17.05.1949
Neðri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (4967)

194. mál, óeirðirnar 30. marz 1949

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hafi ég skilið hv. þm. Ísaf. rétt, þá mun hann vera frekar mótfallinn þessari till. og þeirri rannsókn, sem hún gerir ráð fyrir. Hann hóf mál sitt með því að segja, að hér væri um að ræða meiri ósvífni, en hann hefði heyrt getið um í sölum Alþ. Hann fór nokkrum orðum um þetta og sagði að lokum, að hann ætti engin orð yfir þetta. En eftir að hv. þm. komst að þessari niðurstöðu, að jafnvel hann ætti engin orð, þá losnaði þó um málbeinið á honum í seinni hluta ræðunnar, og var formálinn fyrir hverri setningu: „Vitað er“. — Hann hélt því fram, að af hendi Sósfl. hefði verið um fádæma ósvífni að ræða og það væri vitað, að hann hefði undirbúið óspektir og ætlað sér að komast að raun um, hve langt væri hægt að komast með handaflinu einu. Sem sé, hv. þm. Ísaf. átti engin orð, en þó var hitt og þetta vitað og ýmsu þannig þægilegt að slá fram. Ég held nú, að þeir, sem vilja hugsa um þetta mál í alvöru, geti ekki verið sammála hv. þm. Ísaf. um, að það sé einhver fádæma ósvífni að halda því fram, að hér sé þörf gagngerðrar rannsóknar. Og mér virðist satt að segja, að ekki verði hjá því komizt, vegna undrunar hans og orðleysis annars vegar og vizku hans hins vegar, að gera grein fyrir því, að rannsóknar sé þörf. En til þess að gera það svo sem skyldi, verður ekki hjá því komizt að ræða tildrög þessara atburða. Verður þá að byrja um síðustu áramót. Þá var það, að tveir hinir áhugasömustu leiðtogar íslenzkra stjórnmálamanna, sjálfur forsrh. (StJSt) og sjálfur formaður stærsta stjórnmálaflokksins, hv. þm. G-K. (ÓTh), töldu tímabært að kveða upp úr með það, að rétt væri og eðlilegt, að Íslendingar gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Og annar þessara virðulegu stjórnmálaleiðtoga, hv. þm. G-K., kvað svo að orði, að svo mjög riði nú á þátttöku Íslands, að óvíst væri, hvort nokkuð gæti orðið úr hinni fyrirhuguðu stofnun þess, ef Ísland yrði ekki með. Hann gat þess, að slíkt væri álit hinna fróðustu manna á hinn stóra heimsmælikvarða og væri því ekki fyrir okkur, fátæka og fáa, annað að gera, en að hlusta á þeirra róm og hlýða honum, sjálfir værum við ekki um þessi mál dómbærir. Hann gat þess, að mikils mundi nú við þurfa, sem sé öflunar morðvéla og drápstækja, ef landið og þjóðin ætti að geta gegnt því hlutverki, sem því væri ætlað sem einum lið í Atlantshafsbandalaginu. Hæstv. forsrh. kvað ekki eins skýrt að orði í áramótaboðskap sínum, en ljóst var þó, hvert hann stefndi og hvert hann vildi fara. Hann áleit það rétt og sjálfsagt, að inn í Atlantshafsbandalagið skyldi þjóðin ganga. — Það er eðlilegt og ekki að ófyrirsynju, þó að þessar ræður stjórnmálaleiðtoganna leiddu til þess, að öllum almenningi fyndist nú tímabært að ræða málið allt fyrir opnum tjöldum. Það var ekki að ófyrirsynju, þó að félagasamtökin vildu taka málið á sína dagskrá og almenningur vildi ræða það á fundum og mannamótum, í blöðum og tímaritum. En það var nokkuð óvænt, sem þá gerðist, og það var, að frá herbúðum hæstv. ríkisstj. og ráðamönnum stjórnmálaflokkanna allra, sem að stj. stóðu, bárust í sífellu raddir um það, að ekki væri tímabært að ræða málið, sem sé, það var tekið undir það, sem kom fram í áramótaræðu hv. þm. G-K., að við ættum að hlýða á dóma annarra aðila, dóma erlendra manna, sem hefðu hina miklu yfirsýn um heimsmálin, en sjálfir ættum við að þegja, meðtaka boðskap þeirra og beygja okkur í auðmýkt. Þjóðin átti ekki að tala um þetta mál né mynda sér skoðanir um það. Það var sagt, að upplýsingar vantaði. Út af fyrir sig virðist mér, að þetta væri nokkurt rannsóknarefni, þó að vissulega felist það ekki beinlínis í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, að hv. þd. kjósi menn til að rannsaka þessa hlið málsins. — Annað var það, sem gerðist samtímis því, að þjóðin var svo mjög hvött til þess að segja sem minnst, en það var, að stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstfl., fór nú að æfa ýmsa af meðlimum sínum í vopnaburði. Það er vitað og upplýst, að á þeim tíma, sem þjóðin mátti ekki ræða um Atlantshafsbandalagið, voru menn kvaddir til þess úr félögum Sjálfstfl. og þá fyrst og fremst úr æskulýðsfélaginu Heimdalli og Óðni að taka þátt í æfingum í vopnaburði. Ég hygg þó, að vopnin, sem notuð voru, hafi ekki verið öllu skæðari, en kylfur, en meðlimir þessa stjórnmálaflokks áttu að fá og fengu æfingu í meðferð þeirra. Ég hygg, að hv. þm. Ísaf. mundi einhvern tíma hafa verið þess sinnis, að það væri full ástæða til rannsóknar, þegar upplýst er, að stjórnmálaflokkar