18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í D-deild Alþingistíðinda. (5078)

908. mál, lýsisherzluverksmiðja

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Hv. þm. Siglf. vildi leggja þann skilning í það, sem ég sagði, að það væri ekki tekin ákvörðun um það að byggja ekki verksmiðjuna á Siglufirði. Ég get ekki fullyrt, að það sé, því að það er ekki enn tekin nein ákvörðun um það, eins og málið liggur nú fyrir, hvar verksmiðjan verði reist. (ÁkJ: Það var búið að ákveða það áður á Siglufirði.) Já, en þær athuganir, sem fram hafa farið, benda á svo mikla annmarka á því, að svo virðist, að það sé mjög óskynsamlegt að byggja verksmiðjuna á Siglufirði.

Ég skal til frekari skýringar drepa á nokkur atriði úr þeirri rannsókn, sem fram hefur farið, hv. þm. til skilningsauka.

Ég ætla ekki að lesa upp skýrsluna í heild, en ég skal drepa á nokkur atriði varðandi Siglufjörð. Þar segir svo, í þeirri skýrslu, sem stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur borizt í hendur og ég hef fengið til athugunar. Þar segir:

„Til að fullnægja raforkuþörfinni, ef lýsisherzluverksmiðjan yrði byggð á Siglufirði, þarf fyrir utan að fullvirkja Skeiðsfoss, (bæta við rúmlega 2.00 kw. vélasamstæðu) að auka við vélum (dieselvélum) um 1.000 kw., til að öruggt væri, að alltaf væri nóg raforka fyrir hendi.

Sé gert ráð fyrir, að lýsisherzluverksmiðjan verði ekki látin sitja fyrir Skeiðsfossrafmagni, sem áætlað er, að kosti 6½ eyri kwst., þá verður verð á rafmagni á Siglufirði til lýsisherzluverksmiðju óhjákvæmilega hátt, þar sem framleiða þyrfti um 21% af orkuþörfinni með dieselvélum. Sé raforka framleidd með dieselvélum, reiknað á 22 aura kwst., þá kostar raforka á Siglufirði til lýsisherzluverksmiðju 93/4 aura hver kwst.

Sé aftur á móti gert ráð fyrir, að lýsisherzluverksmiðjan hafi alltaf forgangsrétt að Skeiðsfossrafmagni, þá kostar rafmagnið 8,6 aura kwst. (samkvæmt skýrslu Guðmundar Marteinssonar).

Engan veginn er fullvíst, að nægilegt vatn sé til á Siglufirði til starfrækslu lýsisherzluverksmiðju, því að fullnægjandi mælingar á fáanlegu vatnsmagni þar eru ekki fyrir hendi.“

Svo er drepið hér á aðra staði, þar sem sumir hverjir geta selt rafmagnið fyrir 1,2 aura kwst., og þar er enginn vafi á, að nægilegt vatn er fyrir hendi.

Ég ætla ekki að lengja umr. með því að fara lengra út í þetta mál, hér er aðeins um skýrslu að ræða frá mjög hæfum mönnum, og hvað sem hún annars kann að sýna, er óhætt að slá því föstu, að hún sýnir það, að ákvörðun hæstv. fyrrv. atvmrh. um að byggja verksmiðjuna á Siglufirði, já, hvað sem tautaði, hefur verið tekin út í bláinn. Því að það er t. d. vert að athuga það, að hvað vatnsmagnið snertir, þá eru ekki einu sinni nægjanlegar mælingar á því fyrir hendi, það er enn ekki rannsakað til fulls. Þess vegna hef ég haldið því fram, að hæstv. fyrrv. atvmrh., þm. Siglf., hefur ekki undirbúið þetta mál með forsjá, — ekki þá þessa hlið málsins heldur, — fjárhagshliðina hef ég drepið á áður við þessar umr.

Það er alveg ljóst, að þegar á að byggja svona stórt fyrirtæki, þá verður að rannsaka það afar ýtarlega, hvar hentugast er, að svona verksmiðja standi. Og það er ákaflega leitt, ef Siglfirðingar eða aðrir verða fyrir vonbrigðum. út af staðsetningu iðnfyrirtækja. En það hljóta allir að sjá, að það er ekki hægt að hafa slíkt fyrir höfuðsjónarmið, einkum ef slíkar vonir hafa verið reistar á jafnótraustum grundvelli og sýnt er, að var gert, þegar þessi fræga lóð á Siglufirði var keypt fyrir 150 þús. kr., sem Almenna byggingarfélagið hefur rannsakað og komizt að þeirri niðurstöðu um, að það þyrfti að reka staura, að mig minnir 18 m djúpt í það fen, til þess að það mætti teljast forsvaranlegt að byggja slíka verksmiðju á þeirri lóð. Hér við bætist enn fremur það, að sjálft flatarmál lóðarinnar er svo takmarkað, að verksmiðjan ætti enga stækkunarmöguleika fyrir hendi, ef hún væri þar byggð.

Það verður svo náttúrlega hlutverk þeirra, sem með þessi mál fara í framtíðinni, að rannsaka til hlítar, hvar heppilegast er að koma lýsisherzluverksmiðju fyrir. Það hefur enn þá ekki verið gert annað, en að rannsaka aðstæður á Siglufirði í því efni. Þess var full þörf, því að það er sýnt, að hafi nokkur rannsókn átt sér stað af hendi fyrrv. atvmrh., þá hefur hún verið ákaflega ófullkomin og ekki á henni byggjandi.