28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (4980)

900. mál, landbúnaðarvélar

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram þessa fyrirspurn til hæstv. atvmrh. viðvíkjandi þessum hlutum. Að vísu hefur það komið fram, eftir að ég lagði fram þessa fyrirspurn, að hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir í þeirri fjögurra ára áætlun, sem hún hefur birt, allmiklum innflutningi á landbúnaðarvélum. Ef ég man rétt, hefur það komið fram í skýrslu hæstv. ríkisstj., að hún hafi gert áætlun um kaup á landbúnaðarvélum fyrir eitthvað um 60–70 millj. kr. í erlendum gjaldeyri á því tímabili, sem áætlun hennar nær yfir. En þrátt fyrir þessar upplýsingar hefði ég talið æskilegt, að upplýsingar hefðu fengizt um viss atriði í sambandi við það, sem hér er spurt um. Í fyrsta lagi, hvort þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um þetta, eru byggðar á upplýsingum frá bændum sjálfum og félagasamtökum þeirra, svo sem búnaðarfélögum, búnaðarsamböndum og ræktunarsamböndum. Ég tel það hafa nokkra þýðingu í þessu efni, hvernig þessar áætlanir eru gerðar, hvort þær eru byggðar á óskum bændanna sjálfra og þeirra félaga eða hvort þær eru gerðar með öðru móti. — Þá hefði ég einnig talið æskilegt, að fengizt hefði sundurliðun á þessari áætlun, sem þegar hefur verið gerð af stj. um innflutning á landbúnaðarvélum, hvað þar er mikið áætlað til innflutnings á hverju fyrir sig, og loks, hvort stj. hafi gert nokkrar sérstakar ráðstafanir og þá hverjar til útvegunar á þessum vélum.

Ég sé að svo stöddu ekki ástæðu til þess að fara um þessa fyrirspurn mína fleiri orðum.