í landinu fara að æfa meðlimi sína í vopnaburði, — þegar það liggur fyrir, að ungir menn í skólum landsins — og á ég hér fyrst og fremst við Menntaskólann — afsaka kunnáttuleysi sitt einn daginn með því, að þeir hafi verið að æfingum í vopnaburði með Heimdellingum. Ég endurtek það, að ég hygg, að sú hafi verið tíðin, að hv. þm. Ísaf. hefði þótt slíkt vera rannsóknarefni. En nú er öldin önnur. Ef minnzt er á að rannsaka slíkt, þá fellur honum allur ketill í eld. Hann á engin orð. Já, svona er það að hafa eitt sinn verið verkalýðsleiðtogi og hafa síðar gerzt hluthafi í félaginu Aðstoðaríhald h/f, en þessi hv. þm. er, sem kunnugt er, einn af stóru hluthöfunum í því fyrirtæki og álítur hlutverk sitt þar það eitt að gæta hagsmuna í hlutafélaginu og berjast fyrir íslenzka auðmanna- og yfirstétt. Þegar þetta er athugað, þá verður það skiljanlegra, að hann á engin orð, þegar um það er rætt, að fram fari rannsókn á atburðum, sem m. a. eiga rót sína að rekja til þess, að stjórnmálaflokkur íslenzkrar yfirstéttar og auðmannastéttar grípur til þess að reyna að kenna meðlimum sínum vopnaburð. Ef til vill eru einu áhyggjur hv. þm. þær, að h/f Aðstoðaríhald hefur ekki fengið að senda menn í þennan æfingaskóla íslenzkrar yfirstéttar. Ef til vill er það þess vegna, sem hann er svona gersamlega orðlaus. Ef til vill er það þess vegna, sem hann siðar í ræðu sinni fær málið aftur og hefur þá ekkert fram að bera annað en staðhæfingar út í loftið. Tíminn líður fram, Heimdellingar æfa sig, og þjóðinni er sagt, að það megi ekki ræða Atlantshafsbandalagið. Eigi að síður er málið rætt. Það er rætt í blöðum og á mannfundum, og ljóst verður, að aldan gegn þátttöku Íslands í þessu bandalagi rís hærra og hærra. En jafnhliða gerast hrópin um það, að ekki megi ræða málið, háværari, og jafnhliða er hert á heræfingum Heimdellinga og Óðinsmanna. Að sjálfsögðu verður Aðstoðaríhald h/f stöðugt virkari og virkari þátttakandi í undirbúningi þeirra atburða, sem eru í aðsigi. Það er svo ekki ástæða til þess að fjölyrða mikið um það, þegar þrír ráðh. flugu úr landi vestur um haf til þess að tala við mennina, sem vissu og við áttum að taka við boðskapnum frá, samkvæmt því, sem hv. þm. G-K. hafði skráð um í áramótahugleiðingu sinni. Það er ekki heldur mikil ástæða til þess að rifja það upp, að þeir undarlegu atburðir gerðust, að áður en íslenzka þjóðin vissi um vesturför hinna þriggja, hafði frændþjóð okkar, Norðmönnum, verið sagt frá förinni í blöðum sínum. Og það er ekki heldur mikil ástæða til að rifja það upp, að þegar þessar hetjur komu að vestan, hafandi væntanlega í fórum sínum sannleikann allan varðandi hið fyrirhugaða bandalag, þá verður það ekki, sem hefði mátt vænta, að nú væri sagt við þjóðina: Nú er málið upplýst og nú skulum við fara að ræða það, því að þetta er mál íslenzku þjóðarinnar. Nú skulu menn mynda sér skoðanir um það, og þjóðin á að láta Alþ. vita, hver sé hennar vilji. Og ef svo virðist, sem einhver ágreiningur sé um það milli Alþ. og þjóðarinnar, milli kjósenda og þm., þá er bezt að láta lýðræðið gilda og lofa ykkur kjósendum að skera úr um málið með atkvgr. — Það er öllum vitanlegt, að ef þannig hefði verið á málum haldið, þá hefði málið verið rætt fyrir opnum tjöldum. Þjóðin hefði fengið að heyra rök og gagnrök og ugglaust komizt að þeirri niðurstöðu, að maður skyldi ætla, að engu þyrfti að leyna, og niðurstaðan hefði svo orðið sú, sem þjóðin vildi, eftir að hún hefði hlýtt á rök beggja aðila. Og eitt er víst, að ef þetta hefði verið gert, hefði allt gerzt með friði og spekt og að réttum l., því að slíkt er eðli Íslendinga, þannig vilja þeir fjalla um stjórnmál, og þannig fjalla þeir um stjórnmál, þegar haldið er á þeim að réttum l. og samkvæmt venju. En hér átti þetta ekki að gerast. Það átti ekki að ræða málið fyrir opnum tjöldum, ekki heldur eftir að ráðh. þrír voru búnir að tala við háæruverðugan utanrrh. Acheson og fá hjá honum allar upplýsingar, þannig að málið lægi fyrir fullkomlega skýrt og greinilegt. Nei, það átti ekki að gerast. Það, sem þm. sjá næst, er lögregluvörðurinn við alþingishúsið og í því. Það, sem vitað er næst, er það, að þingfundur er kallaður saman á óvenjulegum tíma, kl. 10 að morgni, og því er ekki gleymt að skipa lögregluliðinu kringum húsið og inn í það. Hæstv. forseti Sþ. gengur í forsetastól og vill nú halda áfram fundi án afláts, eða án þess að gefa þm. venjuleg frí til að matast eða til að fá sér kaffi. Hann vill halda áfram í sífellu. Hér má umfram alla muni ekkert gera fyrir opnum tjöldum. Hér á umfram alla muni að koma í veg fyrir, að þjóðin fái tíma til að kynnast málinu og segja sitt álit um það.

