10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (5016)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Út af ummælum, sem hér hafa komið fram, vil ég upplýsa það, að Kumbaravogshælið var upphaflega stofnað af Stórstúku Íslands. Ég var einn þeirra þriggja manna, sem stjórnuðu því þá og sáu um rekstur þess. Síðan tók ríkið við hælinu samkvæmt lögum, og er það var flutt að Kaldaðarnesi, var rekstur þess tekinn undan okkar stjórn og falinn ríkisspítulunum, og dr. Helgi Tómasson tók við hælinu 1946 með því skilyrði, að engin sérstök stjórn hefði afskipti af þeim, er hælið sæktu. Síðan hælið var flutt að Kaldaðarnesi, hefur sú stjórn, sem ég átti setu í, ekkert haft yfir því að segja, og síðastliðin tvö ár hefur, að ég hygg, engin stjórn verið fyrir hælið.

Um staðinn er það að segja, að hann var valinn af landlækni og Jónatan Hallvarðssyni sakadómara, og ég álít, að engin rök hafi legið til þess að leggja hælið niður í Kaldaðarnesi, og að það, sem átt hefði að gera, hefði verið að auka þar við húsnæðið, úr því að ekki var byggt þar að nýju, en það taldi ég strax óráð, að farið væri að endurbyggja gamla húsið.

Varðandi það, sem hv. þm. S-Þ. sagði um löggjöf, er takmarkaði sjálfræði vistmanna, er það að segja, að hún er til. Hún var sett samkvæmt óskum okkar, sem fyrir þessu hæli stóðum.

Varðandi það, hvernig hafi gengið að fá menn á hælið, á meðan það var undir okkar stjórn, get ég upplýst, að þar var ætíð hvert rúm skipað. Um ráðsmennsku hælisins síðan skal ég svo ekkert ræða. Ég býst við, að málið upplýsist enn betur en það gerði síðast, er það var rætt í Nd., og að það verði tekið til athugunar í félmrn. Nd.