17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í D-deild Alþingistíðinda. (5037)

905. mál, bændaskólar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Spurt er um það, hve margir nemendur hafi sótt skólana að Hólum og Hvanneyri undanfarið. Hef ég gert skrár yfir það. Skýrslan frá Hólum nær yfir 6 ára bil, 1943–1949, og lítur þannig út:

Árið 1943–44 voru þar 38 nemendur.

— 1944–45 —– — 38 —– .

— 1945–46 —– — 36 —– .

— 1946–47 —– — 30 —– .

— 1947–48 —– — 22 —– .

— 1948–49 eru — 28 —– .

En hæfilegt rúm er talið vera þar fyrir 36–40 nemendur. Kemur þá í ljós, að síðustu 2–3 árin hefur skólinn eigi verið fullskipaður. — Þá er það Hvanneyri. Þar hefur aðsóknin verið á þessa leið:

Skólaárið 1944–45 voru 57 nemendur.

—– 1945–46 —– 59 —-

—– 1946–47 —– 44 —-

—– 1947–48 —– 28 —-

að viðbættum 8 nem. í framhaldsdeild, samtals 36 nemendur.

— 1948–9 eru 42 nemendur að viðbættum 8 í framhaldsdeild, samtals 50 nemendur.

En hæfilegt rúm á Hvanneyri er fyrir 52 nemendur. Skv. þessu var skólinn eigi fullskipaður skólaárin 1946–47 og 1947–48.

Síðan er spurt um, hver kostnaðurinn hafi verið, en hann er þessi skv. landsreikningum:

Að Hólum

Á Hvanneyri

1943 kr.

65.290.08

95.824.94 .

1944 –

126.813.22

166.824.92

1945 –

180.364.77

276.747.03

1946 –

190.994.41

389.638.14

1947 –

213.761.05

366.952.84

Að endingu er svo spurt um það, hvort undirbúningur sé hafinn að byggingu bændaskóla í Skálholti samkv. l. nr. 24 1948, og sé svo, hverjar framkvæmdir sé um að ræða og hversu miklu fé varið hafi verið til þeirra. Það, sem gert hefur verið, er í höfuðatriðum á þessa leið:

1. Skólanum valinn staður.

2. Skálholtsland mælt og gerður af því uppdráttur.

3. Gerðir tillöguuppdrættir af skólahúsi og staðsetningu þess. Sem framhald af því unnið að því, að húsameistari ríkisins geri endanlega uppdrætti. Til undirbúnings ákvörðunum um fyrirkomulag fór framkvæmdastjóri Skálholtsnefndar til Norðurlanda 1946 að kynna sér fyrirkomulag bændaskóla.

4. Leitað að byggingarefni og það rannsakað með jákvæðum árangri. Talið bezt í Einholtsmel, 20 km frá Skálholti.

5. Athugaðir möguleikar á að afla neyzluvatns. Mælt fyrir leiðslu, og vatnsmagn athugað. Grafnir skurðir til að sameina lindir, sem líklegar eru sem vatnsból. Endanleg ákvörðun um vatnsbólið þó eigi tekin og ekki gerð áætlun um lögnina.

6. Athugað um möguleika að leiða heitt vatn úr Þorlákshver heim á væntanlegan skólastað. Fyrir liggur álit Rafmagnseftirlits ríkisins, en áætlun hefur ekki verið gerð.

7. Vegagerð. Lagður vegur 1.74 km af þjóðvegi heim á skólastaðinn. Vegurinn gerður að nokkru leyti á þann hátt, að grafnir eru skurðir með skurðgröfu og ruðningurinn notaður sem undirbygging vegar. Skurðirnir gera jafnframt gagn sem framræsluskurðir vegna væntanlegrar ræktunar. Lengd þessara skurða er 864 m og rými 4.363 rúmm.

8. Grafnir framræsluskurðir, 1005 m að lengd, rými 4.689 rúmm.

9. Borið ofan í heimreiðina að hinum forna Skálholtsstað.

Kostnaðurinn við þessar framkvæmdir hefur orðið til þessa:

Árið 1945 .................... kr. 24.322.58

— 1946 ...................... — 67.488.53

— 1947 ...................... — 114.522.95

Samtals kr. 206.334.06

Þá voru hús og ræktunarmannvirki í Skálholti keypt af fráfarandi bónda þar fyrir kr. 175.000.00. Hefur verið settur á stofn vísir að skólabúi og varið til framkvæmda í Skálholti á vegum Skálholtsn. kr. 150.000.00, en þar við bætast svo kr. 175.000.00 —, kaupverð eigna Jörundar Brynjólfssonar.