Ég vík að því aftur, að ég er sannfærður um það, að eitt sinn var sú tíð, að hv. þm. Ísaf. hefði þótt sem hér væri alleinkennilega á málum haldið. Einhvern tíma hefði hann sagt, að þetta væri ofbeldi og einræðisbrölt og að hér ætti að gefa þjóðinni tóm til þess að athuga þetta stóra mál og dæma um það með þjóðaratkvæði. En það er annað að vera baráttumaður fyrir verkalýðshreyfinguna á Ísafirði, Akureyri eða hvar sem er á landinu, eins og hann var, eða vera einn af stóru hluthöfunum í Aðstoðaríhald h/f. — Nú átti forseti Sþ. öruggan bakhjarl, þegar hann braut venjur og rétt á þm., þegar hann fór með þingsköp á hinu tæpasta vaði og braut þau jafnvel. Nú átti hann öruggan bakhjarl, þar sem var þessi hluthafi í Aðstoðaríhald h/f, hv. þm. Ísaf., fyrrverandi verkalýðsleiðtogi og sósialdemokrat. Það gat ekki hjá því farið, að öllum almenningi á strætum og gatnamótum virtist sem eitthvað væri að gerast í alþingishúsinu. Það er ekki hversdagsleg sjón að sjá röð lögregluþjóna við alþingishúsið, og það er ekki hversdagslegt að frétta það, að þm. gefi sér ekki tóm til að neyta matar, heldur sé fundi haldið áfram í sífellu og ræðutími manna skorinn niður þegar við 1. umr. málsins og á fyrsta fundi, sem málið er rætt á. Þetta leiddi til þess, að nokkur hópur manna tók að safnast að þinghúsinu hinn 29. marz, þegar þessi atburður var að gerast innanhúss. Þetta hlaut svo að fara af þeim ástæðum, sem ég hef þegar greint, og einnig af þeirri ástæðu, sem alkunn er, að ætíð ber svo til, þegar lögreglan í Rvík sýnir sig einhvers staðar og einhvern tíma með sérstökum hætti, búin kylfum og hjálmum og mætir þar, sem hún er ekki vön að vera, að þá dregst þar að nokkur hópur ærslagjarnra unglinga, sem hefur það sér til ánægju, sem þeir kalla „að gera at í lögreglunni“. Þetta gerðist hinn 29. marz. Hópur slíkra manna kom að þinghúsinu, og einnig kom þar að nokkur hópur forvitinna borgara, sem staðnæmdust um stund og vildu vita, hvað væri að gerast. Öllum heilvita mönnum er ljóst, að það var ekkert annað, sem dró þetta fólk að þann 29. marz en hinn óvenjulegi lögregluvörður við þinghúsið og þær óvenjulegu starfsaðferðir, sem þar voru um hönd hafðar. Allir vita, að ekkert var skipulagsbundið hjá þessu fólki. Enginn var að smala einum eða neinum á vettvang. — Þá gerist það líka til tíðinda síðar þetta kvöld, að út úr húsi einu, sem stendur við Austurvöll, samkomuhúsi Sjálfstfl., kom hópur unglinga, sem dreifði sér hér við Austurvöll, og víst er um það, að í sama mund gerist það, að farið var að kasta eggjum og smásteinum í þinghúsið. Nú ætla ég, að sú hafi tíð verið, að hv. þm. Ísaf. hefði þótt við eiga að rannsaka að nokkru, hvað var að gerast, þegar hann í fyrsta lagi veit, að meðlimir úr félagi Sjálfstfl. hafa verið að æfa vopnaburð um langt skeið, þegar hann í öðru lagi veit, að síðla kvölds 29. marz kemur mikill hópur manna út úr flokkshúsi þessa flokks, og í þriðja lagi, þegar hann veit, að þegar þessi hópur er dreifður hér framan við þinghúsið, á Austurvelli, Kirkjustræti og hér í kring, þá gerast hér ærsl og óspektir, að vísu með mjög líku sniði og að jafnaði gerist hér á gamlaárskvöld, og vel má vera, að drögin að þessu eggjakasti og því steinkasti, sem þarna átti sér stað, hafi ekki verið nein önnur en ærslafýsn nokkurra unglinga, sem álíta það sérstakt sport „að gera at í lögreglunni“. Ég skal engan dóm á það leggja, en hitt ætla ég þó rétt, að hv. þd. kjósi menn til að rannsaka þessa atburði.

