18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í D-deild Alþingistíðinda. (5076)

908. mál, lýsisherzluverksmiðja

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Snertandi þau ummæli, sem ég viðhafði hér við fjárlagaumræðu, þá átti ég við þá fyrirhuguðu verksmiðju, sem Lýsissamlag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda hefur með höndum undirbúning að, en sú verksmiðja mun vera meir miðuð við hvalolíu og meðalalýsi, en lýsisherzlu, en þó er mér ljóst, að nokkur reynsla muni geta fengizt um herðingu á síldarlýsi, þegar þetta fyrirtæki kemst í gang. Þetta var ekki fram sett til þess að draga neitt úr lagaákvæðum um lýsisherzluverksmiðju, og þó að þessi verksmiðja yrði reist, þá býst ég við, að haldið yrði áfram með það, sem fyrirhugað hefur verið. En ég átti við það, að við mundum fá einhverja reynslu af því, hvernig herzlan gengi hér á landi, þegar þessir einstaklingar, sem ég átti við, færu af stað.

Annar og þriðji liður fsp. eru um það, hvenær þessir einstaklingar hafi fengið gjaldeyris- og innflutningsleyfi fyrir vélum til slíkrar verksmiðju og hvenær þeir hafi fengið fjárfestingarleyfi fyrir slíkri verksmiðju. Varðandi gjaldeyris- og fjárfestingarleyfi, þá er mér það óviðkomandi og ætti hv. þm. Siglf. að beina þeirri fyrirspurn til annarra aðila en mín.

Þá spyr hv. þm., hvort ríkisstj. ætli að byggja lýsisherzluverksmiðju eða hvort hún hafi ákveðið að hætta við byggingu lýsisherzluverksmiðju. Svona fyrirspurn ætti að vera óþörf, eftir að hæstv. samgmrh. hefur lýst yfir og gert grein fyrir, hvað ríkisstj. hafi í hyggju, ef við fáum svokallaða Marshall-peninga, því að meðal þeirra framkvæmda, sem gert er ráð fyrir í sambandi við þá hjálp, er lýsisherzluverksmiðjan.

Fimmti liður fsp. er það, hverjar séu ráðstafanir ríkisstj. viðvikjandi þeim vélum, er þegar höfðu verið keyptar til lýsisherzluverksmiðjunnar. Hv. þm. var að lýsa því nú, að afhendingartími á þessum vélum hefði átt að vera 18 mánuðir. Mér skilst af skýrslu, sem hefur legið í ráðuneytinu, frá byggingarnefndinni, sem var, að þeir hafi 1946 pantað þessar vélar í Englandi eða einhvern hluta af þeim, þ. e. a. s. vélar til vetnisframleiðslu. Þetta mun hafa verið pantað fyrir 50,000 sterlingspund og sendiráðið í London knúið til þess undir forustu þessa hv. þm., þegar hann var ráðh., að takast á hendur ábyrgð á greiðslunum fyrir landsins hönd, og það er svo ekki farið að afhenda þessar vélar til okkar enn þá, svo að framleiðslan hefur gengið verr en ætlazt var til. Nú síðustu mánuði hefur þetta firma verið að tilkynna, að einhverjir einstakir hlutar úr þessum vetnisframleiðsluvélum væru tilbúnir, en alls ekki kerfið sjálft, og nú síðast hefur það heyrzt frá þessu firma, að það var að ákalla íslenzk stjórnarvöld sér til hjálpar til að fá leyfi til að smíða einn hlut í þetta vélakerfi, svokallaðan elektrolysor.