Segja má, að ég hafi nú svarað fsp. hv. þm. En í sambandi við þetta mál tel ég ástæðu til að gefa yfirlit yfir allan gang þess undanfarið, sögu þess og þátt minn í því — eigi sízt vegna gagnrýni þeirrar, sem það hefur sætt, bæði hjá hv. þingmönnum og blöðunum. Hefur ljóslega komið fram, að stofnun búnaðarskóla í Skálholti væri álitin hið mesta glapræði, er stöðva ætti hið bráðasta. En nú vil ég benda á, hversu ástatt var, þegar ég tók við þessu máli. L. um bændaskóla á Suðurlandi eru nú orðin yfir sex ára gömul, frá 30. júní 1942. Þar voru engin ákvæði um skólastað, og var ágreiningur uppi um hann. Þá var Búnaðarfélagi Íslands falið að gera till. um hann, og fól það þriggja manna n. það starf. Nm., sem voru þeir Steingrímur búnaðarmálastjóri Steinþórsson, Jón Sigurðsson á Reynistað og Guðmundur Þorbjarnarson á Hofi, sem var kvaddur í n. fyrir Búnaðarsamband Suðurlands, nefndu sérstaklega til þess Skálholt og Kálfholt. Skiluðu þeir áliti um málið, en urðu eigi sammála. Töluðu Steingrímur og Jón með Skálholti, en Guðmundur hélt fram Kálfholti. Síðan kemst málið inn á Alþ., og árið 1944 er samþ. breyt. á l., en með henni er ákveðinn staður fyrir þriðja bændaskólann í Skálholti í Biskupstungum. Eftir þetta skipar svo þáverandi ráðh., Pétur heitinn Magnússon, 3 menn í n. til að vinna að undirbúningi málsins, þá Steingrím Steinþórsson, Guðmund Erlendsson Núpi og Sigurð Ágústsson. Nú er einróma áskorun send árið 1945 um að hraða málinu. Sama ár er svo ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri til að vinna að þeim framkvæmdum, sem álitið var rétt að ráðast í. Árið eftir er svo maður sendur utan til að kynna sér byggingar búnaðarskóla, og að aflokinni förinni skilar hann skýrslu. Síðan eru hafnar framkvæmdir smátt og smátt. Þegar ég tók við málinu, var búið að starfa að þessu um 3 ár og kostnaðurinn orðinn hátt á aðra millj. kr.