Nú er þess enn að minnast, að þegar þingfundi var lokið þetta kvöld, þá leit hæstv. forseti svo á, að svo mjög lægi nú á að hraða málinu, að vel gæti komið til mála að halda þingfundinum áfram um nóttina og afgreiða málið í húmi næturinnar. Frá þessu hvarf hann þó, svo sem kunnugt er, og boðaði til fundar kl. 10 næsta morgun, hinn 30. marz. Nú er það öllum kunnugt, að þennan morgun var lögregluvörður, enn strangari, en nokkru sinni fyrr, um þinghúsið. Og að sjálfsögðu fór eins og áður, að lögregluvörðurinn dró að sér nokkra athygli og slæðing af fólki, sem fór fljótlega að staðnæmast fyrir framan þinghúsíð og virða fyrir sér þessa kynlegu varðsveit. — Þá er það næst til tíðinda, að formenn þingflokkanna, stjfl. þriggja, senda út fregnmiða og biðja friðsama borgara að mæta framan við þinghúsið milli kl. 12 og 1 eða síðar, og að því er bezt varð skilið, áttu þeir að vera Alþ. til aðstoðar við að afgreiða það mál, sem fyrir lá. Þeir áttu að vera eins konar varnarsveit fyrir Alþ. Líka gerðist það, sem einnig er alkunnugt, að á mótum Lækjargötu og Fríkirkjuvegar var boðað til fundar þennan sama dag af verkalýðsfélaginu Dagsbrún og fulltrúaráði verkalýðsfélaganna. Fundur þessi var haldinn kl. 1, og var þar borin fram og samþ. einróma, með miklum fjölda atkv., áskorun til Alþ. um að láta þjóðaratkvæði ganga um málið. Enn var haldið þeirri stefnu, sem var upp tekin af Sósfl. og Þjóðvarnarfélaginu og öðrum þeim, sem vildu, að málið sætti eðlilegri meðferð. Enn var þess krafizt, að þjóðaratkvæði yrði látið ganga um málið að þjóðin sjálf fengi réttinn til að dæma, og satt að segja var því trúað af mörgum, að ef Alþ.fengi nógu greinilega að heyra þær raddir, sem kröfðust þjóðaratkvæðis, þá mundi það, þótt ekki væri fyrr en á elleftu stundu, snúa frá villu síns vegar, gera skyldu sína og leggja málið í hendur kjósenda og segja við þá: Ykkar er valdið, dæmið þið. — Þessi fundur reyndi svo að koma á framfæri við Alþ. till. um þjóðaratkvæði og gerði það. En undirtektir voru engar hjá hv. stjórnarflokkum, því að það var fyrir fram ákveðið, að málið skyldi ekki rætt, fyrst með því að víkja málinu frá umræðum þjóðarinnar á þeim forsendum, að það væri ekki upplýst, og síðar með því að hespa það í gegn hér á Alþingi, þó að brjóta þyrfti venjur og rétt á þm. og þó að brjóta þyrfti þingsköp og þó að kalla þyrfti til lögreglu að standa vörð um húsið. En lögreglan var ekkert annað en sýnilegt tákn hinnar slæmu samvizku í brjóstum þeirra manna, sem brutu rétt á þjóð sinni.

