10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í D-deild Alþingistíðinda. (5060)

907. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. V-Húnv., sem er svipaðs eðlis og fyrirspurn, sem kom fram frá honum á síðasta Alþ., vil ég segja það, að fjmrn. hefur á engan hátt skipt um hug í þessu efni, heldur reynt að stilla svo til, að endurskoðun gæti, farið fram með eðlilegum hætti. Það, sem ég sagði í fyrra um húsnæði endurskoðenda, hafi ég á það minnzt, hefur verið það, að vitanlega hefðu þeir slæmt húsnæði. Ég ætla, að úr því sé bætt nú og þeir hafi víst húsnæði til að vinna sín verk í. En það er ekki langur tími liðinn frá því, að það húsnæði var tilbúið til afnota fyrir þá. Að öðru leyti, þá eru endurskoðendur ríkisreikninganna ekki undirmenn fjmrh. Þeir eru umboðsmenn Alþ. og ekkert háðir fjmrh. eða fjmrn. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1945 hefur verið afhentur nú nýverið í fjmrn. og með aths. hv. endurskoðenda. Ég hef gert ráðstafanir til þess, að strax verði byrjað að vinna úr aths. þeirra, semja svör við þeim. Prentun reikningsins er löngu lokið, að öðru leyti en því, að það vantar það, sem á að fylgja honum, aths. endurskoðenda og svör ríkisstj. Svo fer auðvitað einhver tími í það hjá hv. endurskoðendum að úrskurða svörin. Nokkuð svipað er að segja um ríkisreikninginn fyrir 1946. Hann liggur til prentaður, en bíður eftir aths. hv. endurskoðenda, sem ráðun. hefur verið lofað, að mundi koma mjög fljótlega. Mun ég reyna að stilla svo til, að mjög fljótlega verði samin svör við aths. Þótt málið hafi á þennan hátt sinn ákveðna gang, þá mun ég reyna eftir megni að sjá til þess, að reikningarnir fyrir bæði árin verið lagðir hér fram. Ríkisreikningnum fyrir 1947 er nú varla ástæða til að spyrja eftir á þessu stigi málsins. Honum er nýlokað, sem kallað er, í ríkisbókhaldinu, og það dróst lengst að loka honum, af því að fjmrn. skorti upplýsingar, sérstaklega varðandi flugmálin. Það tók langan tíma og mikinn eftirrekstur að fá kostnaðinn við þau mál, þannig að hægt væri að stilla honum upp á reikninginn. Strax þegar unnt er að koma því við, verður hann settur í endurskoðun, og vitaskuld dregst það nokkuð, að hann geti orðið lagður fram.

Ég ætla þá, að ég hafi gefið þær upplýsingar, sem spurt er um, þær sem á mínu valdi er að gefa.

Eins og áður er tekið fram, hafa yfirskoðunarmenn landsreikninganna átt við ómöguleg vinnuskilyrði að búa, en sem betur fer hefur verið hægt að bæta úr því, og þá eiga þeir miklu hægari aðstöðu til þess að ljúka sinu verki. Ég get svo að öðru leyti tekið undir með hv. alþm. um það, að þessum afgreiðslum öllum á reikningunum þarf að hraða miklu meir en gert hefur verið, og ég er því sammála, að hann ætti að koma miklu fyrr fram, en til þess eru þær ástæður, sem þegar hafa verið fram teknar. Meira hef ég svo ekki um þetta að segja að svo komnu máli.