28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (4984)

900. mál, landbúnaðarvélar

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra, að hv. 1. þm. Skagf. vill taka áætlunina til athugunar, því að ég sný ekki aftur með það, að mikið ber á milli í áætlununum um fjölda hinna einstöku verkfæra. Ég get enn bent á það til dæmis, að verkfæranefnd gerir ráð fyrir 156 beltisdráttarvélum, en Búnaðarfélagið aðeins fyrir 80. Þetta eru mjög dýrar vélar, og eitthvert samræmi hlýtur að verða að vera þarna á milli. Önnur áætlunin hlýtur að fara nær lagi, en ég veit ekki hvor. Hvað þá staðhæfingu snertir svo, að ég sé ókunnugur búskap, þá kann það satt að vera, en þó mun verða erfitt að telja mér trú um það, að bóndi, sem þarf á rakstrarvél að halda, geti komizt af með sláttuvél, eða maður, sem vantar vagn, geti notað snúningsvél í hans stað. Einhvers staðar er það rétta í þessu. En ég bið hv. 1. þm. Skagf. að fyrtast ekki við mig, þó að ég bendi á þetta í þeim eina tilgangi að fá fram hið rétta. Báðar stofnanirnar geta ekki haldið því fram, að þeirra áætlun sé rétt. Það má enn benda á, að Búnaðarfélagið gerir áætlun um innflutning á súgþurrkunartækjum fyrir um 5 milljónir, en verkfæranefnd enga slíka áætlun. Og ég sé hér, að Búnaðarfélagið áætlar innflutning á 3.000 mykjudreifurum, en verkfæranefnd á 300, nema núllið kynni að hafa fallið burt af vangá. Búnaðarfélagið áætlar líka 2.000 áburðardreifara, en verkfæran. 500. — Tími minn er nú víst þrotinn, en ég ítreka það við hv. 1. þm. Skagf., að áætlunin verði tekin fyrir og lagfærð, því að eins og hún er, er ekki hægt að leggja hana til grundvallar.