Það er alkunn staðreynd, að hinir friðsömu borgarar brugðust vel við kalli formanna stjórnarflokkanna. Þúsundum saman mættu þeir á Austurvelli, sumpart hlýðnir þessu kalli, sumpart af forvitni, og það, sem þeir sjá, er röð lögregluþjóna framan við þinghúsið. Ekki voru þeir þó alveg upp við vegg hússins eða dyr, því að á bak við þá var nokkurt svæði eftir skilið, fullskipað mönnum. Vissu menn fyrst ekki gerla, hverju þetta sætti, en brátt fengu menn upplýsingar um, að þarna væri komið liðið, sem þátt tók í heræfingum Sjálfstfl. Morgunblaðið hefur upplýst, að nöfn þessa liðs séu skráð. Það er vafalaust rétt, og mun skrána að finna á skrifstofu Sjálfstfl. Morgunblaðið hefur líka upplýst, hvað þessi hópur var fjölmennur: nákvæmlega 927 manns. Það liggur nú í augum uppi, að þessi röð lögregluþjóna og þessir bakverðir lögreglunnar hafa verkað ögrandi gagnvart þeim mönnum á Austurvelli, sem allajafna hafa gaman af að „gera at í lögreglunni“, svo að mál götunnar sé notað, og í raun og veru gat það tæpast dulizt neinum, að hjá því færi ekki, að undir svona kringumstæðum notuðu einhverjir tækifærið til þess, að „gera at“ og sýna, að þeir væru „kaldir“, svo að aftur sé gripið til orðaforða götunnar. Ugglaust voru það slíkir unglingar, sem fleygðu eggjum og moldarhnausum í lögregluna og hina 927 að baki þeim. Eitt atriði er geysiathyglisvert í þessu sambandi, og það er, að hin fjölmenna, vel búna og vel æfða lögregla gerði enga tilraun til þess að halda aftur af þessum mönnum. Hún bara stóð grafkyrr í sinni röð, og engir lögregluþjónar voru sendir til þess að hasta á þá, sem voru með óspektir. Það er þó vitað, að í því efni getur lagin lögregla miklu áorkað. Hygg ég, að hér sé komið að hinni fyrstu stóru spurningu þessa dags: Hvers vegna hagaði lögreglan sér svona? Vafalaust hefur verið sú tíð, að hv. þm. Ísaf. hefði talið þetta rannsóknarefni. Nú óska ég eftir að taka það skýrt fram, að ég tel, að ekki komi til mála, að hér sé um að ræða tilviljun eða vanrækslu einstakra lögregluþjóna, heldur hafi þeir haft skipanir um að hegða sér svona. Ég þykist þekkja starf götulögreglunnar svo vel, að ef ekki hefðu legið fyrir sérstök fyrirmæli, þá hefðu lögregluþjónarnir tekið sér fyrir hendur að reyna að stöðva þá, sem ollu ærslum með skít og eggjakasti. Að öðru leyti var myndin af Austurvelli þennan dag sú, að þar voru sannarlega friðsamir borgarar, því að reykvískir borgarar eru friðsamir. Þeir stóðu þarna rólegir og reyktu sínar pípur og sígarettur, lesandi sinn eftirmiðdags-Vísi, og góða veðrið virtist hafa á þá góð áhrif, svo að jafnvel hinir alvarlegustu atburðir röskuðu ekki ró þeirra, enda vissu þeir sem var, að bezt er að taka slíku með stillingu og æðruleysi. Þó bar það við, að nokkrir menn fóru að syngja ættjarðarsöngva, svo sem eins og til að undirstrika þann vilja sinn, að hin íslenzka móðir mætti lifa frjáls „sem vindur á vog og vötnin með straumunum þungu“. Enn voru nokkrir menn inn á milli, sem kölluðu „þjóðaratkvæði!“ til þess að láta þm. vita, að þjóðin vildi fá málið í sínar hendur. Þannig var að líta yfir Austurvöll. Þar var fjöldi friðsamra borgara í góðu veðri, stilltir og prúðir, ýmsir syngjandi ættjarðarsöngva og kallandi „þjóðaratkvæði!“ en innan um voru svo nokkrir strákar, sem vildu „gera at“. Framan við alþingishúsið stóð lögreglan með hjálma og kylfur og hreyfði ekki hönd eða fót til þess að aftra ærsladrengjunum frá þeirra starfi, en bak við þá hið æfða lið stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi, Sjálfstfl. Og nú líður og bíður. Allt í einu gerist óvæntur atburður. Dyr þinghússins opnast, og nú eiga ýmsir von á því að sjá lögreglustjóra koma út og segja við borgarana sína: Það er nú búið að afgreiða málið, og verður ekki aftur snúið. Nú fer ég fram á, að þið farið heim og a. m. k. gerið engan óskunda. — Ef til vill hafa menn svo búizt við að sjá hávirðulegan forsrh., sem ásamt form. hinna tveggja stjórnarflokkanna kvaddi fólkið á Austurvöll, koma og halda smátölu yfir fólkinu og sýna fram á, hvaða dáð hann og Alþingi væri nýbúið að drýgja. Svo mundi hann þakka boðsgestum fyrir komuna og biðja þá því næst að hverfa heim. Þá hafa menn kannske einnig búizt við að sjá sjálfan yfirleikara íslenzkra stjórnmála, hv. þm. G-K., koma næstan í einhverju sínu gervi, mælandi eitthvað á þessa leið: Hér hefur mikið verk verið unnið. Alþingi hefur samþ. að ganga í Atlantshafsbandalagið. Ég er þakklátur ykkur fyrir að hlýða boði mínu og koma hingað og vera vitni að því, sem hér hefur gerzt, og farið þið nú heim með friði. — Enn hafa menn svo e. t. v. vænzt þess að sjá augasteininn hans Jónasar Jónssonar, sjálfan Eystein Jónsson, fjármálaspeking Framsfl., lítandi kannske nokkuð á ská á mannfjöldann og segjandi sem svo: Ég, hinn mikli fjármálaspekingur Framsfl., segi ykkur, að við höfum tryggt fjárhag ríkisins og framtíð þjóðarinnar. Þakka ykkur fyrir komuna. Haldið heim. — En enginn af þessum mönnum lét sjá sig. Út úr húsinu kemur hópur af drengjum, berandi hjálma á höfði, kylfur í höndum og borða um hægri handlegg, og eina fyrirskipunin, sem þessir drengir fengu, var: Berjið! Og þeir gengu nú í hópinn á Austurvelli og börðu eftir því, sem kjarkur og kraftar leyfðu. Það er ekki að efa, að þótt reykvískir borgarar séu friðsamir, þá eru þeir skapmenn og ekki aumingjar. Þeir gátu ekki annað, en tekið á móti þessum lýð, og það var gert með hnúum og hnefum og jafnvel grjóti, og hver getur undrazt það? Hver er svo dáðlaus af þm. að þola aðgerðalaust að láta bjóða sér sem friðsömum borgara niður á Austurvöll og síðan berja sig eins og hund? Svo kemur lögreglan, og hún fór með meiri siðmenningu. Lögregluþjónarnir kunnu betur sitt starf, að undanskildum örfáum. Hún reyndi að ýta mannfjöldanum frá, en gat það ekki, enda gat ekki hjá því farið, að hún mætti andstöðu borgaranna, þegar á þá var ráðizt. Og svo kemur þriðja atriðið. Yfir hina friðsömu borgara er varpað táragasi án undangenginnar aðvörunar. Það er nú ekki að furða, þótt nú gerðist róstusamt á Austurvelli, þótt rúður væru brotnar og slys yrðu á mönnum, og sýnir það bezt, hve stilltir Reykvíkingar eru, að slys urðu ekki meiri. Einhvern tíma hefði hv. þm. Ísaf. talið ástæðu til að rannsaka þetta, en ef til vill er rannsókn á þessu óþörf fyrir hann. Hann veit ef til vill svo ofur vel, hvað gerðist. Hann veit t. d., að í flokksherbergi Framsfl. og sennilega í flokksherbergi Alþfl. líka voru þessa dagana, eða a. m. k. þennan dag, geymdir Heimdellingar, Óðinsmenn og aðrir flokksbundnir sjálfstæðismenn. Þar voru einnig vopnin þeirra, kylfan og hjálmurinn, og sælgætið þeirra, ameríska gasið. Ugglaust veit hv. þm. Ísaf. líka, hver tilgangurinn var með þessu. Ugglaust veit hann líka, að þessir menn voru þarna upp á kaup, og ugglaust veit hann, að þeir, sem fengu aðgang að pöllunum á vegum Aþfl. og Sjálfstfl., þeir voru einnig upp á kaup, enda ýmsir þeirra ráðnir í slagsmálasveit Sjálfstfl. og búnir að njóta æfinga lengi sem slíkir. Ég tók eftir því, að einn heildsalinn, hv. 1. þm. Reykv. (BÓ), skellti hurð og skauzt inn í ráðherraherbergið, og ég skil hann, skil hann vel. — Hv. þm. Ísaf. telur það ekki rannsóknarefni, hvers vegna lögreglustjóri gerði enga tilraun til þess að stilla til friðar á Austurvelli. Hann telur ekki heldur rannsóknarefni, hvers vegna friðsamir borgarar voru barðir með kylfum og yfir þá var kastað táragasi án viðvörunar. Hann telur ekki heldur þörf á að rannsaka, hvers vegna engin tilraun var gerð til þess að fá hina friðsömu borgara Rvíkur og nokkra drengi, sem voru með óspektir og ærsl, — hvers vegna engin tilraun var gerð til þess að fá þá til að vera rólega og sýna engin ærsl eða æðrumerki. Mér finnst þetta rannsóknarefni. Hv. þm. telur ekki heldur ástæðu til að rannsaka, hvers vegna Sjálfstfl. hafði æft menn sína í vopnaburði vikum saman. En nú skal ég segja hv. þm. frá minni skoðun á því hlutverki, sem Sjálfstfl. lék þennan dag. Liðinu var skipt. Einn hluti þess stóð að baki lögreglunnar framan við alþingishúsið, 927 manns. Hvert var hlutverk þeirra? Dettur nokkrum í hug, að þessir berhentu og sennilega loppnu unglingar, loppnu í orðsins upphaflegu merkingu eða þeir, sem ekki geta valdið verkfæri, dettur nokkrum í hug, að þeir hafi átt að vera baksveit lögreglunnar, sem kæmi henni til aðstoðar? Nei, enda telur lögreglan þá hafa verið sér til óþæginda, en einhver tilgangur hlaut að vera með því að láta þá standa þarna, og eina hugsanlega skýringin er þetta: Sveitin átti að ögra almenningi. Þetta voru — á vondu máli — „provókatörar“, sem áttu að ögra, æsa. Annað hlutverk gátu þeir ekki haft. Það er vitanlega mikil ögrun í því að skipa lögregluþjónum framan við alþingishúsið, en að baki þeim hóp útvalinna manna úr ákveðnum stjórnmálaflokki. Þetta var ögrunarsveitin, hinir 927, sem æfðir voru í flokkshúsi Sjálfstfl. og skráðir þar og æfðir úti á víðavangi við kylfuburð og hjálm, en þó ekki með þessi tæki þá. Þetta var fyrsta sveit, „provókatörarnir“.

