17.05.1949
Neðri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (4970)

194. mál, óeirðirnar 30. marz 1949

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs, var hin rökst. dagskrá, þar sem sagt er, að allir alþm. hafi séð atburðina 30. marz og vitað orsakir þeirra. Nú langaði mig til að vita, hvort þessir hv. þm., sem segjast vita allt um óeirðirnar, hafi ekki verið kvaddir til að gefa skýrslu hjá yfirvöldunum, sem hafa þetta til rannsóknar. Það er einkennilegt, þegar það kemur fram í þskj., að 3 þm. viti allt um óeirðir þessar, og langar mig til að vita, hvort þeir hafi ekki gefið sakadómara upplýsingar um þær, frekar en ég, sem var inni í þinginu og var samt kallaður fyrir sakadómara. Ég vil gera grein fyrir því, að ég var spurður um það, sem skeði utan þingsins og ég vissi ekkert um. En hafa þeir ekki verið kallaðir þessir hv. þm., sem allt þykjast vita um þessa atburði? En öll málsmeðferðin hér sýnir, að stjórnarfl. vilja ekki rannsókn á þessu máli. Ég var kallaður til rannsóknardómara af því, að ég flutti till. um mótmæli við samningnum og kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu frá Dagsbrún og frá fundi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna sama dag, sem sumir segja, að hafi verið haldinn af skrílnum, og flutti kröfurnar inn í Alþ. til að fá svar við þeim hjá hv. þm. Ég held, að það hafi aldrei komið fyrir áður, að þm., sem ber fyrirspurn fram fyrir forseta, hafi verið kvaddur fyrir rétt vegna þess. Þetta er einsdæmi í þingsögunni, og ég held, að það eigi vart sinn líka, þó að víðar sé leitað. Ég kem hér inn í þingið og vil fá svar við kröfu um þjóðaratkvgr. Ég er kallaður fyrir sakadómara, en þeir hv. þm., sem lýst hafa því yfir í rökst. dagskrá, að þeim sé kunnugt um allt, sem að þessu máli lýtur, þeir eru ekki kallaðir fyrir. En hvert sem gengið var, voru lögregluþjónar, og ef maður vék sér frá, var maður undir lögreglueftirliti. Ég gerði ekkert annað, en flytja samþykktir verkalýðsfélaga í þingið, en samt sem áður var ég kallaður fyrir rétt. Og um hvað var ég svo spurður? Ég var spurður, hvort ég hefði vitað um nefndina — ég var einn í n. — og hvort ég hefði vitað, að hátalari var á fundinum. Ég vissi það. En aðallega var ég spurður, hvort samþ. hefði verið, að þeir, sem færu með samþykktirnar, kæmu aftur með svarið. En til hvers var að bera fram samþykktirnar, nema að fá þeim svarað og flytja það til baka? Öll meðferðin á þessu máli bendir til, að það sé orðið saknæmt fyrir félag að halda fund og senda samþykktir, sem þar eru gerðar, til Alþ., og sá, sem fer með samþykktirnar, er tekinn fyrir sakadómara. En það hefur fyrir fram verið ákveðið, hvernig málið átti að fara, sem sést bezt á því, hverjir eru kallaðir fyrir, og allt þetta stafar af vandræðunum, sem heyrðist hvíslað 29. marz, hvort ekki væri hægt að taka þessa menn. En það voru vandræðin, að engin skipuleg árás var gerð, eins og þeir höfðu talið sér trú um, þar sem samvizkan var svo slæm, af því að málstaðurinn var svo vondur, að full ástæða hefði verið til skipulegrar árásar. En það varð bara ekki, af því að Reykvíkingar eru rólegir og seinæstir til vandræða, og af þessu stöfuðu vonbrigði stjórnarliðsins.

Ég vildi ekki láta því ómótmælt, að ég skyldi vera kallaður fyrir rétt, þó að ég vissi ekkert um þessi mál, aðeins af því, að ég færði inn í Alþ. samþykkt félags, sem ég er formaður í, og fulltrúaráðsins, þar sem ég er meðlimur.