Nú hefur mér heyrzt á mönnum, að skylda mín væri að stöðva þessar framkvæmdir. En ég sé ekki, hvernig ég hefði getað leyft mér slíkt eftir þær ákvarðanir, sem Alþ. hefur tekið í málinu. Ég gerði ekki ráð fyrir að hljóta ámæli af þessu. Hitt má segja, að skylda mín hefði verið, ef ég hefði talið málið háskalegt á annað borð, að stinga þá við fótum og beita mér fyrir afnámi þessara l. En nú lít ég eigi svo á, að málið sé óþarft. Það er þvert á móti mjög réttmætt. Veit ég vel, að menn munu rjúka til og benda mér á, að ég hafi rétt í þessu verið að lesa upp skrá um nemendafjöldann á búnaðarskólunum tveim. Þó er það svo, að gengið hefur á ýmsu um aðsókn manna til þeirra. Hefur jafnvel borið við, að allir umsækjendur hafa ekki komizt að og orðið hefur að vísa umsóknum frá. Gengur þetta m. ö. o. í öldum, og nú er aðsóknin að aukast að nýju. En tölurnar um hana má kalla viðvörun til vor um, að skipulagið sé orðið á eftir tímanum, enda skiljanlegt, þar eð það er frá því skömmu eftir aldamót. Er fullgild ástæða til þess að athuga allt fyrirkomulag á skólunum og gera nauðsynlegar breytingar á þeim. Getur jafnvel komið til greina að taka upp skipulag húsmæðraskólanna og hafa eins árs nám í vélfræði og búfræði. En hitt er Molbúaháttur að hugsa sér, að íslenzkir bændur þarfnist eigi búnaðarskóla, þó að í öllum stéttum séu til menn, sem skara fram úr í ýmsum greinum. Ég viðurkenni, að alltaf hafa lifað Íslendingar, sem hafa verið ágætir bændur, en hafa þó ekki stundað nám á bændaskólum. En ég er sannfærður um, að aldrei hefur svo mikill óskólagenginn búhöldur búið hér á landi, að hann ekki hefði verið nýtari maður, ef hann hefði fengið viðbótarfræðslu við það, sem hann gat sjálfur aflað sér. Og hvað er nú að gerast í íslenzkum landbúnaði? Það er vissulega að verða bylting í íslenzkum landbúnaði, úr hinum frumstæða búskap, sem hefur verið hér á landi frá fyrstu tíð, í nýtízku búskap, vélabúskap, sem rekinn er á vísindalegum grundvelli. Og ég er sannfærður um, að ef þær tilraunir, sem verið er að gera af Alþ. til að koma landbúnaðinum í þetta horf, eiga að takast, þá er fyrsta skilyrðið að manna íslenzka bændastétt þannig, að hún geti tekið við þeim framkvæmdum, sem verið er að leggja upp í hendurnar á þeim, er þessa stétt skipa. Íslenzkir bændur hafa jafnmikla þörf fyrir sérþekkingu í sinni atvinnugrein eins og fjöldi manna í þeim iðngreinum, sem til eru í landinu. Og hvernig hafa iðnaðarmenn staðið að menntun sinna manna? Þannig, að iðnaðarmenn fá ekki full réttindi til að starfa sem slíkir, fyrr en þeir eru búnir að ljúka ákveðnu margra ára námi, bæði verklegu og bóklegu. Og ég er sannfærður um, að þessari stefnu og ákvörðun iðnaðarmanna er það að þakka mest, hve mannaðar og menntaðar iðnstéttir hafa risið upp hér á landi á ári hverju, svo að segja upp úr engu, sem fyrir nokkrum árum var. Ég skal ekki segja það, hvort tekin verði upp sú regla, þó að margt gæti verið vitlausara, að ákveða það sem skilyrði fyrir búsetu á bújörðum, að viðkomandi hafi lokið einhverju lágmarksprófi á bændaskóla. Hitt er augljóst, að bændastéttin þarfnast meiri sérmenntunar heldur en unnt er að fá jafnvel á góðum heimilum. Og til þess að veita þá menntun, eiga búnaðarskólarnir að vera. Það þarf að gefa sem flestum bændum, helzt öllum bændum landsins tækifæri til þess að afla sér kunnáttu í meðferð og hirðingu þeirra véla, sem nú er verið að róta inn í landið og bændur bíða eftir og fá vonandi á næstu árum, til þess að þær verði þeim ekki hermdargjöf. Það þarf einnig að gefa þeim tækifæri til þess að kynnast nytjajurtum, sem þeir eiga að rækta, og til að þekkja eðli og efnasamsetningu jarðvegsins að einhverju leyti, svo og meðferð og notkun áburðar, bæði húsdýraáburðar og annars áburðar. Og það þarf að kenna þeim húsdýrafræði, um eðli og eiginleika búfjár, og kenna þeim að bæta bústofn þann, sem þeir eiga að vinna með, o. s. frv. En ef við Íslendingar ætlum að gera það kleift, að allir bændur geti gengið á bændaskóla, sem við eigum að keppa að, þá eru þessir tveir skólar, sem fyrir eru, og sá þriðji, sem hér er stefnt að, að koma upp, ekki stærri en það, að þeir segja ekki mikið, þar sem hér á landi eru um 6 þús. bændur. Það er ekki hægt að segja um það upp á hár, hvað búmannsaldurinn er langur. Má gera ráð fyrir, að hann sé að meðaltali um 25 ár. Ef það er rétt, þá stofna allt að 250 nýir bændur bú árlega. Auk þessara bænda er fjöldi manna, sem býr á smábýlum, en ekki eru reiknaðir sem sérstakir bændur, kringum allt land, þar sem lifað er að miklu leyti á landbúnaði á einn eða annan hátt. Þessir menn hefðu líka þörf fyrir aukna þekkingu á landbúnaði. Og bændur og félög þeirra hafa á sínum vegum fjölda starfsmanna við jarðrækt og búfjárrækt o. fl., sem þurfa að fá aukna undirstöðumenntun á þessum skólum. Auk þess heltast alltaf einhverjir úr lestinni í öllum skólum, þó að allur fjöldinn ætli sér að stunda sérstakt nám. M. ö. o., ef ætti að gefa bændum kost á þótt ekki væri nema eins árs skólasetu, þá þyrfti að koma skólarými fyrir bændur, sem tæki 250–300 nemendur. En þessir skólar, sem fyrir eru, geta aðeins útskrifað 40–50 nemendur á ári með tveggja ára námi, en 80–90 með eins árs námi. Og þó að þessi fyrirhugaði skóli bættist við og hann væri með 50–60 nemendum, og ekki væri nema eins árs nám, þá væri ekki skólarými nema fyrir um helming af þeim bændum, sem árlega byrja búskap á Íslandi. Af þessu sjá menn, hvort það sé nokkur fjarstæða að koma upp einum bændaskóla í viðbót við þá skóla, sem fyrir eru. Og þegar um er að ræða stærsta og blómlegasta hérað á landinu, þar sem þessum skóla er ætlað að vera, þá getur ekki talizt óeðlilegt, þó að þarna komi upp skóli fyrir þá ungu menn, sem hugsa sér að staðfestast við búskap í þessu héraði.

