10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (5032)

904. mál, vatnsréttindi í Þjórsá

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Það má segja, að það geti orkað tvímælis, hvort ætti að sækja þetta mál með fullri hörku eða að reyna að fara samningaleiðina fyrst, en við litum þannig á, að réttara væri að leita fyrst þeirra samninga, sem fáanlegir væru, og athuga að því loknu, hvort heppilegt mundi teljast að fara þá leið, að neyta réttar samkv. l. út í yztu æsar. Hitt get ég sagt, að þeir aðilar, sem ég ræddi um þetta við, voru mjög fúsir til samninga og báru aðeins við, eins og eðlilegt er, að ekki væri hægt fyrir þá að semja, sökum þess að það væri enginn óumdeilanlegur eigandi, sem gæti samið við ríkið, fyrr en þessi umrædda deila væri útkljáð. Hitt er sjálfsagt, að það kemur ekki til mála, að ríkið sæti neinum afarkostum til að ná þessu. Aðstaða hinna erlendu handhafa er ekki svo sterk, að þeir geti sett sig á háan hest við ríkið, ef það vill beita því valdi, sem það hefur. Ég geri ráð fyrir, að umr. á þessum grundvelli hefjist fljótlega eftir að umræddum málaferlum lýkur.