10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (5020)

902. mál, sjúkrahælin í Kumbaravogi og Kaldaðarnesi

Jörundur Brynjólfsson:

Það er í sjálfu sér ekki til mikils að taka til máls, þegar bara eru 5 mín. til umráða til þess að svara öllum þeim órökstuddu fullyrðingum, sem hér hafa verið bornar fram. Ég hefði líka getað látið hjá líða að taka til máls, þótt málið snerti mig, því að hæstv. ráðh. hefur gefið allýtarlegar upplýsingar. Ég mun hins vegar ekki skorast undan að taka þátt í umr., þar sem ég hef meira en 5 mín. til umráða, og mér þykir illt, ef ekki gefst tækifæri til þess síðar. En það er eitt atriði, sem ég vildi drepa á, og það er það, að hér hafa komið fram aðdróttanir til manna, er hlut eiga að þessu máli, en geta ekki varið sig hér. Þessar dylgjur og aðfinnslur eiga sér enga stoð. Ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að þeir matsmenn, sem um þetta fjölluðu, hafi gætt fyllstu réttsýni, og ég ætla þeim ekki annað en sæmd. Til þessa hefur enginn leyft sér að vefengja fagkunnáttu þeirra, en nú eiga þeir að hafa litla getu, fávizku og ókunnugleik til að bera, og gefið er í skyn, að störf þeirra séu vítaverð. Ég mótmæli þessu og tel það ekki sæmandi, að nokkur þm. fari þannig að.

Um önnur atriði þessa máls geta menn haft skiptar skoðanir, og þar má leiða rök með og móti. Við söluna var aðeins um það hugsað, hvað þægilegast væri, og það get ég upplýst, að mér lá ekki á að kaupa. Það má vera, að málflutningur hv. þm. Barð. verði talinn góð latína af sumum, en ég býst við því, að ýmsir lögfræðingar verði honum ekki sammála. Hæstv. forseti segir, að tíma mínum sé lokið, og því verð ég að hlíta.