17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í D-deild Alþingistíðinda. (5049)

905. mál, bændaskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég hef lítið fylgzt með umr. um þetta mál, en mér finnst undarlegt að deila á ríkisstjórnina fyrir það, að hún framfylgi landslögum. Það er skylda samkv. lögum að byggja bændaskóla í Skálholti, og til þess hefur verið veitt fé á fjárlögum. Mér finnst því undarlegt að bera fram fyrirspurn á þingi um það, sem Alþ. er búið að samþykkja, og út af því, að lögum sé framfylgt. Ef menn eru óánægðir með gerðir ríkisstj. í þessu máli, getur Alþ. breytt lögunum og hindrað, að fé verði varið til búnaðarskóla í Skálholti.

Ég er sammála hv. 4. þm. Reykv., að aðrir skólar séu nauðsynlegri. Ég tel meiri ástæðu til að byggja menntaskóla í Reykjavík heldur en byggja á Laugarvatni. Aftur á móti tel ég fáar menntastofnanir gagnlegri, en búnaðarskóla og slæmt til þess að vita, að margir skólar eru betur sóttir en þeir, og er það mjög leitt, þar eð þörf er á mönnum með þá menntun, og getur leitt af þessu, að þörf sé á að koma upp búnaðarskóla, sem að gagni mætti verða. Ég hef verið því fylgjandi að koma upp skóla í Skálholti og mun verða það áfram, þar til komið verður með fullgild rök gegn því.

Um það, að fyrri ábúandi Skálholts fékk Kaldaðarnes keypt, ber að taka fram, að ég tel rétt að beina ásökunum um það til allrar ríkisstj., en ekki til hæstv. landbrh. eins. Og ég lýsi því hér með yfir, að hafi hæstv. landbrh. gert rangt, þá er ég honum samsekur, því að hann bar gerðir sínar jafnharðan undir mig og ég taldi þær ekki aðeins verjandi, heldur eftir atvikum það réttasta, sem gert yrði. Og ég er reiðubúinn að færa rök að því. Ég vil því nota tækifærið til að lýsa því yfir, að ég tel ásakanir á hæstv. landbrh. gerðar að ófyrirsynju og tel, að beina ætti þeim að allri ríkisstjórninni.