10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (5024)

903. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fyrirspyrjandi (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að s. l. sumar varð mikil vonbrigði fyrir útgerðarmenn og sjömenn. Síldveiðin brást, með þeim afleiðingum, að útgerðin varð fyrir stórfelldu tjóni og er ekki þess umkomin að greiða þeim sjómönnum, mörgum eða allflestum, er síldveiðar stunduðu, kaup sitt. Afleiðingin af því ástandi hefur orðið sú, að sú mikla kjarabót, sem verkalýðshreyfingin hefur barizt fyrir, kauptryggingin, hefur ekki komið að haldi, og þar með hefur það ástand skapazt, að menn komu með tvær hendur tómar eftir sumarvinnuna, það tímabil, sem menn treysta mest á til þess að framfleyta sér og sínum. Að sjálfsögðu hafa menn reikninga og kröfur á útgerðarmenn fyrir sínu kaupi, en þeir hafa ekki verið þess umkomnir að greiða þetta kaup. Það er af þessari ástæðu, að þessi fyrirspurn er fram komin.

Ég hef heyrt þess getið, að eftir þennan aflabrest hafi hæstv. sjútvmrh. skipað sérstaka n., sem átti að athuga þá erfiðleika, sem útgerðin á við að stríða í þessu sambandi, og til þess að finna leiðir til úrbóta. Síðan fyrirspurnin kom fram, hefur það skeð, að sjútvmrh., sem líka er fjmrh., hefur haldið sína fjárlagaræðu og skýrt frá því einnig, að n. sú hafi skilað áliti í októbermánuði og hver sú leið væri, sem hún vildi fara. Í samræmi við það eru svo veittar 6 millj. kr. á fjárlögunum til styrktar útgerðarmönnum, sem fyrir mestum skaða hafa orðið. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort ekki er til þess ætlazt, að þessi styrkur verði veittur sem allra fyrst. Hæstv. ráðh. veit það vel, að fjárl. verða ekki samþ. fyrr en einhvern tíma á þessum vetri, en hins vegar er það stór hópur sjómanna, sem vantar tilfinnanlega kaup sitt, og gera þarf ráðstafanir til að gera útgerðarmönnum kleift að borga þessum mönnum, ásamt því að halda útgerðinni áfram um tíma. Ég vænti þess, að hæstv. sjútvmrh. svari þessum spurningum mínum, sem ég kom fram með, vegna hins breytta viðhorfs, sem skapazt hefur við hans fjárlagaræðu.