28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (4982)

900. mál, landbúnaðarvélar

Finnur Jónsson:

Ég vildi til viðbótar við þær upplýsingar, sem hæstv. atvmrh. hefur gefið, bæta við örlitlu.

Í bréfi Búnaðarfélagsins frá 22. sept. er tekið fram, að miðað sé við 4 ár, eða það tímabil, sem miðað er við í Marshalláætluninni. Síðan skrifaði Búnaðarfélagið annað bréf, þar sem það tók fram, að nauðsynlegt væri, að innflutningurinn væri ekki rígskorðaður þannig, að jafnt væri skipt á milli ára, þar sem innflutningur vissra hluta væri aðkallandi.

Þann 17. sept. kom önnur áætlun, frá verkfæranefnd ríkisins, og er í henni miðað við 3 ár, gagnstætt því, sem er í áætlun Búnaðarfélags Íslands, þar sem miðað er við 4 ár. Þessar tvær áætlanir hafa það sameiginlegt, að í báðum er gert ráð fyrir um 60 millj. kr. innflutningi, en að öðru leyti er samræmið næsta lítið. Innflutningsmagn sömu vélanna er ákaflega mismunandi í þessum tveimur áætlunum, Búnaðarfélags Íslands og verkfæranefndar ríkisins, og virðist hafa verið ákaflega lítil samvinna milli þessara aðila um samningu áætlananna, jafnvel svo, að hvorugir hafi vitað af öðrum, og er þó hæstv. atvmrh. í stjórn Búnaðarfélagsins, svo að hann hefði átt að vita hvað þar gerðist. Ég sé hér t. d., að í áætlun Búnaðarfélagsins er gert ráð fyrir 80 dráttarvélum, en í skýrslu verkfæranefndar 156. Í skýrslu Búnaðarfélagsins er gert ráð fyrir 3.500 sláttuvélum, en í áætlun verkfæran. 3.000. Búnaðarfélagið áætlar 3.500 rakstrarvélar, en verkfæran. 1.500. Í áætlun Búnaðarfélagsins er gert ráð fyrir 4.000 múgavélum, en fyrir 1.500 í áætlun verkfæran. Þá er gert ráð fyrir 1.500 jeppabifreiðum í áætlun Búnaðarfélagsins, en 2.000 í áætlun verkfæran. Og þannig er hægt að halda áfram að telja upp þetta ósamræmi.

Ég skal nú engan dóm á það leggja, hvor áætlunin muni vera réttari, en mér finnst, að ganga þurfi úr skugga um það varðandi einstaka liði, hvora áætlunina skuli leggja til grundvallar, en þó fyrst og fremst það, hvort framkvæma skuli áætlunina á 3 eða 4 árum, og svo í öðru lagi, hve mikið magn af hverju fyrir sig skuli flutt inn. Ég vil nú á engan hátt vanmeta starf þessara aðila, ég veit, að Búnaðarfélagið hefur haft samstarf við starfsmann í fjárhagsráði. Og ég tel mig ekki dómbæran um það, hvor áætlunin muni vera réttari, en þar ber svo mikið á milli, að ekki er hægt að kalla þetta áætlun frá landbrn. eins og sakir standa; það er ekki einu sinni ákveðið, hvort hún skuli framkvæmd á 3 eða 4 árum. Ég ber að órannsökuðu máli traust til þeirra, sem samið hafa þessar áætlanir, en báðar er ekki hægt að leggja til grundvallar. Það væri vel, ef búnaðarmálastjóri, sem er hér á Alþ., vildi athuga, hvað á milli ber, og tilkynna réttum aðilum niðurstöður sínar, svo að unnt væri að ráða fram úr þessu á skynsamlegan hátt.