Hv. fyrirspyrjandi ræddi um það, að ef um aukningu bændaskólanna væri að ræða, mundi það sennilega henta betur að koma þeirri aukningu fyrir á þeim stöðum, þar sem nú eru bændaskólar fyrir, á Hólum og Hvanneyri. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar. Það er nú svo komið t. d. á Hvanneyri, að ræktun hefur veríð gerð þar svo mikil, að til vandræða horfir að geta kennt þar nokkra jarðrækt. En aftur á móti er ónumið land í kringum allt Skálholt á alla vegu, þannig að þar eru um ófyrirsjáanlegan tíma verkefni til kennslu hundraða manna í jarðræktarframkvæmdum, bæði af Suðurlandi og víðar að. Af þessum ástæðum kom vitanlega ekki til mála að ég gerði neitt, sem gat orðið til til þess að hindra framkvæmdir þess máls, að bændaskóli kæmist upp í Skálholti, heldur var ég staðráðinn í að gera það litla, sem ég gæti; til að ýta þeim framkvæmdum áfram. Og nokkru eftir að ég kom í landbrn., kom nefnd sú, sem Pétur heitinn Magnússon hafði skipað til þess að hefja framkvæmdir í þessum málum og byrjað hafði á framkvæmdum í þá átt, til mín í ráðun. og vildi vita hug minn í þessu máli. Ég sagði, að ég teldi svo langt frá því, að það væri í mínum verkahring að stöðva þetta mál, en ég teldi skyldu mína að fleyta því áfram eins og geta mín leyfði. Og ég hef verið í fullri samvinnu við þessa menn, til þess að ýta þessu máli áfram; og haft mikinn stuðning af því að njóta þekkingar þeirra og starfskrafta við framkvæmdir í málinu. Þá taldi ég sjálfsagt að velta því fyrir mér, hvað hægt væri að gera til þess að koma þessu skólamáli eitthvað áleiðis. Og það, sem þessi nefnd benti mér á, að þyrfti að gera fyrst; var að losa skólajörðina úr ábúð, því að búið var að ákveða, að á þessum stað, í Skálholti, skyldi vera bændaskóli, en ekki höfðu verið gerðar ráðstafanir til þess að semja við bóndann; sem þar bjó og hafði lífstíðarábúð á jörðinni; um að standa upp af jörðinni né gera neinar ráðstafanir í þá átt að fá hans leyfi til að hefja þarna framkvæmdir. Það var ekki hægt að stinga þarna niður skóflu, nema með leyfi þessa manns. Þess vegna fór ég að semja við ábúandann í Skálholti, Jörund Brynjólfsson, um það, á hvern hátt það gæti orðið, að hann stæði upp af jörðinni, og með hvaða kjörum. Og það hefur verið rætt hér í þinginu áður, að hann gaf kost á að fara af jörðinni, ef keyptar væru af honum eftir mati þær eignir, sem hann átti þar, og ef hann fengi jörð á Suðurlandsundirlendinu, sem hann gæti tekið við og staðfest sig á, þegar hann yrði að fara frá þessari jörð. Það getur nú vel verið, að ýmsir hv. þm. líti svo á, að mér hefði borið, í stað þess að ræða við ábúanda Skálholts, að bera fram lagafrv. um það að taka jarðnæðið af ábúandanum þannig, að taka ábúðarréttinn eignarnámi, og þá hefðu verið metnar eignir hans þarna og þær greiddar, og láta svo skeika að sköpuðu um það, hvort hann fengi jarðnæði, sem honum líkaði að nota. Auðvitað gat hann farið til Reykjavíkur. En ég gerði þetta nú ekki, og ég sé ekkert eftir því að ég gerði þetta ekki. Ég mundi vel meir en 30 ár aftur í tímann. Þá var kvartað hér yfir því um allt land, að fólkið flykktist til kaupstaðanna, og ungir menn streymdu þá til Reykjavíkur, þótt enn meira hafi orðið að því á síðari árum. Meðal þessara ungu manna, sem fyrir um það bil 30 árum komu til Reykjavíkur, var Jörundur Brynjólfsson. Hann var búfræðingur