18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (5075)

908. mál, lýsisherzluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárl. kom hann nokkuð inn á lýsisherzluverksmiðjumálið, og mátti skilja á ummælum hæstv. ráðh., að einstaklingar væru að undirbúa og koma í gang lýsisherzluverksmiðju. En ég vil benda á það, að það liggja fyrir allmargar afgreiðslur hér í þinginu varðandi þetta mál.

Í fyrsta lagi voru samþ. um það l. 1947 að heimila ríkisstj. að reisa lýsisherzluverksmiðju, þegar rannsókn hafi sýnt, að það sé tímabært. Þessa till. flutti þáverandi sjútvn. neðri deildar. — Þá var samþ. þáltill., sem hv. 5. þm. Reykv. (SK) flutti hér á Alþ., um það að fela ríkisstj. að láta svo fljótt sem auðið væri framkvæma fyrirmæli síðari málsgr. 1. gr. fyrrnefndra heimildarl., sem er einmitt ákvæði um að byggja lýsisherzluverksmiðju. Þetta var samþ. á þinginu 1944. — Loks voru á þinginu 1946 samþ. l. um það, að heimila ríkisstj. að taka allt að 7 millj. kr. lán til þessara framkvæmda. Þannig er þingið búið að taka ákveðna afstöðu um það, að ríkið ætli að byggja þessa verksmiðju, hvort sem einstaklingar kynnu að ráðast í slíka byggingu eða ekki. Þess vegna fer ég fram á að fá upplýsingar um þetta atriði. Þessu máli var þannig komið í tíð fyrrverandi stj., að það hafði verið skipuð byggingarnefnd, og hafði hún fest kaup á þeim hluta vélanna, sem lengstan tíma tók að framleiða, með 18 mánaða afgreiðslufresti, og áttu þær vélar að vera tilbúnar í apríl s. l. vor, en öðrum vélum, sem einfaldari eru og hægt er að smíða hér á landi, þótti ekki ástæða til að festa kaup á með svo löngum fyrirvara. En gert var ráð fyrir því, að þegar þessar vélar væru tilbúnar, í apríl 1948, þá væri verksmiðjan og aðrar vélar tilbúnar, þannig að verksmiðjan gæti orðið tilbúin fyrir haustið 1948.