10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (5005)

51. mál, vegamál

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil, út af því, sem hv. þm. S-Þ. sagði síðast, að það væru allt of margir og langir vegakaflar útskotalausir, sem ekki væri hægt að mætast á, segja, að ég er alveg sömu skoðunar og hann um þetta. En að þetta hefur ekki verið leiðrétt af viðhaldsfé vega, kemur til af því, að viðhaldsféð hefur á undanförnum árum verið á fjárl. þannig skammtað, að ekki hefur verið unnt að komast af með það til venjulegs viðhalds, svo að af þeim ástæðum hefur ekki verið unnt að gera verulegar breyt. á þessu sviði, nema með því að fara með greiðslur af viðhaldsfé vega fram úr áætlun umfram það, sem venjulegt viðhald veganna hefur farið fram úr áætlun. Nú hafa þeir, sem hlustað hafa á ræðu hæstv. fjmrh. hér fyrir nokkrum dögum, orðið varir við það, að litið er á það mjög alvarlegum augum, að þessi notkun á vegaviðhaldsfé væri mjög mikil fram yfir það, sem fjárl. ákveða. Og þess vegna hefur orðið að fara miklu hægar í þetta, sem hv. þm. var að ræða um, að gera útskot og setja merki, heldur en æskilegast hefði verið.

Það hefur orðið til þess, að langir vegakaflar hafa í þessum efnum orðið út undan. Hins vegar, ef hæstv. Alþ. vill, að gerð sé gangskör að því að bæta úr á þessu sviði, er enginn hlutur hægari, en að gera þetta. En þá þarf að veita til þess fé. Það er ekki eðlilegt, að hæstv. fjmrh. sé samþykkur því, að unnið sé að þessum framkvæmdum, þó að þörf sé á þeim, umfram það, sem í fjárl. er gert ráð fyrir. En um það, að hér sé ekki um smáupphæð að ræða, má tilgreina það, að ef á að gera útskot á þessa vegi með 200 m millibili, þá kostar það um það bil 7% af því, sem það kostar að gera vegina í upphafi, svo að þegar margra ára samansafn af vegagerðum kemur saman, og ef á að gera útskot á þá á tiltölulega stuttum tíma, þá geta þetta orðið miklar upphæðir, þegar saman kemur. Útskotin þurfa að vera 15 m löng og nokkurn veginn jafnbreið veginum. Og eftir athugun, sem gerð hefur verið um þetta, þá kemur í ljós, að þetta kostar um 7% af kostnaðinum við að leggja slíka vegi í upphafi, með því verðlagi, sem er á hverjum tíma. — Okkur er ekkert að vanbúnaði að gera þetta, annað en það, að Alþ. þarf, ef það á að gerast, að veita til þess fé.