10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (4977)

28. mál, hvíldartími háseta á togurum

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson):

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þessa skýrslu við þessari fyrirspurn. Í sambandi við ummæli hans um skipun þessarar n., sem hefur fengið málið til meðferðar, get ég tekið undir það, að ég tel, að vel hafi tekizt með skipun þessara manna. En ég verð að lýsa óánægju minni yfir því, hvað lítið n. virðist hafa gert þann tíma, sem hún hefur starfað, því að þótt maður viðurkenni, að sumarið sé ekki mikill starfstími, þá er þó nokkuð líðið síðan n. var skipuð og til þessa dags, og hæstv. forsrh. staðfesti það, sem ég hafði fregnað, að n. hefur ekki haldið nema einn fund á þessu tímabili.

Mér finnst heldur lítið um þá yfirlýsingu hæstv. forsrh., að hann hafi ekki tilhneigingu til að setjast á málið. En að sjálfsögðu fagna ég henni, þar sem hann er maðurinn, sem á að taka á móti till. þessarar n. og fylgjast með störfum hennar, en undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að þessi n. vinni betur í framtíðinni en hún hefur gert hingað til. Málið er þannig, að þó að það þurfi að rannsaka vel, þarf að hraða því svo sem tök eru á.