Önnur sveitin var svo inni í sjálfu Alþingishúsinu, fyrst og fremst í herbergi bændaflokksins, Framsfl., frjálslynda samvinnuflokksins. Sú hafði barefli og hjálma, sem sé vopn og verjur. Þessari sveit var hleypt út til að berja friðsama borgara, og til hvers? Til þess að fullkomna starf þeirra, sem að baki lögreglunnar stóðu, „próvókatöranna“.

Það sýndi sig, að svo var stilling og skapfesta reykvískra borgara mikil, að egningarsveitirnar, „próvókatörarnir“, dugðu ekki til. Það þurfti menn með kylfur og hjálma. Þetta var önnur deild Sjálfstfl. Til hennar þurfti að grípa til þess að fá reykvíska borgara til að varpa jafnvægi sínu. En ég hygg, að Sjálfstfl. hafi átt fleiri skipulagðar sveitir þennan dag. Ég hygg, að hann hafi átt tvær í viðbót. Ég tel ákaflega miklar líkur á, að þeir, sem byrjuðu að kasta aur og eggjum í þinghúsið að kvöldi hins 29. marz, og þeir, sem hófu sama leikinn um hádegi 30. marz, hafi verið út sendir af Sjálfstfl. Mjög auðvelt hlaut að vera að koma þessu af stað, því að liðveizlu mátti vænta frá drengjunum, sem njóta þess að „gera at“ í lögreglunni, eins og alþekkt er á gamlaárskvöld. Þá hygg ég, að Sjálfstfl. hafi átt fjórðu sveitina á Austurvelli þennan dag. Ég hygg, að á Austurvelli hinn 30. marz hafi verið fjórða sveit Sjálfstfl., skipulögð til að bera vitni, — ljúgvitni, ef ekki vildi betur til. Það hefur komið ljóst fram síðan, að þau vitni, sem kölluð hafa verið í hinum svo nefndu réttarhöldum út af óeirðunum, eru yfirleitt flokksbundin í Heimdalli. Og meira að segja innan skólanna hafa þessir piltar komið fram með kærur á skólasystkini sín, og framkvæmdastjóri Heimdallar, Jóhann Hafstein, hefur, að því er fullvíst er talið, getað haft áhrif á, að slíkar kærur væru dregnar til baka. — Þetta var fjórða sveit Sjálfstfl. Þá er hringurinn lokaður.

