10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í D-deild Alþingistíðinda. (5062)

907. mál, ríkisreikningar

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið. En af þeim kemur því miður fram, að það er langt frá því, að þessum málum hafi verið kippt í viðunanlegt horf. Mér skilst, að það sé ekki enn búið að semja í stjórnarráðinu svör við athugasemdum yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn fyrir 1945, en hins vegar eigi nú að hraða því, og virðist sannarlega vera tími til þess kominn. — Þá skildist mér á hæstv. ráðh., að enn væru ekki komnar athugasemdir frá yfirskoðunarmönnum við ríkisreikninginn frá 1946 og 1947, og hefði þó sannarlega átt að vera búið að athuga a. m. k. ríkisreikninginn fyrir 1946. En gott er, að hæstv. ráðh. ætlar nú að hraða þessu. Hæstv. ráðh. segir, að ekki sé ástæða til að spyrja enn um ríkisreikninginn fyrir árið 1947. En það er full ástæða til þess, því að fyrir nokkru var samþ. þál. um ríkisreikningana og þar beinlínis lagt fyrir, að þessu reikningsuppgjöri skyldi hraðað svo, að ríkisreikningur skyldi jafnan vera fullgerður og endurskoðaður fyrir lok næsta árs, eða innan eins árs frá lokum reikningsársins. Og samkvæmt þessu ætti ríkisreikningurinn fyrir 1947 að liggja fyrir fullgerður með athugasemdum yfirskoðunarmanna, svörum stjórnarráðsins og till. til úrskurðar fyrir þingið fyrir lok þessa árs, 1948. Og það er þetta, sem vitanlega á að gera kröfu til. að verði gert. Ég tel, að alveg sé ótækt að haga þessu eins og gert hefur verið, að ríkisreikningnum verði ekki lokað fyrr en kannske á síðasta ársfjórðungi næsta ár á eftir reikningsárinu. Við vitum, að öllum einkafyrirtækjum er gert að skyldu að ljúka uppgjöri á fyrsta fjórðungi ársins á eftir reikningsárinu, sem verður að gerast vegna skattaframtals. Og það er engin ástæða fyrir ríkið að láta þetta dragast á þann hátt sem gert hefur verið.

Hv. þm. A-Húnv., sem er einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna, sem Alþ. hefur kosið að undanförnu, telur, að þessi dráttur á framkomu ríkisreikninganna á Alþ. stafi aðallega af því, að endurskoðun í stjórnarráðinu sé mörgum árum á eftir tímanum. Hann segir, að þetta sé að færast í betra horf. En þó skilst mér, að enn þá sé starfi þessu ekki lokið fyrir árið 1945, svo að ég tel, að þarna megi róa betur, ef þetta á að komast í viðunandi horf. Nú tók ég eftir því í hinu nýja fjárlagafrv.. að aukið hefur verið starfslið í fjmrn. og endurskoðunardeild þess. Þó skilst mér, að þar hafi veríð allmargt manna fyrir. Og mér skilst, svo miklu fé sem varið er til þessarar stofnunar, að sú fjárupphæð ætti að nægja til launa handa það mörgum vöskum mönnum, að þeir ættu að geta haft þetta í viðunandi lagi.

Ég vil því eins og áður skora á alla aðila, sem þarna eiga hlut að máli, að vinna að því, að þetta komist í viðunandi horf, og að við fáum nú innan skamms á þessu þingi að sjá fullgerða ríkisreikninga allra þessara ára, sem liðin eru, en enn hafa ekki verið lagðir fyrir þingið.