frá Hvanneyri, en hafði útskrifazt af Kennaraskólanum í Reykjavík líka. Hann var búinn að fá ágætt starf í Reykjavík og hafði mikinn áhuga á opinberum málum. Hann varð 1. þm. Reykv, í fyrsta skiptið, sem hann bauð sig fram, og framtíðin virtist blasa við þessum unga manni hér í höfuðstaðnum, eftir því sem ungir og framgjarnir menn óska sér. En hvað gerir maðurinn? Hann kveður þetta allt og leggur leið sína austur í Árnessýslu og fer að búa, og þar hefur hann búið síðan í 30 ár, jafnframt því sem hann hefur gerzt forgöngumaður sinna stéttarbræðra í félagsmálum og stjórnmálum. Og þar hefur hann þolað með þeim súrt og sætt og látið eitt yfir sig ganga og þá í þeim efnum. Og þessi tími, sem hann hefur búið þarna, hefur verið mikill umróta- og umbyltingatími í landinu á öllum sviðum þjóðlífsins, og það hefur ekki alltaf verið að baða í rósum fyrir menn að búa í sveit á þessum árum. En hann hefur ekki látið það á sig fá. Hann hefur haldið sig við torfuna, á hverju sem hefur gengið, því að það var hans vilji að búa. Það hefði verið kaldhæðni örlaganna, ef eftir þessi 30 ár, sem hann var búinn að búa þarna, þá hefði landbrh. átt að beita sér fyrir því að svipta hann jarðnæðinu, sem hann hafði búið á einhverju stærsta búi, sem búið er á Suðurlandi, og sagt: Gerðu svo vel að fara til Reykjavíkur, Þaðan ert þú kominn og þangað er bezt að þú farir. — Ég vildi ekki taka að mér slíka framkvæmd. Og ég hefði ekki frekar viljað gera það, jafnvel þó að maðurinn hefði heitið Gísli Jónsson, sem hefði átt í hlut. Ég vildi ekki fara svona að við þennan mann, heldur láta hann njóta réttlætis í þjóðfélaginu. Og þess vegna fór ég að athuga, hvaða jarðnæði ég gæti útvegað honum í staðinn. Og það er kunn saga, að önnur jörð, Kaldaðarnes, var komin í eigu hins opinbera. Að vísu hafði landbrn. lánað hana um skeið til tilrauna um að koma upp drykkjumannahæli, sem endaði með þeim ósköpum, að fleygt hafði verið hundruðum þús. kr. í rekstrarkostnað þessa hælis, og sýnt var, að það tjón yrði ekki bætt, nema bíða annað meira, með því að ausa hundruðum þús. kr. í þetta dauðvona fyrirtæki þarna. Og þarna höfðu verið níu, átta og allt niður í sex menn á þessu hæli alls þá undanfarinn tíma, og þegar ég athugaði ástandið þarna, var aðeins einn vistmaður eftir á hælinu. Og þá kynnti ég mér, hvernig forgöngumenn á þessu sviði litu á þetta Kaldaðarneshælismál. Og allir, sem ég hef talað við, eru á einu máli um, að þessi tilraun þarna hafi mislukkazt og að hælið yrði að vera annars staðar og öðruvísi rekið, þarna gæti það aldrei náð sínum tilgangi. Og ástandið þarna í Kaldaðarnesi var eitthvert það herfilegasta ástand, sem ég hef séð á nokkurri slíkri jörð og fyrrv. höfuðbóli. Það var búið að eyðileggja allt það mikla tún. sem þarna hafði verið, með byggingum og þ. h. og eyðileggja bezta stykkið úr engjunum með flugvallargerð þar, sem að vísu er lítils virði. Og allur útgangur þar var þannig, að hörmulegt var á að horfa. Og ég varð undrandi, þegar hv. 1. þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson, sagði, að hann vildi taka þessa jörð og setjast á hana. Ég sagði honum, að hann gæti verið nokkur ár í Skálholti, meðan verið væri að byggja. En hann sagði: Ég óska ekki eftir því, þetta verður ekki framtíðarjörð fyrir mig og mína, mig hefur langað til að koma upp býli, þar sem ég gæti