Nú þykir mér skylt að verja nokkrum tíma til að gefa skýringu á því, hvers vegna alls þessa þótti við þurfa. Sú skýring er tiltölulega auðveld. Við þurfum þá fyrst að vera minnugir þess, að við lifum í þjóðfélagi, þar sem fámenn auðstétt ræður lögum og lofum, þar sem kjör alls almennings, verkamanna, bænda, smáframleiðenda og smáútvegsmanna, eru sniðin eftir því, hvað hin fámenna auðstétt telur sig geta látið af hendi rakna. Þessi auðstétt á heilan stjórnmálaflokk, hún hefur skapað hann og viðheldur honum, gefur honum allt sitt gildi og baráttumátt. Sá flokkur er Sjálfstfl. Hlutverk hans er að tryggja, að ríkisstj., löggjafarvald og dómsvald séu í þjónustu auðstéttarinnar, svo að tryggt sé, að þjóðin fái aldrei stærri hlut af þeim verðmætum, sem hún aflar, en auðstéttinni þykir henta. Og auðstéttin og flokkur hennar hafa náð furðulegum tökum á íslenzku stjórnmálalífi. Þessi tök tryggir hún sér með því að ná samningum til skiptis við þá þrjá flokka, sem íslenzk alþýða hefur myndað sér sem baráttutæki. Hún hefur t. d. náð samstarfi við minn flokk, Sósfl., sem er fulltrúi og málsvari verkalýðs- og láglaunastéttanna. Til allrar hamingju varð það samstarf ekki langt, en það varð lærdómsríkt, og því er óhætt að treysta, að sá flokkur mun ekki, a. m. k. með þeirri forustu sem hann hefur nú, fara aftur inn á þá braut. Nokkru betur hefur orðið ágengt með gamla verkalýðsflokkinn, Alþfl. Hann hefur Sjálfstfl. í raun og veru innlimað svo gersamlega í sitt baráttukerfi, að þessara flokka sér nú ekki lengur skil, og það er þess vegna, að ég leyfi mér í ræðu minni að gefa honum nafnið Aðstoðaríhald h/f. Þennan flokk hefur auðstéttin og Sjálfstfl. innlimað í sitt baráttukerfi, og hann hefur sama hlutverk og stór hlutafélög, í fyrsta lagi að vernda hagsmuni hluthafanna sjálfra og í öðru lagi kapítalið. Nú er rétt að taka það fram, að varla er til svo spillt borg, að ekki finnist þar fáeinir réttlátir. Og réttlátir menn finnast líka í Alþfl., sem neita að ganga inn í Aðstoðaríhaldið h/f. En þeir eru í minni hluta og ráða engu um stefnu flokksins. Þá hefur auðstéttinni í þriðja lagi tekizt að mynda náið bandalag við þann flokk, sem kennir sig við samvinnu og vill berjast fyrir bændur og hina snauðu yfirleitt, Framsfl. Ég vil ekki hafa um hann sömu orð og um Alþfl., en þó er það víst, að til eru nokkuð margir menn í þeim flokki, sem eru orðnir svo stórir hluthafar í einkafyrirtæki auðstéttarinnar, að þeir eiga tæplega afturkvæmt þaðan. Aðrir standa fjær dyrum og sumir utan dyra.

Þrátt fyrir allt þetta, sér nú auðstéttin íslenzka fram á það, að völd hennar eru ekki trygg í landinu. Hún sér íslenzkri alþýðu vaxa ásmegin, sér hana auðgast að þekkingu og skilning hennar á eðli þjóðfélagsins aukast stöðugt og hraðfara. Auðstéttin veit, að þetta er tákn tímanna, veit, að þetta er brumið á hinum íslenzka þjóðarmeiði, sem gæti boðað vorið, gæti boðað það, að auðstéttin yrði að láta af höndum auð sinn og völd, að almenningur fengi að njóta þess, sem hann aflar og framleiðir, og afætustéttin yrði óþörf. Og svo langt er komið þessari þróun, að þegar auðstéttin stendur frammi fyrir því, að fjármálaþróunin er orðin slík, að vandamál krefjast úrlausnar, sem ekki verða leyst nema annaðhvort á kostnað auðstéttarinnar eða almennings, þá efast hún um, að hægt verði að bjóða almenningi að leysa þau einhliða á hans kostnað.

Nú gerist það, sem er engin nýlunda og form. Framsfl., Hermann Jónasson, hefur lýst vel, að þegar auðstéttin er komin í þessa aðstöðu og auk þess gerspillt og rótfúin, þá leitar hún trausts og halds hjá erlendu auðvaldi. Hún veit, að ekkert í heiminum er eins alþjóðlegt og kapítalið og þeir, sem ráða yfir því. Í þessu skyni hefur hún lagt á okkur fjötra Marshalls- og Atlantshafssamninganna og með því tengt okkur hinum stóra vagni ameríska auðmagnsins. En þrátt fyrir allt gæti verið hættulegt að gera þetta, ef verkalýðshreyfingin væri vel vakandi og alþýðu á Íslandi væri ljóst, hvað er að gerast. Þetta gæti orðið hættulegt auðstéttinni, ef verkalýðshreyfingin ætti vel skipulagðan og stóran stjórnmálaflokk, sem gæti verið vopn í höndum hennar engu síður en Sjálfstfl. í höndum auðstéttarinnar.

Mergurinn málsins er þessi: Þessi stétt og þessi flokkur er á því þróunarstigi, að hún telur sig þurfa að gripa til örþrifaráða til að hindra starfsemi frjálsrar verkalýðshreyfingar og sósíalistískra flokka. Það er ekki einhlítt að hafa Framsfl. og Alþfl. ásamt Sjálfstfl. til þess að stjórna Alþýðusambandinu, ef eftir eru frjáls samtök frjálsra manna og vel upp byggður stjórnmálaflokkur, sem heldur fast á málstað alþýðunnar í landinu. Þetta þróunarstig er alþekkt úr sögunni, og þegar auðstétt einhvers lands er komin á það stig, þá er komið „vor“ fasismans, og það orð vil ég biðja þingritarana að hafa í gæsalöppum. Þá er komið „vor“ fasismans, með öllum þeim vormerkjum, sem því fylgja. Og aðfarirnar eru þekktar frá öllum þeim auðvaldslöndum, sem þessa braut hafa gengið. Stjórnmálaflokkar auðstéttarinnar búast nú vopnum. Við þekkjum það frá Ítalíu, Þýzkalandi, Portúgal, Grikklandi, Spáni, Rúmeníu o. s. frv. Stjórnmálaflokkarnir búast vopnum. Það er fyrsta einkennið. Egningarnar, „próvókasjónirnar“ hefjast. Þessir flokkar — skipulagt lið — ganga að því með oddi og egg að reyna að egna til átaka. Tilefni eru búin til, ef ekki vill betur til, sbr. hið alþekkta dæmi um ríkisþinghúsbrunann í Þýzkalandi, sem yfirlýst var af nazistum, að orðið hefði af völdum kommúnista, og notað sem merki til allsherjar atlögu gegn kommúnistum og verkalýðshreyfingu Þýzkalands. Þetta er hið annað einkenni, egningarnar. — Þá er þriðja einkennið: Einkenni ljúgvitnanna. Þessir gjaldþrota flokkar yfirstéttarinnar skipuleggja ljúgvitni og láta þau votta, að kommúnistar og forustumenn úr verkalýðshreyfingunni hafi verið staðnir að verkum, sem þeir hafa ekki nálægt komið, sbr. vitnaleiðslurnar út af þinghúsbrunanum.

