17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í D-deild Alþingistíðinda. (5042)

905. mál, bændaskólar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það liggur fyrir fyrirheit um það, að rætt verði meir um þessi mál síðar á hæstv. Alþ., og ef svo verður, get ég að mestu geymt það, sem ég vildi sagt hafa um þetta, til þeirra daga.

Það kom fram ávæningur um fyrirheit í ræðu hv. fyrirspyrjanda um það að nema úr lögum, af þar til greindum ástæðum, sem hann tók fram, ákvæðið um, að reisa skuli þriðja bændaskóla landsins í Sunnlendingafjórðungi. Mér þykir þetta koma úr harðri átt, af því að hann er þm. Reykv., því að ég hygg, að bændastéttin á Suðurlandi og kauptúnsbúar þar og hins vegar Reykvíkingar eigi í aðalatriðum um þróun og afkomu sömu hagsmuna að gæta. Og eitt þeirra atriða, sem þarf að ræða um, er, að bændamenningin aukist í samræmi við margháttaðar breyt. á búskap, sem eru alltaf að gerast, og að bændur verði ekki undanskildir því, þegar talað er um sérmenntun, að geta hlotið einnig sína sérmenntun. — En ef á að fara eingöngu eftir aðsókn að þeim stofnunum, sem kostar fé að koma upp, þá ætti bara að halda áfram, jafnvel öðru fremur, að reisa ný bíó, þau verða sótt. Þar er kappið mest í aðsókninni. Þar þarf barlómsbumbuna ekki að slá. — Það hefur að vísu verið dauf aðsókn að þessum tveimur bændaskólum, sem til eru í landinu nú. En það þarf að gera þá fjölbreyttari.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. S-Þ. vil ég andmæla einu orði, sem ég tel, að hafi verið rangt hjá honum, þó að sumt væri í hans ræðu réttilega sagt, svo sem það, að það þyrfti að breyta um fyrirkomulag skólanna að ýmsu leyti. En að það sé enginn áhugi á Suðurlandi um þetta mál, þá veit ég, að hann fer ekki vísvitandi rangt með það, en þetta er á misskilningi byggt hjá honum og sennilega frá ósannorðum heimildum. Ég tel mikinn áhuga vera fyrir þessu skólamáli á Suðurlandi. En það bar dálítið á milli í þessum efnum, og komu þar til greina nokkur leiðindi, sem hljóta að jafna sig alveg eftir á, sem var um ákvörðun Skálholts sem staðar fyrir skólann. En eitthvað varð að verða ofan á í því efni. Og hæstv. ráðh. skýrði nú frá þessu. Ég hygg, að það liggi fyrir skjallegt frá meginþorra bænda í Árnessýslu og ýmsum ágætum bændum í Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum líka, að þeir óski eftir því, að flýtt verði byggingu bændaskóla í Skálholti. Þetta er documenterað. Og þetta vil ég segja til leiðréttingar.