03.12.1948
Neðri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

10. mál, lóðasala í Reykjavík

Sigfús Sigurhjartarson. Herra forseti. Ég vildi í sambandi við þetta mál vekja athygli á þeirri staðreynd, að bæjaryfirvöldin hér í Reykjavík hafa á sínum tíma vaknað upp við þann vonda draum, að meginparturinn af því landi, sem bærinn var þá byggður á, var eign einstaklinga. Og ég segi vondan draum, því að þetta fannst bæjaryfirvöldunum vondur draumur. Þeim var ljóst, að þetta stóð í vegi fyrir öllum eðlilegum skipulagsframkvæmdum í bænum, og bæjaryfirvöldin drógu af þessu rétta ályktun, þá ályktun, að þau hættu með öllu að selja lóðir. Og nú er svo komið að heita má, að Reykjavíkurbær eigi meginhlutann af lóðum og lendum í sínu lögsagnarumdæmi utan Hringbrautar. Og bæjarstjórn Reykjavíkur skal það sagt til lofs, að hún hefur haldið fast við þá stefnu, að svo miklu leyti sem ég þekki til, að selja ekkert af þessum lóðum og lendum.

Hér í þessu frv. skýtur hins vegar nokkuð skökku við í þessu efni. Ríkið á þarna nokkurn lóðarskika, og er ekkert við því að segja. Hvort ríkið á þessa lóð eða Reykjavíkurbær, gerir ekki svo mikinn mismun frá mínu sjónarmiði, því að aðalatriðið er, að lóðin er í opinberri eign. En hér skýtur nokkuð skökku við frá stefnu bæjarstjórnar Reykjavíkur, þar sem nú er lagt til af einni þingnefnd, að ríkið taki upp aðra stefnu að þessu leyti, en bæjarstjórn Reykjavíkur hefur fylgt, n. hefur tekið upp þá stefnu að selja þennan lóðarskika. Það er athyglisvert, að þeir hv. þm., sem talað hafa í þessu máli, hafa báðir sagt, að „eftir atvikum“ vilji þeir fylgja þessu. Og atvikin eru þau, að dómsmrh. hæstv. á sínum tíma hefur gefið loforð um þessa sölu. — Ég vil nú segja, að einmitt þetta atvik ætti að verða til þess, að hæstv. Alþ. gæfi hér „statúerað exemplar“ og léti sjást, að það vildi ekki leyfa, að einstakir ráðherrar gæfu slík fyrirheit um sölu á fasteignum ríkisins, því að til þess hafa þeir ekkert vald og enga heimild. Ég vildi því skora á hv. alþm. að fella nú þetta frv., af þeirri ástæðu í fyrsta lagi, að það fylgir þeirri stefnu, að opinberir aðilar afsali lóðum í hendur einstaklinga, sem ég tel óheillastefnu, og í öðru lagi af þeirri ástæðu, að rétt er, að því verði lýst yfir af hæstv. Alþ., að einstakir ráðh. geti ekki gefið slík loforð sem hér hefur verið gefið og þau loforð séu markleysa og verði ekki staðið við þau.