Þannig standa þessar sakir, svo að það virðist hafa verið annaðhvort, að sú n., sem samningana gerði, hafi ekki dottið ofan á það bezta eða fljótasta firma í þessum efnum, eða þá að samningar hafi verið losaralega gerðir eða firmað átt við meiri erfiðleika að etja um að afhenda þetta, en búizt hafi verið við. Annars er búið að borga 1/3 af þeirri upphæð, sem um var samið, en nú gengur firmað eftir því, um leið og það biður um aðstoð ríkisstj. til að fá þetta smíðað, að fá 10.000 sterlingspund í baktryggingu til að halda áfram við smíðarnar. Eins og kunnugt er, var þannig við þetta mál skilizt af fyrrv. hæstv. atvmrh., að heimild þingsins til lántöku var alls ekki notuð. Hins vegar sendi hann menn út um lönd til þess að festa kaup á vélum og gera samninga um verulegar fjárfúlgur og lét sendiráð landsins ganga í nokkra ábyrgð í þessu efni. en fyrir peningum til málsins var ekki séð. Þegar ég kom í ráðun., reyndi ég að nota þessa lántökuheimild, en varð ekki ágengt. Undirbúningur málsins var því frá öndverðu losaralegur hjá hæstv. ráðh., sem um þetta fjallaði, og ég hafði ekki meiri trú á þessari n. hans en svo, að ég fann ástæðu til þess að biðja stjórn síldarverksmiðjanna að taka að sér framhaldandi rannsókn á þessu atriði, með því líka að það var talsverður kostnaðarsparnaður, því að mér skilst, að n. hafi verið nokkuð dýr þann tíma, sem hún starfaði. Nefndin, eða hæstv. ráðh., sem réð hennar gerðum, var búin að kaupa lóð á Siglufirði. Hefur nú farið fram rannsókn á þeim möguleikum, sem eru á því að byggja verksmiðjuna á Siglufirði, og hefur Jón Gunnarsson verkfræðingur tekið að sér, eftir að núverandi ríkisstj. tók við, að gera athuganir á þessu máli, því að það virðist svo, að þær framkvæmdir, sem hv. þm. lét gera, meðan hann var ráðh., hafi verið út í bláinn. Almenna byggingarfélagið hefur athugað lóðina, og er hún í sama dýinu og þar sem geymarnir voru reistir, sem sigu. Hefur Almenna byggingarfélagið komizt að þeirri niðurstöðu, að lóðin sé því aðeins nothæf, að nógu mikið af staurum sé rekið niður, til þess að hægt sé að byggja verksmiðjuna þarna á lóðinni. Þar að auki er lóðin aðeins 5.000 fermetrar, og ef væri að ræða um það, að svona verksmiðja geti haft útþenslumöguleika, þá er lóðin að dómi manna, sem hafa athugað hana, 1/3 of lítil, því að slík verksmiðja þarf að hafa þenslumöguleika. En lóðin er keypt og fyrir hana eru greiddar 150.000 kr. — Ekki er nægilegt rafmagn til þess að reisa eina síldarverksmiðju í viðbót á Siglufirði. Einnig er mjög hæpið, að þar væri nóg vatn fyrir hendi til þess að uppfylla þarfir hennar í þeim efnum. Í skýrslu verkfræðings, sem hefur athugað þetta fyrir hönd ríkisstj., segir, að það sé ekkert vit í því að ætla verksmiðjunni stað á Siglufirði, sökum þess að það sé ekki nægilegt rafmagn fyrir hendi. Skýrsla þessi er mjög ýtarleg og er gerð af Guðmundi Marteinssyni verkfræðingi. Það lá því opið fyrir að ætla ekki verksmiðjunni stað á Siglufirði. Nú, en um vélarnar er það að segja, að þær eru í smíðum hjá ensku firma, en aðeins nokkur hluti þeirra er kominn til landsins.

Hv. þm. Siglf. hefur gert þetta mál hvað eftir annað að árásarmáli á mig og hefur borið mér á brýn vanrækslu í þessu máli. En ekki er mark takandi á þessum ummælum hv. þm. frekar en oft endranær. Í öllum umr. sínum sniðgengur þessi hv. þm. að segja rétt frá hinum fjárhagslega grundvelli þessa máls. Í ráðherratíð sinni efndi þessi hv. þm. til kostnaðar til þess að kaupa lóð á Siglufirði, sem þegar til kom reyndist algerlega óhæf og ekkert vit væri í að byggja á verksmiðju. Málið stendur nú svo, að núverandi stjórn hefur ákveðið að láta verksmiðjuna verða eitt af þeim stórfyrirtækjum, sem veita á fjárhagslega aðstoð á grundvelli Marshall-laganna. En einnig er til athugunar hjá ríkisstj., hvar verksmiðjan verður reist.