lifað það, sem ég á eftir ólifað, og þar sem þeir minna afkomenda, sem óska að búa í sveit, gætu búið eftir mig. — Og endalokin verða þau, að ég fæ samþykki menntmrn. fyrir því, að landbrn. er aftur afhent þessi jörð og byggingar, sem þar höfðu verið gerðar og voru á jörðinni. Og ég ákvað að því loknu að byggja Jörundi Brynjólfssyni þessa jörð, þ. e. færa hans lífstíðarábúð frá Skálholti og á þessa jörð. Nú vissi ég, að það var mikill vandi fyrir mig að ganga þannig frá þeim eignaskiptum, sem þarna þurftu að fara fram, að tryggt væri, að það réttlæti væri í þeim, sem nauðsynlegt var og ég átti að leggja aðaláherzluna á. Ég vissi, að það mundi ekki standa á því að reyna að gagnrýna þá framkvæmd og deila á mig fyrir það, sem ég gerði í þessu máli, jafnvel hvernig sem ég gerði það. Og ég sá ekki nema eina leið til þess að fá þann grundvöll, sem ég gæti sætt mig við og yrði í framkvæmdinni næst því rétta, sem varð að krefjast í þessu, að fá ábyrga, óhlutdræga, dómkvadda menn til þess að láta þá meta eignir þær, sem ríkið tæki við í Skálholti, og þær eignir, sem fráfarandi ábúandi Skálholts tæki við í Kaldaðarnesi. Það má segja, að það lægi beinna við, að úttektarmenn á báðum stöðum gerðu þetta. En mér fannst það ekki hyggilegt, því að það gat, þótt allir matsmennirnir væru sanngjarnir menn, komið fram ósamræmi, ef fleiri menn hefðu með þetta mat að gera. Því taldi ég réttast, að sömu mennirnir mettu hvorar tveggja eignirnar og þeim væri lagt á herðar að nota sama mælikvarða við matið á báðum stöðunum. Ég sneri mér til sýslumannsins í Árnessýslu og bað hann að nefna þrjá menn til þess að meta þetta. Ég óskaði eftir, að hann gæti tekið í þetta ákveðinn mann, Pálma Einarsson (GJ: Nefndi ráðh. líka menn í n.?) Ég óskaði eftir þessu af þeim ástæðum, að ég vissi, að þessi maður var einna kunnugastur og með mesta þekkingu á þessum málum allra manna á landinu. Hann hefur allra manna lengst átt við að meta ýmiss konar stærri og minni jarðræktarframkvæmdir, og hann var lengi ráðunautur ríkisstj. um sölu og mat á setuliðsfasteignum. Ég treysti engum manni til að leggja meiri þekkingu til við matið, en þessum manni. Og sýslumaðurinn féllst á þetta. Og hann tilnefndi Guðmund Guðmundsson bónda á Efri-Brú í Grímsnesi og Kristin Vigfússon húsameistara. Og þessir menn skiluðu matinu, eftir því sem þeir höfðu kynnt sér það, sem fyrir lá að meta, eftir því sem þeir höfðu tíma til. Skipaðir voru svo tveir menn, Guðmundur Gestsson af menntmrn. og af landbrn. Árni G. Eylands, til þess að fylgjast með þessu mati af hálfu ríkisins og vera hennar málsvarar þar. Og einn maður var aftur á móti fulltrúi fráfaranda. Þegar þessu var lokið, skiluðu þeir þessu sínu mati. Og ég sá ekki annars kost og taldi sjálfsagt að beygja mig undir þetta mat. Ég treysti engum til þess að koma með sanngjarnara mat. — Nú hefur því verið haldið fram annað veifið, að þær eignir, sem Jörundur Brynjólfsson hafi fengið í Kaldaðarnesi, séu gjöf, en það, sem hann hefur látið af hendi, sé rándýrt. Vitanlega eru þetta ekki ásakanir á mig, en það eru hrottalegar ásakanir á þá eiðsvörnu trúnaðarmenn, sem falið var að meta þetta. Og ég held, að menn ættu að vara sig á að skjóta fram slíkum órökstuddum fullyrðingum gegn þessum mætu mönnum, sem tóku að sér þetta trúnaðarstarf og vafalaust skiluðu af sér eftir beztu samvizku.

