17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í D-deild Alþingistíðinda. (5067)

61. mál, launakjör alþingismanna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Út af a-lið skal ég geta þess, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur upplýst og kunnugt er þinginu, að 1943 var skipuð mþn. til að athuga launakjör þingmanna. Þessi nefnd aflaði sér upplýsinga og skilaði tillögum sínum 22. okt. 1946, og var þar gerð grein fyrir drættinum, sem stafaði einkum af því, hve erfitt var að afla sér upplýsinga um þessi mál á stríðstímunum. Þegar þessar till. í frv.-formi og talsvert ýtarleg frásögn af launakjörum þingmanna á Norðurlöndum, í Bretlandi og í Bandaríkjunum hafði borizt þáverandi hæstv. forsrh., sem þá hafði beðizt lausnar, svaraði hann því 28. nóv. 1946, að hann treysti sér ekki til að bera frv. fram sem stjfrv., og þannig lá þetta fyrir, þegar ég tók við, en ég taldi rétt, þar sem greiðari leið var nú til að afla upplýsinga frá Norðurlöndum og ég hafði grun um, að breytingar hefðu orðið þar á þessum málum, að reyna að afla þaðan nýrra upplýsinga. Það kom líka fram við eftirgrennslan, að kaup hafði breytzt í hækkunarátt á Norðurlöndum, og einnig var ákveðið þar, að þeir þm., sem hefðu setið ákveðinn tíma á þingi eða náð ákveðnum aldri, skyldu eiga rétt til eftirlauna. Þegar þetta var ljóst, taldi ég rétt að snúa mér til allra þingflokkanna og leita mér upplýsinga um, hvort þeir vildu standa að frv. líku frv. mþn. 8. þessa mánaðar sendi ég svo frv. og grg. mþn. ásamt upplýsingum um kjarabreytingar, sem orðið hafa hjá öðrum þjóðum, til þingflokkanna og óskaði eftir umsögn þeirra. Svar hefur enn sem komið er aðeins borizt frá Sameiningarflokki alþýðu — sósíalistaflokknum, sem kveðst vera fylgjandi frv. og munu styðja það, þó að þeir telji jafnvel, að kjörin hefðu átt að vera betri. Svar hefur ekki enn þá borizt frá hinum þingflokkunum. Og hef ég þá svarað fyrirspurninni um undirtektir þingflokkanna.

Varðandi b-lið sé ég mér ekki fært að leggja frv. fyrir, nema allir þingflokkarnir standi að því. Ég mun því biða átekta, unz svar hefur borizt frá hinum flokkunum. Hér er um að ræða allviðkvæmt mál nú á tímum, þegar svo mjög er rætt um sparnað. Og mætti nota það í áróðursskyni, ef einn þingflokkur vildi nota það sér til framdráttar gegn öðrum. Mín persónulega skoðun, hvorki skoðun ríkisstj. né flokks míns, sem ekki hefur enn tekið afstöðu til málsins, er sú, að eðlilegast væri að taka a. m. k. að einhverju leyti upp svipaða skipan og um getur í frv. Hér eru hafðar reglur, sem alls staðar er hætt að nota, svo sem ákveðið dagkaup. Alls staðar annars staðar, sem ég þekki til, er ákveðið árskaup eða ákveðið kaup fyrir þingtímann, og tel ég það líklegra til betri vinnubragða að hafa það svo heldur en dagkaup. Um önnur hlunnindi í frv., t. d. eftirlaun fyrir þá, sem hafa setið 10 ár á þingi eða hafa náð 65 ára aldri, og örorkubætur, þá tel ég eðlilegast, að það verði rætt nánar. Þetta eru persónulegar hugleiðingar, en ég endurtek það, að það fer eftir afstöðu þingflokkanna, hvað ég geri. Verði einn eða fleiri þingflokkar á móti, þá legg ég frv. ekki fram, en að sjálfsögðu geta einstakir þingflokkar eða þingmenn lagt fram slíkt frv.