Allt hefur þetta nú gerzt á Íslandi. Í fyrsta lagi hefur ákveðið stjórnmálafélag verið vopnað. Þá hefur verið reynt að egna til óeirða og skapa þannig átyllu til ofsókna gegn verkalýðshreyfingunni. Og loks hefur verið skipulagt ljúgvitnalið Heimdallar til þess að bera vitni í þessu máli. — Nú má svo ekki gleyma einum þætti, sem hlýtur að sigla þarna í kjölfarið, en það eru réttarofsóknirnar. Í auðvaldsþjóðfélagi, sem er komið á stig fasismans, hætta dómstólarnir að vera hlutlausir og gerast verkfæri í þjónustu hinnar ráðandi stéttar og flokka og réttarofsóknirnar hefjast. Þannig hefur svipurinn verið á þeim svokölluðu rannsóknum, sem farið hafa fram út af þessum atburðum undir handleiðslu sakadómarans í Rvík. Það, sem einkum er spurt um þar, er þetta: „Í hvaða stjórnmálafélagi ertu?“ Hér er ekki verið að leita skýringa á atburðunum. Hér er ekkert hlutlægt að gerast. Það er verið að leita að ákveðnum mönnum úr ákveðnum flokki og sökum á hendur þeim. Og þetta eiga að heita réttarrannsóknir! Það eru réttarofsóknir.

Sem sagt, allir þeir atburðir, sem gerðust í sambandi við inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, voru ein samfelld keðja, allt frá heræfingum Sjálfstfl. til réttarofsókna sakadómara, og þessa keðju átti að leggja sem fjötur um fætur hinnar íslenzku verkalýðshreyfingar og Sósfl. Þetta er mergur málsins.

Ég skil það vel, að hv. þm. Ísaf. skuli ekki eiga nein orð til að lýsa undrun sinni yfir því, að það skuli vera farið fram á, að þetta mál verði rannsakað. Viðbrögð hans eru viðbrögð eins hinna seku. Hann vill ekki rannsókn, hann óttast hana. Og hann mun ugglaust gera sitt til þess, að þd. vísi þessu máli frá á einn eða annan hátt. En hitt er víst, að málinu verður ekki þar með vikið frá dómstóli þjóðarinnar og sögunnar. Þjóðin mun vissulega dæma í þessu máli, og sagan mun vissulega dæma í þessu máli. Hún mun skrá það skýrum stöfum, að þann 29. og 30. marz 1949 var gerð stærsta, bezt undirbúna og markvissasta tilraun til að innleiða fasisma á Íslandi, sem um getur. Aldrei hefur íslenzk yfirstétt sem þá vandað sig með allan undirbúning og verið jafnákveðin í að láta skríða til skarar og hefta framgang verkalýðshreyfingarinnar og Sósfl. og tryggja enn um sinn auð sinn og völd í landinu.

Ég verð að segja, að mér er ekki alveg ljóst, hvernig hv. þm. ætla að svara kjósendum sínum, þegar þeir verða spurðir: Hvers vegna vilduð þið ekki, að Alþ. rannsakaði þetta mál? Hvers vegna mátti rannsókn ekki fara fram? Það var hægt að nefna til úrvalsmenn úr öllum flokkum. Í þeirra hópi hlutu að vera beztu lögfræðingar landsins til að kveðja til að upplýsa málið. Hvað var að óttast? Því ekki að rannsaka málið? Eða er með það eins og Atlantshafsbandalagið sjálft, að eigi megi ræða það? En ekki má gleyma atburðinum sjálfum, og hann er sá, að þann 30. marz, þegar mannfjöldinn var samansafnaður, voru allmargir menn með ljósmyndavélar og kvikmyndavélar. Þeir tóku myndir af því, sem gerðist. Ég hef heyrt lýsingu á þeim. Þær hafa verið sýndar á heimilum og allmargir fengið að sjá þær. En hér hefur þó gerzt undarlegur atburður. Þegar eigendur myndanna vildu sýna þær og kvikmyndahúsin taka þær sem aukamyndir, þá kemur lögreglustjóri til og bannar það. Hvers vegna? Þessar myndir eru eitt af því, sem málið varðar, er það er rannsakað. Í sama mund gerist það, að í hinu mikla landi, Ameríku, sem hv. þm. G-K. segir, að við verðum að hlýða, eru slíkar myndir sýndar sem aukamyndir. Hvað veldur? Hví megum við ekki sýna myndirnar af atburðunum 30. marz? Hví mega ekki friðsamir borgarar sjá myndir af sjálfum sér? Hví ekki sjálfstæðismenn? Hví ekki lögreglan? Eða hinir 927? Hvers vegna er verið að dylja þetta?

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta mál. Skoðun mín var sú, að umr. væru tiltölulega óþarfar, því að margt hefur verið sagt um málið. En hv. þm. Ísaf. virtist eitthvað smeykur. Hann þurfti að ræða málið af hinni alkunnu snilld sinni, sem enginn efast um, og gáfum, er heldur enginn efast um, og mælsku sinni. Þá þótti mér ástæða til að segja nokkur orð. En ég álít, að d. ætti að vera þess vel umkomin að greiða atkv. um málið. Sé hins vegar óskað eftir umr., skal ekki standa á mér. Mun þá verða fleira, er ræða þarf um. Má og enn benda d. á, að margt er þess eðlis, að það ætti að rannsaka