19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í D-deild Alþingistíðinda. (5096)

911. mál, kynbótastöðin á Úlfarsá

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Svo sem kunnugt er, hefur verið sett upp allmikil stofnun nýlega, vísindalegs eðlis, hér í Mosfellssveitinni. Mun hæstv. landbrh., vegna stöðu sinnar, hafa staðið fyrir þessu. Sá maður, sem veitir þessari stofnun forstöðu, Áskell Löve, hefur látið mikið til sín heyra og látið mikið yfir því, hvílíka blessun þjóðin gæti haft af því, ef hann gæti endurbætt jurtastofninn og garðyrkjuplöntustofninn hér á landi. Það hafa verið miklir erfiðleikar á því fyrir þennan mann að koma sér hér í fasta aðstöðu, því að það munu hafa verið gerðar tilraunir til að koma honum niður á Bessastöðum, í Kópavogi, á Reykjum og í Reykjahlíð í Mosfellssveit. Þessa staði hefur þessi maður sótt á að fá til sinna ráða og byrjað eitthvað á sumum þeirra. M. a. hefur hann sótt það fast að láta kaupa Reykjahlíð í Mosfellssveit handa sér fyrir eina millj. króna, en þáverandi landbrh. gat ekki fallizt á það. Núverandi landbrh. hefur keypt jörð í Mosfellssveit, og er þessi stofnun þar komin. Menn vita lítið, hvað þar gerist, nema á s. l. sumri kom tilkynning um það frá þessum vísindamanni, að hann hefði fundið upp yfirbreiðslur yfir plöntur, sem hann hafði byrjað með þarna upp frá. Skógræktarstjóri hefur svo upplýst það, að þetta tæki sé algengt hér og hafi þekkzt hér fyrir 15 árum. Ég vil ekki draga dul á það, að almenningur hefur ekki mikla frú á þessum manni og hans stofnun, og mun það varla vera tilefnislaust. Ég óska nú eftir að fá frá hæstv. landbrh. rétt svör um það, hvernig ástandið er með þessa stofnun og hvaða vonir menn mega gera sér um hana.