Þá er annað atriði, sem allmikið hefur verið rætt um hér og ég hef orðið fyrir álasi fyrir. Eftir að ég hafði byggt Jörundi Brynjólfssyni Kaldaðarnes með erfðaábúð, þá fór hann fram á að fá jörðina keypta. Í lögum um þetta efni frá 26. febr. 1946, um sölu þjóðjarða og kirkjujarða, segir svo:

„Ábúendur þjóð- og kirkjujarða hafa rétt til að fá ábúðarjarðir sínar keyptar, ef þeir, eftir því sem við á, fullnægja 1. gr. laga nr. 116 30. des. 1943, um ættaróðul og erfðaábúð, . . .“ en ekki, eins og ég hef heyrt af ýmsum, að núverandi eigandi Kaldaðarness geti braskað með jörðina, — nei, hann fær þessa jörð sem ættaróðal, og má aðeins búa á því sjálfur og afhenda það sínum börnum eða afkomendum, en ef enginn af hans afkomendum vill taka jörðina til ábúðar, fellur hún aftur til opinberra umráða. Svo er ákvæði hér í lögunum, sem hefur verið gert töluvert veður út af, og það er þetta, sem er skilyrði fyrir slíkri jarðarsölu, að kaupandi hafi búið á jörðinni minnst þrjú ár og að fyrir liggi yfirlýsing hlutaðeigandi hreppsnefndar um, að hann hafi setið jörðina vel og að hreppsnefndin mæli með, að hann fái jörðina keypta. Nú hefur verið rætt um það hér í þessum umr., að ég hafi brotið þessi lög með því að selja Jörundi Brynjólfssyni þessa jörð, þar sem hann hafi ekki verið búinn að búa á henni í þrjú ár. Nú var það vitanlega hægðarleikur að bíða með sölu þessarar jarðar í þrjú ár, ef ég hefði álitið þetta atriði þannig, eins og hér hefur komið fram, að hér væri sjálfsagt að fara aðeins eftir bókstafnum. En það vill svo vel til, að ég var einn af höfundum þessara laga og veit vel, hver tilgangurinn var með þeim. Tilgangurinn með þessum ákvæðum um búsetuskilyrði o. fl. var að tryggja það, að mönnum væru ekki seldar til erfðaábúðar jarðir, nema einhver vitneskja væri um það fyrst og fremst, hvort menn, sem óskuðu að kaupa jarðir á þennan hátt, væru hæfir til búskapar, og að öðru leyti þannig, að viðkomandi hreppsnefnd vildi fá þá sem óðalsbændur inn í sína sveit. En til þess að hreppsnefndin gæti um þetta sagt, varð að tryggja, að hún hefði vitneskju um manninn, þannig að ekki gæti komið maður aðvífandi og gerzt þarna óðalsbóndi með erfðaábúðarrétti, sem hreppsnefndin vissi ekkert um. Þess vegna var þetta þriggja ára búsetuákvæði sett inn og ákvæðið um meðmæli viðkomandi hreppsnefndar. Það væri því ekki nema orðhengilsháttur að hanga í þessu ákvæði og þannig koma í veg fyrir, að bóndi, sem búinn er að búa lengi í héraðinu og er öllum þekktur þar sem mætur maður og dugandi bóndi, geti fengið jörð keypta eftir þeim lögum, sem ég vitnaði til. Ég tel því, þegar þannig stóð á, að hreppsnefndin í þessum viðkomandi hreppi þekkti Jörund Brynjólfsson eins vel eins og hann hefði búið þar alla sína ævi, og þegar fyrir lá vitneskja um það, að hreppsnefndin þar, sem hann hafði búið, hafði mælt með honum til þess að kaupa þessa jörð með óðalsrétti, þá hafi verið fullnægt anda og tilgangi laganna. Auk þess er á það að líta, að Jörundur Brynjólfsson hafði lífstíðarábúðarrétt á Skálholti. Hann hafði óvefengjanlegan rétt til þess að kaupa þá jörð, ef hann hefði farið fram á það og ríkið hefði viljað selja jörðina. Og ég sé ekki, að það sé mikið brot á anda og eðli laganna, þó að réttur Jörundar Brynjólfssonar til kaupa á einni þjóðjörð sé fluttur yfir á aðra þjóðjörð, þar sem hann flytur þangað eftir beiðni og tilstuðlan ríkisstjórnarinnar. Ég lít svo á, að þetta sé fyllilega eftir anda og tilgangi laganna, þó að í sambandi við þetta megi sjálfsagt hanga í einhverjum bókstaf til þess að vefengja þetta. Og áður en ég ákvað þetta, ræddi ég þetta atriði við merka lögfræðinga, sem litu á málið alveg eins og ég, svo sem Gunnlaug Briem skrifstofustjóra í atvmrn., sem er mjög góður lögfræðingur. Hann áleit anda laganna fullnægt með þessu, þó að það stangist nokkuð á við bókstafinn. Og ég bar þetta undir landbúnaðarnefndir Alþ., og ég fékk álit frá sex af tíu þeirra nefndarmanna, sem í þeim voru, að þeir litu eins á þetta mál eins og ég. Og að því loknu seldi ég Jörundi Brynjólfssyni jörðina, eftir að hafa leitað umsagnar Búnaðarfélags Íslands um það, hvort það teldi eðlilegt eða heppilegt að nota jörðina til annarra opinberra ráðstafana, svo sem til að koma þar upp byggðahverfi, og var búinn að fá álit og yfirlýsingu sérfræðinga þess um það, að þeir teldu það ekki koma til mála. Ég bar þetta undir sýslunefnd Árnessýslu og hreppsnefnd hreppsins þar, sem Kaldaðarnes liggur, og fékk sömuleiðis vottorð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps um hæfni Jörundar Brynjólfssonar til búskapar og meðmæli um það, að hann fengi jörð áfram. Ég er því óhræddur við að leggja þetta mál undir dóm, og ef dómarar meta meira anda og tilgang laganna en einstök orðatiltæki, þá mun ég verða sýknaður af því. Og þó að ég yrði ekki sýknaður af því, þá yrði það vegna þess, að þeir, sem dæmdu um það, litu frekar á bókstafinn, sem deyðir, heldur en andann, sem lífgar.

Þá kem ég að hinni síðari ráðstöfun, sem ég hef verið víttur fyrir, að koma þarna í Skálholti upp vísi að skólabúi. Það hefur verið spurt um það, samkvæmt hvaða heimild ég hafi gert það: Ég svara því með því að lesa hér fyrri hluta 1. málsgr. 2. gr. í lögum um bændaskóla. Hún hljóðar svo:

„Á skólajörðum skulu vera hæfilega stór, fjölbreytt bú, rekin á kostnað ríkisins, og veita skólastjórarnir þeim forstöðu.“ — Nú er það svo samkv. þessu ákvæði laganna, að það er ekki aðeins heimild til þess, heldur skylda að reka þessi bú á skólajörðunum, því að hér stendur, að það skuli koma upp skólabúum á skólajörðunum. Og skólinn tekur ekki til starfa, fyrr en komið er upp þar skólabúi. Og undirbúningsnefndinni og framkvæmdastjóranum og mér, okkur fannst öllum tilvalið, meðan við sáum fram á það, að byggingar skólans mundu ganga hægt vegna gjaldeyrisörðugleika, að undirbúa þá á meðan að koma þarna upp góðu skólabúi. Og ég er sannfærður um, að við fáum miklu betri bústofn á þennan hátt, með því að byggja búið upp á nokkrum árum, heldur en með því að kaupa þetta allt á einu ári. Og það hefur verið lögð á það áherzla að velja góða og gagnlega gripi á þetta bú, og það með því að kaupa þá smátt og smátt, til þess að þarna geti verið góður kynbótastofn, þegar skólinn er tilbúinn til að taka til starfa. Og þetta hefur verið gert. Við erum sannfærðir um, að við allar byggingarframkvæmdir í Skálholti muni vera stórkostlega miklu betra að hafa þarna heimili við höndina til þess að fæða mennina, sem að byggingunum vinna, heldur en að ætla að kauþa allt efni í fæði þeirra að. Og það mundi bókstaflega ekki vera hægt að fá menn til að starfa þarna öðruvísi, en með því að hafa heimili á jörðinni. Og ég er sannfærður um, að það muni sýna sig, að það hafi verið vel ráðið að byrja á því að byggja skólabúið upp á þennan hátt, bæði vegna búsins sjálfs og þeirra framkvæmda, sem fram eiga að fara í Skálholti. — Ég vil geta þess — mönnum hægir e. t. v. við það sumum hverjum —, að vegna þess að sauðfé Jörundar Brynjólfssonar var hagvant þarna, var talið rétt að kaupa það, til þess að hafa það á jörðinni til að standa undir búrekstrinum, — þar er um 200 fjár sett á vetur nú, — og við komumst að þeim kaupum þar, að ef fjárbúið hefði verið selt allt í haust, sem var keypt af Jörundi Brynjólfssyni, þá var þar um 10 til 15 þús. kr. hagnað að ræða fyrir ríkið af þeim kaupum. Þetta er kannske ofurlítil sárabót fyrir þá menn, sem finnst, að jörðin hafi verið keypt of dýrt af Jörundi Brynjólfssyni. Þarna eru nú á jörðinni 200 fjár, 10 kýr, tvær kvígur og 10 hross, og þar á meðal sex úrvalshryssur, sem valdar eru með það fyrir augum að verða grundvöllur þarna að góðu hrossabúi.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessa skýrslu lengri. Ég hef orðið fyrir álasi og gagnrýni fyrir það, sem ég hef gert þarna til þess að hrinda þessu máli áfram. Og ég hefði líka áreiðanlega orðið fyrir því, ef ég hefði stöðvað framkvæmdir þarna, og ég hefði síður viljað taka við því. Ég er sannfærður um, hvernig sem menn líta á þetta, að þessum skóla verður komið þarna upp. Og honum hefur þegar verið valinn staður á fögrum hálsi, sem er nú kannske ekkert aðalatriði í málinu. Guðjón Samúelsson byggingameistari segist hvergi hafa séð jafnfagran skólastað og þarna. Og á sínum tíma rís þarna bygging, sem verður eins monumental fyrir landbúnaðinn eins og Sjómannaskólinn, sem reistur hefur verið fyrir unga sjómenn hér við bæinn. Þessi bygging mun standa og gnæfa þarna um aldir, og þangað munu ungir menn öld eftir öld sækja þekkingu og leikni við sín mikilsverðu störf fyrir sjálfa sig, land sitt og þjóð. Og þeir munu í þessari væntanlegu byggingu sækja til skólans metnað og stórhug fyrir sjálfa sig. Já, metnað hafa íslenzkir bændur alltaf haft, þrátt fyrir basl og bágindi, sem þeir hafa orðið að þola, þó að reynt hafi verið að drepa þann metnað niður í þeim. En hann verður ekki drepinn. Og þessi skóli mun um ókomna framtíð standa þarna sem vitni fyrir hina ungu bændur — löngu eftir að allt nagg og nart, sem við er haft út af framkvæmd þessa máls, er gleymt.