10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (5017)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég efast ekki um, að það sé af falslausum áhuga, sem hv. þm. S-Þ. spyr um þetta mál, og því er skylt að upplýsa hann eins og frekast er unnt. Lítið nýtt held ég þó, að komið hafi fram í síðustu ræðu hans. Hann taldi þó sýnt, að öll meðferð þessara mála hefði verið í eindæma ólagi. — Ég vil bara benda hv. þm. S-Þ. á það, að Íslendingar hafa hingað til enga reynslu haft í þessu efni, og á engu slíku var að byggja, er fyrst var farið að reka hælið í Kumbaravogi. Og þó að talsverðu fé hafi verið varið til þessa hælis, þá hefur því ekki verið kastað á glæ, því að mikilsverð reynsla hefur fengizt, sem áreiðanlega verður byggt á í framtíðinni. T. d. eru nú allir orðnir sammála um það, að ekki sé hægt að komast af án tveggja stofnana fyrir þessa sjúklinga, svo ólíkt sem farið er um ástand þeirra, og a. m. k. önnur þeirra yrði að vera læknisstofnun, og það er sú stofnun, sem ráðgert er í frv. um þetta, að ríkið reki, en styðji aðeins að nokkru hið væntanlega dvalarheimili. Og það var einmitt þetta, sem olli mestu um samþykki heilbrmrn., að Kaldaðarnes reyndist ekki heppilegt, þar sem það var of fjarri umsjá hæfustu lækna.

Ýmsir hv. þm. virðast varla geta sofið út af því, að Skálholt hefur verið losað úr ábúð, og ekki er hægt að verjast þeirri hugsun, að allt þeirra tal sé fyrst og fremst sprottið af löngun til að láta líta svo út sem sérstök hlunnindi hafi með þessu fallið í skaut hv. 1. þm. Árn. Í því sambandi er rétt að undirstrika það, að þessi eignaskipti, sem atvmrn. stóð fyrir, fóru þannig fram, að allar eignirnar voru látnar af hendi samkvæmt matsverði. Sú venja hefur ávallt gilt um slík kaup, og ekki var hægt að hafa þar annan sjálfsagðari hátt á. Ég veit ekki betur, en ríkið hafi oft haft slík viðskipti við embættismenn sína og þingmenn, og þau þá farið fram með slíkum hætti. — Um heimild til þess að selja Kaldaðarnes hefur hæstv. atvmrh. gefið upplýsingar; hann benti á, að það hefði verið gert samkvæmt almennri lagaheimild um ríkisjarðir og húsin sem jarðarhús. En eins og ég gat um, hefur heilbrmrn. fengið um 400 þús. kr. fyrir húsin.

Hv. þm. Barð. spyr, hvað hafi þvingað ríkið til þess að losa Skálholt úr ábúð. — Vitanlega lögin um bændaskóla í Skálholti, ábúandi varð auðvitað að fá úr því skorið, hvort hann ætti að fá að sitja þar áfram, og var ekki hægt að hugsa sér, að hann sæti þar í óvissu; hann átti fulla kröfu á því að ríkið hefði þarna við hann hrein skipti. Nú hefði það e. t. v. verið talið æskilegt af mörgum, að hv. 1. þm. Árn. hefði engan annan kost átt, en að flytja á mölina til Rvíkur, og er sennilegast, ef svo hefði farið, að þá hefði ríkt ró og kyrrð í þingsölunum. En það undarlega skeði, að hann vildi nú halda áfram að búa og var gert það kleift, er honum bauðst Kaldaðarnes, sem hann vildi taka, þótt það væri illa útleikið. Og ég tel það atvmrn. til sóma, að það vildi greiða fyrir því á allar lundir, að hann gæti haldið áfram að búa og setzt að á þessu gamla höfuðbóli. Það var knýjandi nauðsyn að losa Skálholt, og væri meiri ástæða fyrir þm. að gleðjast yfir því, að hv. 1. þm. Árn. tók þann karlmannlega kost að flýja ekki af hólminum á mölina, heldur reisa bú á öðru höfuðbóli, og ég tel það þeim til sóma, sem stuðluðu að því, að svo gat orðið.

Ég get líka tekið það fram, að það hafði mikil áhrif á afstöðu mína til viðbótar öðrum ástæðum, að mér var kunnugt um það, að það var mikil og almenn óánægja yfir því, hvernig komið var um Kaldaðarnes, og þeim útgangi, sem á jörðinni var. Og ef hv. þm. hefðu aðstöðu til að skyggnast inn í það mál, mundu þeir sannfærast um, að þetta er rétt, og enn fremur, að ef ríkið hefði átt að ganga sómasamlega frá Kaldaðarnesi, hefði það orðið stórfellt fjárhagsspursmál. — Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni.