10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (4975)

28. mál, hvíldartími háseta á togurum

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Á undanförnum þingum hef ég ásamt hv. 8. þm. Reykv. (SG) flutt frv. um breyt. á hvíldartíma háseta á togurum. Ástæðan fyrir því frv. hefur verið skýrð fyrir hv. þm., en hún er sú, að sá vinnutími, sem búið er að ákveða á togurum, sé allt of langur. Síðan það frv. kom fram, skeði það, sem búizt var við, að sjómenn tóku mjög fegins hendi við þessu frv. og sendu áskoranir til Alþ. um að samþykkja það, þannig að fyrir liggja áskoranir frá flestum togarahásetum hér á landi. — Á fyrsta þinginu, sem þetta mál var tekið fyrir, var því vísað til n., en minni hl. vildi samþykkja það. Á síðasta þingi fékk málið þó alltaf afgreiðslu, og lagði minni hl. til, að það yrði samþ. óbreytt, en meiri hl. vildi vísa því til ríkisstj. Við flm. töldum þetta ekki góða afgreiðslu og vildum, að þingið samþykkti frv. eins og það lá fyrir. Það, sem réð þeirri afstöðu okkar, var það, að sú aðferð, sem meiri hl. vildi beita, væri til þess að svæfa málið. Fleiri voru sömu skoðunar, en meiri hl. leit svo á, að málið ætti að fara til ríkisstj., og forsrh. gaf út yfirlýsingu þess efnis, að þessu máli yrði mjög hraðað. En nú er liðinn langur tími síðan og ekki kunnugt, hvort sú n., sem átti að athuga þetta, hefur starfað, en kunnugt er, að nefnd þessi var sett á laggirnar. Þess vegna er þessi fyrirspurn komin fram, að við flm. vildum, að það lægi skýrt fyrir, hvað það er, sem n. hefur gert.