28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í D-deild Alþingistíðinda. (4983)

900. mál, landbúnaðarvélar

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. þurfti að víkja af fundi, og ég tel því rétt, að ég svari hv. þm. Ísaf. nokkrum orðum. Ég skal taka það fram, að þessar tvær áætlanir eru samdar algerlega sjálfstætt. Ég vissi ekkert um það, að verkfæran. ynni að áætlun, og henni mun hafa verið ókunnugt um áætlun Búnaðarfélagsins. Þetta ætti þó ekki að saka mikið, og hv. þm. Ísaf. gerir úlfalda úr mýflugunni varðandi það ósamræmi, sem er á milli áætlananna. Eins og hv. þm. tók fram, þá kemur út hér um bil sama heildarupphæðin í áætlununum báðum, hvað vélaþörfina snertir, og skiptir það mestu máli; og varðandi allt, sem þarf til búnaðarsambandanna, er fullkomið samræmi, og skakkar aðeins svolitlu í upptalningu, þar sem öðruvísi er stillt upp. Algert samræmi er um smærri dráttarvélar, eða dráttarvélar af Farmallgerð eins og það er orðað. Báðar áætlanirnar gera ráð fyrir um 3.000 dráttarvélum í 4 ár. Þetta er í rauninni grundvöllurinn að því að birgja landbúnaðinn upp af hinum nauðsynlegustu vélum. Ég hef ekki séð þessa áætlun verkfæranefndar fyrr en í dag, en ég sé, að um þetta aðalatriði ber ekki mikið á milli.

Hvað jeppana snertir, er munurinn 500; við áætluðum þá 1.500, en verkfæranefnd 2.000. Um það má auðvitað deila, hvort réttara muni vera, en ég skal geta þess, að ég fór viljandi varlega í að áætla innflutningsmagnið af jeppunum, en áætlaði tiltölulega fleiri Farmall-dráttarvélar, því að að notagildi komast jepparnir ekki til jafns við þær, þótt þeir séu þægilegir. Hv. þm. benti á ágreining um rakstrarvélar, en á það skal bent, að þær gilda mjög lítið fjárhagslega í áætluninni, og má um það deila, hve mikið á að áætla til uppfyllingar þeirra véla, sem ganga úr sér, og hve mikið af nýjum vélum til hreinnar viðbótar. Ég veit, að það má benda á einstaka liði, sem eru í ósamræmi af eðlilegum ástæðum, en það mundi vera auðvelt að fá út úr þessu algerlega heilsteypta áætlun. Ég tel ósamræmið ekki stórt, og það mun stafa af ókunnugleika hv. þm. á landbúnaðarmálum, að hann sér ekki, að slíkt ósamræmi er eðlilegt um áætlaða þörf á ýmsum tækjum, þar sem hvorugir vissu af öðrum. — Varðandi áætlunartímann þá var okkur uppálagt að miða við 4 ár og gerðum það að sjálfsögðu. Áætlunin er byggð á því, að vélaþörf landbúnaðarins á þeim tíma sé sæmilega fullnægt, og við lögðum áherzlu á það, þótt við miðuðum í heild við 4 ár, að á fyrsta árinu fáist innflutt tækin til búnaðarsambandanna sérstaklega, og sömuleiðis lögðum við áherzlu á það, að meira en ¼ dráttarvélanna fáist innfluttur á fyrsta ári og enn fremur ýmis önnur hin nauðsynlegustu tæki, þannig að sem fyrst sé bætt úr brýnustu þörfunum.

Hv. þm. nefndi enn misræmi áætlananna varðandi innflutning á sláttuvélum. Við gerðum ráð fyrir 3.500 sláttuvélum, en verkfæranefnd fyrir 3.000. Slíkt misræmi er ekki nema fullkomlega eðlilegur hlutur, þar sem eins er í pottinn búið, og finnst mér gæta tilhneigingar hjá hv. þm. til að gera meira úr ósamræmi áætlananna en það er í rauninni, hvernig sem á því stendur. Og það er meira að furða, hve víða er með þeim nær algert samræmi.

Hinn takmarkaði tími minn er víst á enda, en ég skal aðeins lýsa yfir því, út af ummælum hv. þm. Ísaf., að ég er fús til að taka til athugunar þessa áætlun og sjá um samræmingu, því að ég tel, að ekki beri meira á milli en svo, að auðvelt ætti að vera að koma á samræmi; það er nú þegar í þeim atriðum, sem mestu máli skipta.