10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í D-deild Alþingistíðinda. (5031)

904. mál, vatnsréttindi í Þjórsá

Fyrirspyrjandi. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessar upplýsingar, sem eru mjög merkilegar. Það er, eins og ég hálfpartinn bjóst við, þannig, að Titan hefur samkv. íslenzkum lögum ekki eignarrétt á vatnsorkunni í Þjórsá, svo framarlega sem hæstv. ríkisstj. hefði verið búin að setja Titan þau skilyrði áður að vera búið að koma félaginu í löglegt horf. Það er vitanlegt, að það er mjög mikil deila innan félagsins Titan í Noregi, og líklega nær hún til þeirra íslenzku hluthafa. Ég býst t. d. við, að Eggert Claessen, sem var umboðsmaður þessa félags hér á landi, muni líka vera í deilu við þá aðila í félaginu, sem eru úti. Virðist mjög einkennilegt ástand í þessu félagi.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hverjar undirtektir hafa verið undir það, sem þegar hefur verið talað við þetta félag um málið, og hvort búast mætti við, að félagið vildi selja vatnsréttindin í Þjórsá til ríkisstj. Og ef félagið hefur tekið vel í það, þá skil ég mjög vel þá afstöðu hæstv. ríkisstj. að nota þá e. t. v. þá vinsamlegu aðferð að semja við þá menn, sem eru fulltrúar til samninga í þessu félagi, ef þeir létu vatnsréttindin af hendi með góðum kjörum. Það er vitað, að þessi vatnsréttindi voru seld mjög ódýrt, eins og kemur fram hjá Sveini Ólafssyni, fyrrv. alþm., og eins og kemur fram í umsögn fossanefndarinnar. — Það hefði verið mjög æskilegt að fara samningaleiðina í þessu máli, ef hægt hefði verið. Nú er vitanlegt, að h/f Titan hefur haft hlutafé að nafninu upp á 12 millj. kr., sem mun hafa verið fengið þannig, að það hefur verið þynnt út. Og ef ætti að reikna vatnsréttindin í Þjórsá, eins og hæstiréttur er vanur að reikna, þegar hann reiknar út matsverð á eignum, reikna allt hugsanlegt braskverð á landi eða aðstöðu, þá geta vatnsréttindin í Þjórsá orðið svo dýr, að illkaupandi væru. Ég er því hræddur um, að beita þurfi þeirri leið að setja þessu félagi þau skilyrði, sem því ekki væri fært að fullnægja, en bæta þessum aðilum upp á eftir, með sanngjörnu tilliti til þessarar vinaþjóðar okkar, án þess að þeir gætu gert gífurlegar kröfur um fjárgreiðslur af okkar hendi. Vil ég skjóta þessu fram til hæstv. atvmrh. til athugunar.

Ég þakka svo hæstv. atvmrh. fyrir greinagóð svör í þessu efni.