinnar á alþingishúsið, var ekki gerður af ríkisstj., heldur var hann gerður af Sósfl. og þeirra meðhjálpurum, og þeir einir höfðu hér undirbúning undir aðgerðir, sem voru berir að því að hafa hér bíl í grennd við alþingishúsið með hátalara til þess að gefa lýðnum fyrirskipanir. Og það er öllum vitanlegt, hverjir voru með þennan bíl. Það er vitanlegt, að einn þm. kallaði rangar og villandi upplýsingar út um einn gluggann á alþingishúsinu, glugga á Kringlu, og þeim upplýsingum var síðan útvarpað til lýðsins frá hátalara þess bíls, sem þarna var frá Sósfl. — Ég sé, að hv. flm. till. líkir þessum atburði við hinn alþekkta þinghúsbruna í Berlín 1933. Nú er það að vísu svo, að í þetta skipti var ekki gerð tilraun til þess að kveikja hér í þinghúsinu, en hins vegar ber húsið þess enn merki, að það var reynt að grýta þm. gegnum glugga þinghússins, og þessi árás á þinghúsið á það sameiginlegt með þinghúsbrunanum í Berlín, að það var einræðisflokkur, sem að henni stóð, og í þetta skipti hérna voru það kommúnistar, en ekki Nazistaflokkurinn.

Mér er ekki á neinn hátt skylt að svara fyrir lögreglustjórann hér á þessum vettvangi. En ég vildi segja það sem mína skoðun, að ef ekki hefði verið hér lögreglulið og öflug lögregla í þinghúsinu á þessum degi og öflugt hjálparlið, þá hefðu orðið hér meiri tíðindi en urðu, þó að þau yrðu að vísu nógu vond. Ég er sannfærður um það, að þeir, sem köstuðu hér grjóti inn um gluggana í því skyni að reyna að hæfa þm. og m. a. með þeim árangri, að einn þm. Sós.-fl. fékk glerbrot í auga, þeir hefðu, ef þeir hefðu komizt hér inn í þinghúsið, ekki látið sitja við það eitt að horfa hér á þm. Ég hygg, að undirbúningur Sósfl. að árásinni á þinghúsið hafi verið gerður í því skyni að vita, hvort ekki væri nú möguleiki til þess að brjótast hér til valda á þann hátt, sem kommúnistum alls staðar í heiminum er mest hugleikið. Ég hef heyrt sagt, að það standi hér einhvers staðar í þessari makalausu grg., að grjótið, sem hafi komið inn um gluggana, hafi virzt koma frá Austurvelli. Það er ljóst af þessari grg., að hún hefur verið til þess eins samin að lesa hana upp í útvarpinu, til þess að reyna að koma lygafregnum af þessum atburði til landsfólksins. Ég hygg ekki, að þessi till. eigi að fara til n. Ég hygg, að það ætti að afgr. hana annaðhvort á þann hátt, sem ef til vill er einfaldastur, að fella hana frá frekari umr. eða athugun, ellegar þá að vísa henni frá með rökst. dagskrá, sem væri flm. mátuleg hirting, því að slíkur málflutningur þeirra, sem hafa staðið hér að slíkri svívirðingu og þjóðinni allri var gerð með atburðunum hér og árásinni á Alþ. 30. marz, á ekki annað skilið en að Alþ. láti í ljós á honum mestu fyrirlitningu. Mér er ekki ljóst, hvor aðferðin mundi vera réttari, en ég hygg þó, að svona sæmilega orðuð rökst. dagskrá mundi eiga bezt við í þessu efni. Og ég vildi óska þess, að áður en hér fer fram atkvgr. um að vísa málinu til n., þá fengi ég tækifæri til þess að athuga þetta mál, á hvaða hátt því væri bezt hrundið frá Alþ.