10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í D-deild Alþingistíðinda. (5004)

51. mál, vegamál

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að ég bjóst ekki við og óskaði ekki eftir nákvæmum skýrslum um breidd einstakra vega, því að það hefur ekki þýðingu í þessu sambandi, enda hefur vegamálastjóri og hæstv. ráðh. svarað hér almennt og líkt og ég bjóst við. En ég vil aðeins undirstrika það við hæstv. ráðh. og við hv. form. fjvn. og aðra hv. nm., sem þetta heyrir undir, að það þyrfti að auka þennan viðbúnað við vegina og að reynt sé að bæta úr þessu, sem áfátt er um útskot og merkingu vega. Ég vil nefna eitt dæmi, sem ég tel sýna, að vegamálastjórinn leggi ekki nægilega glöggt fyrir verkstjóra sína að gera tiltölulega einfaldar og sjálfsagðar umbætur í þessum efnum. Ég fór í sumar um Landveginn, og ég hygg, að á einum stað hafi þar verið á annan km venjulegur mjór vegur yfir mýrarsund, og hvergi á þessum kafla var staður til þess að mætast á. Það er fjarstæða og óþarfi að hafa þetta svona, því að það er það mikið fé lagt til viðhalds á vegum, að ef yfirstjórn vegamálanna hefði auga á þessu, þá er hægt að bæta úr þessu. Og ég hef aldrei getað skilið það um t. d. veginn í Fljótshlíðinni — og ég vildi, að vegamálastjóri vildi aka þann veg; ef hann hefur ekki gert það — að ekki skuli hafa verið sett merki þar frekar en gert hefur verið. Þar er aldrei hægt að sjá langt fram fyrir sig, og ef bakkað er þar, þar sem vegurinn er krókóttur og hengiflug fyrir neðan, þá er boðið upp á slys. Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það, að 200 m ætti að vera hámark á lengd milli staða til að mætast á á vegum. Og reyna þarf að búa svo um, að það sjáist langt til, hvar á að mætast. Og þetta fyrirkomulag hygg ég að til langframa mætti vel við una. En það hefur ekki verið gott skipulag á þessu enn þá. Og ég vil enn fremur víkja að hinu, að það eru vissir staðir, þar sem eru beinir hættustaðir, þar sem vegamálastjórinn og jafnvel sjálfur hæstv. samgmrh. gætu gefið meiri fyrirmæli heldur en gert hefur verið um að bæta úr. Það er ekki ástæða til, að nokkur möguleiki sé fyrir hendi til þess, að bílar geti t. d. farið út af í Kömbum, sem rekja mætti orsök að til þess, að vegurinn væri ekki nógu góður þar.

En yfirleitt er ég ánægður með svör hæstv. ráðh. Og ég vona, að hann beiti áhrifum sínum til þess, að þessir hlutir, sem ég hef gert að umtalsefni, verði betur úr garði gerðir heldur, en verið hefur hingað til.