17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í D-deild Alþingistíðinda. (5036)

905. mál, bændaskólar

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gildandi l. nr. 24 1948, um bændaskóla, er kveðið svo á í 1. gr., að búnaðarskóla skuli starfrækja að Hólum og á Hvanneyri og einn í Skálholti, þá er þar er lokið undirbúningi. — Öllum hv. þm. er kunnugt um, að mjög eru skiptar skoðanir um það, hversu gera eigi hlut Skálholts sem veglegastan. Nú um nokkurt skeið hafa verið ákvæði í l. um stofnun bændaskóla þar. Hins vegar greinir menn á um það, bæði innan þings og utan, í fyrsta lagi, hvort rétt sé að koma á fót búnaðarskóla í Skálholti, og í öðru lagi, hvort rétt sé að stofna fleiri bændaskóla, en þessa tvo; sem eru fyrir hendi. Hef ég heyrt, að aðsóknin væri ekki mjög mikil að skólunum, og því spyr ég nú um hana og kostnaðinn við skólahaldið. Fjalla 1. og 2. liður fsp. um þetta efni. En svo vil ég og fá að vita um framkvæmdir í Skálholti og fé það, sem til þeirra hefur verið varið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar, að í fyrsta lagi sé þess ekki mjög brýn þörf að auka við húsnæði búnaðarskólanna, og margt annað geti verið brýnna. En í öðru lagi, að jafnvel þótt bæta þyrfti við húsnæði bændaskólanna, þá álít ég, að fremur ætti að byggja við skólahúsin á Hólum og Hvanneyri en byrja á nýju í Skálholti. Þar við bætist í þriðja lagi, að ég hygg aðra leið verða munu skynsamlegri varðandi Skálholtsstað. Annars mun ég eigi fara frekari orðum um þá hlið málsins. Ég er ekki samþ. gildandi lagaákvæðum um Skálholt. Vil ég taka það fram undireins, að verði þessari fsp. minni svarað á þá leið, að í ljós komi, að núverandi skólar hafi eigi verið sóttir hin síðustu ár sem áður, þá tel ég, að snúa eigi aftur á þessari braut. Ætti að mega bíða átekta í nokkur ár og taka til athugunar, hvort ekki mætti auka húsakost skólanna að Hólum og á Hvanneyri. Og að hinu leytinu vil ég láta gera athugun á því, hversu hefja megi hinn forna Skálholtsstað til vegs að nýju.