03.11.1948
Sameinað þing: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í D-deild Alþingistíðinda. (4990)

37. mál, raforkumál

Fyrirspyrjandi (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Það er öllum kunnugt, að fyrirhugað hefur verið, að ríkið reki raforkuver og komi rafleiðslum frá þeim sem víðast. Það sér enginn enn þá fyrir, hve vítt þær kunna að spenna yfir né hve mörgum heimilum takist að fullnægja á þann hátt. En það er þó þegar ljóst, að það eru svæði og partar af svæðum í landinu, sem ekki verður fullnægt með rafmagn frá þeim orkuverum, sem ríkið kann að reka. Ef þessi svæði eiga að fá rafmagn, verður það að vera með öðrum hætti.

Vindrafstöðvar breiddust töluvert út á stríðsárunum, en þær hafa gengið mjög úr sér aftur, sérstaklega vegna þess, að tilfinnanlegur skortur hefur verið á varahlutum til þeirra. Margir eigendur þessara stöðva hafa aldrei fengið neina varahluti með þeim og innflytjendur þeirra ekki hugsað um að útvega þá, enda fullnægja vindrafstöðvarnar rafmagnsþörf heimilanna ekki nema að tiltölulega litlu leyti. Allmargir hafa fengið dieselstöðvar, þær eru miklu skárri og fullnægja að mestu rafmagnsþörf heimilanna, og hvað ljós snertir má segja hið sama um þær vindstöðvar, er bezt hafa reynzt.

Nú er það upplýst, að þeim heimilum, sem aldrei geta fengið raforku frá stórum virkjunum, ríður á að fá rafmagnsþörf sinni fullnægt, og yrði það trúlega helzt með dieselstöðvum. Við hv. þm. A-Sk. beinum því þessari fyrirspurn til hæstv. atvmrh. og vonum, að einhverjar leiðir séu á döfinni hjá hæstv. ríkisstj. til að hjálpa þessum heimilum. Ég fullyrði ekkert um, hve mörg þau eru, enda geri ég ráð fyrir, að það sjáist hjá raforkumálastjóra. En við væntum þess, að upp úr þessari fyrirspurn og því, sem ríkisstj. er væntanlega að láta undirbúa í þessum efnum, finnist leið til að fullnægja sem fyrst rafmagnsþörf þeirra heimila, sem hér um ræðir.