10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í D-deild Alþingistíðinda. (5059)

907. mál, ríkisreikningar

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn um það, hvernig á því standi, að ríkisreikningarnir fyrir árin 1945, 1946 og 1947 hafa enn ekki verið lagðir fyrir Alþ. til úrskurðar, og hvenær það verði gert. Ég hef áður hér á Alþ. talað um ríkisreikningana. Ég bar fram fyrirspurn á síðasta Alþ. um sama efni, og í umræðunum um þá fyrirspurn viðurkenndi hæstv. fjmrh., að þetta væri ekki í svo góðu lagi sem það ætti að vera. Mér skildist á honum þá, að hann hefði fullan hug á að bæta úr því. Nú hafði ég búizt við því, strax þegar Alþ. kom saman, að í þetta sinn yrðu lagðir fram hér ríkisreikningar nokkurra ára. Ég hef ekki séð þá enn þá. Ég lét það bíða í þrjár vikur að bera fram fyrirspurnina, en nú er liðinn mánuður og ekki bólar á Barða enn þá. Það hefur stundum í umr. um þetta mál verið talið, að dráttur þessi stafaði af því, að það hefði dregizt svo mjög endurskoðun reikninganna hjá þeim mönnum, sem Alþ. hefur falið það starf. Ég man það, að í fyrra ræddu endurskoðendur nokkuð um málið og kvörtuðu yfir húsnæðisleysi, eins og fleiri menn hér á landi eiga við að búa. Þá sagði hæstv. fjmrh., að nú hefði verið aukinn svo húsakostur, að sá annmarki mundi vera úr sögunni. En þrátt fyrir þetta eru þessir reikningar ekki komnir enn, og fýsir mig að heyra, hvernig á því standi og hvort ekki megi vænta þess að sjá þá næstu daga og þeir verði lagðir fyrir Alþ. til úrskurðar.