18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í D-deild Alþingistíðinda. (5084)

909. mál, sementsverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið í málinu, og tel það komið í ljós, að það hafi verið ástæða til þess að staðsetja ekki verksmiðjuna með l. á þeim tíma, sem l. voru sett. Hins vegar vil ég benda á, hvort hæstv. ráðh. sér, sér ekki fært að láta rannsaka á næsta ári sérstaklega Brjánslækjarsand. Í skýrslu frá verkfræðingunum, Haraldi Ásgeirssyni og Tómasi Tryggvasyni, mæla þeir mjög mikið með þessum stað, en telja aðrar ástæður vera fyrir hendi, sem mæli á móti, svo sem möguleika á hafnargerð og innsiglingu. En ég þekki það vel til, að ég veit, að þetta er sáralítið atriði, og með tilvísun til þess þætti mér mjög eðlilegt, að þessi sandur, sem mjög er mælt með af verkfræðingunum, verði rannsakaður frekar, áður en málið er afgert. Einnig vil ég leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á. að við Dynjanda í Arnarfirði er mikið sandnám, og ef það reyndist svo, að sandurinn þar hefði inni að halda sömu gæði eins og aðrir staðir, sem rannsakaðir hafa verið, þá þætti mér ekki ólíklegt, að til mála kæmi, að þar yrði reist verksmiðja. Þar er hugsað að gera stórt raforkuver, og væri þá ekki óeðlilegt, að þar yrði reist verksmiðja. Hins vegar þætti mér ekki óeðlilegt, að aðrir staðir á landinu, t. d. á Austurlandi og víðar, þar sem nóg er um sand, yrðu athugaðir nánar, úr því að tími gefst til þess samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðh.