02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (5)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég kann ekki við að láta þetta mál fara gegnum d. án þess að láta álit mitt í ljós. Ég tel, að stj. hafi í þessu máli valið þá verstu leið, sem hægt var að velja. Ég hef frá öndverðu talið happdrætti mesta ólán, þau ala á verri kenndum manna og styðja að öryggisleysi í öllum hlutum. En stj. ýtir undir happdrættið, öryggisleysið. „Spilið þið bara. Setjið bara allt á guð og gaddinn og farið á hausinn á milli“ — það er sú hugsun, sem kemur fram í frv. Þessi hugsunarháttur hefur fram að þessu verið framandi öllum ráðandi mönnum þjóðarinnar, en nú notar stj. sjálf happdrætti. Ef vel gengur, græðist, annars fæst ekkert. Ég fyrirlít þetta af hjartans grunni, en sjálfsagt verður þetta samþ. hér, því að „hasard“ er nú orðið talinn sjálfsagður í öllum hlutum, en ég vil hafa í þeim öryggi.

En það er einnig annað, sem er athugavert í sambandi við þetta frv., og það er það, að hér er gengið inn á þá braut að leyfa mönnum að svíkjast undan skatti. Út frá mínum bæjardyrum séð er það sjálfsagður hlutur, að vinningarnir eiga að vera skattskyldir eins og aðrar tekjur, hitt hefur aðeins spillandi áhrif á hugsunarhátt manna. Og undir öllum kringumstæðum þarf að breyta frv. svo, að ljóst liggi þó fyrir, að menn eigi að greiða skatt af þeirri eign, sem myndast vegna vinninga í happdrættinu.

Hv. þm. Dal. gat þess, að l. væru þegar framkvæmd, og að sjálfsögðu verður gerð leiðrétting á fyrirsögn frv. í samræmi við það. Ég mun ekki bera fram neinar brtt, við frv., heldur greiða atkv. gegn því. Sá hugsunarháttur, sem býr að baki frv., er óforsvaranlegur og andstæður öllu því, sem heilbrigt er. — Ég vildi segja þessi orð til þess að láta í ljós álít mitt á þessu frv.