10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í D-deild Alþingistíðinda. (5008)

901. mál, verðmæti landbúnaðarvöru

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. um það, hve mikið væri brúttóverð íslenzkra landbúnaðarafurða, miðað við innlent og erlent verðlag árið 1947. Ég þarf ekki að ræða mikið um þetta. Það útskýrir sig sjálft. Það liggja fyrir um þetta heildartölur. Það er verulegur hluti þjóðarinnar, sem álítur, að þessi framleiðsla sé svo að segja einskis virði, og ég verð að álíta rétt, að það komi hér fram frá hæstv. ríkisstj., hve mikið það fé er, sem fæst fyrir þessa framleiðslu.