17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (5047)

905. mál, bændaskólar

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Það skauzt nú upp hjá hv. þm. Barð., sem maður reyndar vissi, að honum er í þessu máli kannske öllu ríkara í huga það flokkspólitíska, sem hann hyggur, að hann hafi upp úr því, heldur en málið sjálft. Og sennilegast finnst honum, að hann geti fengið nokkra Framsfl.-þm. undir högg í því, og þess vegna heggur hann djarft. Hann sagði, að það hefði komið fram í skýrslu minni, að ég hefði viljað umbuna hv. 1. þm. Árn. fyrir skoðanaskipti. En það, sem kom mér til að vilja selja honum fyrir hönd þess opinbera jörðina Kaldaðarnes, var ekki af því, að ég vildi umbuna honum neitt, heldur sagði ég, að ég hefði viljað láta hann þar njóta sama réttar og ég vildi láta hvern mann annan njóta, sem eins stæði á um, jafnvel þótt hann héti Gísli Jónsson.

Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Barð. um lögskýringar. Ég er ólögfróður maður, og ég held, að hann sé lítið lögfróðari.

Þá hefur hv. þm. Barð. bent á, að það ætti að láta skólastjóra vera forstjóra skólabúsins á bændaskóla, og tók fram, að í lögum stæði, að það hefði ekki átt að byggja skólann fyrr en nauðsynlegum undirbúningi væri lokið. En undirbúningur er hús, nægilega mikið af ræktuðu landi og skólabú. Og undirbúningur er að búa þetta allt þannig í hendurnar á skólastjóranum, sem tekur við því á sínum tíma. Og það er verið að undirbúa byggingar og ræktun þarna, og það er verið að undirbúa skólabú á þessum stað. Og það er skylda að búa þetta allt í haginn fyrir skólann, svo að það sé tilbúið, þegar að því kemur, að hann taki til starfa. Og þessu er verið að vinna að nú.

Þá taldi hv. þm. Barð., að ég hefði farið rangt með, þar sem ég hefði sagt, að Jörundur hefði átt rétt á að kaupa Skálholt. Ég sagði þetta aldrei þannig. Ég sagði, að hann hefði átt rétt á að kaupa þá jörð, ef ríkið hefði viljað selja hana. (GJ: Það gat ekki selt hana samkv. lögunum.) Það gat gert það áður en samþ. voru lögin um Skálholtsskóla. Þess vegna virðist hér ekkert annað vera gert heldur en það, að sá réttur, sem Jörundur Brynjólfsson átti á því að kaupa þessa jörð, áður en Alþ. tók hann af honum, er fluttur frá einni jörð á aðra fyrir tilmæli landbrh.

Þá sagði hv. þm. Barð., að það hefði ekki verið lögum samkv. að selja Kaldaðarnes, af því að í lögum hefði verið ákveðið að nota þá jörð til annars. Það er ekki rétt. Það var ákveðið í lögum að koma drykkjumannahælinu, sem þar var, upp, en ekki, að það skyldi vera þar fremur en á öðrum stöðum. Og nú hafði jörðin verið lánuð til þessarar starfsemi þarna í nokkur ár, og búið var að flytja hælið aftur burt af jörðinni, sem var þá laus aftur og komin í hendur ráðuneytisins.

Ég skal svo láta þessum umr. lokið að sinni, en mun ekki færast undan að ræða þetta mál við hv. þm. þar, sem hann hefur meiri ræðutíma.