19.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í D-deild Alþingistíðinda. (5045)

905. mál, bændaskólar

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það, sem skiptir mestu máli nú um okkar bændaskóla, er að breyta skipulagi þeirra þannig, að þeir verði nothæfir, vinsælir og gagnlegir fyrir landsfólkið. Það aftur á móti að búa til þriðja skólann, sem lítið væri sóttur, væri gagnslaust. Ég vil benda á, hvaða misskilningur hefur ríkt um skipulag bændaskólanna, að á stærri skólanum, Hvanneyri, þar er ekki enn þá búið að reisa vinnustofu fyrir nemendur. Af hverju? Af því að bóknámið er látið vera aðalatriðið í skólakennslunni. Ég man ekki, hvort það eru 15 eða 20 bóknámsgreinar, sem stendur í lögum um bændaskóla, að þar skuli kenna, en þær eru eitthvað um það, og þessi mikli námsgreinafjöldi hefur staðið skólunum fyrir þrifum um það, hve litið hefur verið kennt þar verklegt. Eiginlega sýnist mér, að Torfi í Ólafsdal, sem aldrei lærði á landbúnaðarháskóla, hafi verið sá eini af bændamenningarfrömuðum á okkar landi, sem skilið hafi, hvernig búnaðarskólar eigi að vera. Hann hafði fyrst og fremst verklega kennslu hjá sér, eins og hann gat við komið. Og í sambandi við vöntun vinnustofu við bændaskólana má nefna það, að engum dettur í hug að byggja þannig húsmæðraskóla, að þar sé ekki til eldhús eða þvottahús. En þeir, sem staðið hafa að þessum búnaðarskólamálum hér, og það var síðast samþ. í fyrra, hafa haft þetta um of einskorðaða bóknámsfyrirkomulag á bændaskólunum. En þeir verða að gæta að því, að fólkið fordæmir þetta. Þeir verða að gæta að því, að þegar voru aðeins níu menn við nám á Hólum og aðrir níu á Hvanneyri, þá er ekki hægt að segja, að það sé eðlilegur áhugi hjá bændastéttinni í landinu fyrir bændaskólanámi, þegar ekki koma nema 18 menn alls á landinu í bændaskólana til náms. Hér getur ekki verið allt með felldu. Og þetta ætti hv. 1. þm. Skagf. að hugsa um sem forstjóri Búnaðarfélags Íslands. Það þarf að koma eitthvað jákvæðara til greina í breyttu formi kennslunnar í búnaðarskólunum. Og þegar það er komið, þá mun það sannast, að þar sem kvenfólkið kemst af með sjö mánaða nám í hússtjórnarskólum, þá hygg ég, að 9–10 mánaða skóli í endurbættu formi verði nokkru betri fyrir bændaefnin heldur en 14 mánaða kennsla nú í þessum skólum, sem er bóklegt fræðanám mest, sem bændur finna ekki annað en að komi þeim lítið við.

Ég átti þátt í því fyrir nokkrum árum, að lögboðið skyldi vera eitt sumarnámskeið á Hólum og Hvanneyri. Það var í rétta átt. En þetta kom þó þvert á móti því, sem nemendur vildu þá. Þeir vildu ekki vera í burtu frá heimilum sínum yfir sumartímann. Og það getur verið rétt, að sumartíminn sé ekki heppilegastur fyrir slík námskeið. En þá er vorið og haustið.

Að síðustu vil ég segja eitt orð um Kaldaðarnes. Ég álít það mikið ólán fyrir Jörund Brynjólfsson að koma þangað, eins og nú er umhorfs þar. Hann hefði átt skilið betra jarðnæði, en þetta. En aðferðin við þetta er leiðinleg, bæði fyrir hæstv, atvmrh. og þennan mikla dugnaðarmann.