19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í D-deild Alþingistíðinda. (5097)

911. mál, kynbótastöðin á Úlfarsá

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal nú, í ekki allt of löngu máli, reyna að skýra frá því helzta, sem ég tek til greina í sambandi við þessa fyrirspurn. Ég skal geta þess, að árið 1939 voru Keldur í Mosfellssveit keyptar handa atvinnudeild háskólans til þess að láta vinna þar m. a. að jurtakynbótum og jarðvegsfræði. Var þá fyrirhugað, að atvinnudeildin hefði þessa starfsemi alla saman. Í lögum frá 1940, um atvinnudeild háskólans, er ákveðið, að við deildina starfi sérfræðingar í jarðvegsfræði og jurtakynbótum. Árið 1942 er Áskell Löve ráðinn sérfræðingur í jurtakynbótum við deildina, og um svipað leyti er Björn Jóhannesson ráðinn þar sem sérfræðingur í jarðvegsfræði. Árið 1946 eru Keldur teknar af atvinnudeildinni og fengnar í hendur stofnun, sem heyrir undir menntmrn., án þess að sú starfsemi, sem þar var hafin samkv. l., fengi nokkurt jarðnæði í staðinn. Það mátti því segja, að þessir tveir sérfræðingar, sem búíð var að ráða, léku eftir það í lausu lofti. Þeir höfðu ekkert aðsetur fyrir tilraunir sínar. Til þess að bæta úr þessu var svo Áskatli Löve með sína starfsemi fengin landsspilda í Kópavogi, til þess að hann gæti gert þar sínar tilraunir. Þannig stóð þetta mál, þegar ég tók við því í landbrn. Það var skoðun allra sérfræðinga, sem um þetta voru spurðir, að þessi blettur í Kópavogi væri ekki til frambúðar. Hins vegar lá þá fyrir ósk frá stofnuninni um byggingarframkvæmdir á þessum stað fyrir hátt á þriðja hundrað þúsund kr. Af þessum ástæðum fór ég þá að leita fyrir mér að öðrum og hentugri stað, sem væri frekar til frambúðar. Þá gafst mér kostur á jörð í Mosfellssveit með allstóru ræktuðu túni, vel rekinni og vel hýstri, fyrir mun minna fé en það, sem áætlað var til þess að byggja fyrir í Kópavogi, eða 160 þús. kr. Þótti þá sjálfsagt að flytja þessa starfsemi þangað. Húsum þeim, sem á Úlfarsá eru, mundi ekki verða komið upp nú fyrir tvöfalt það verð, sem var gefið fyrir alla jörðina. Hins vegar er því ekki að neita, að hvorki þá né nú eru menn vel ánægðir með þennan stað til frambúðar, m. a. vegna þess, að talið er nauðsynlegt að hafa gróðurhús til uppeldis jurta í sambandi við þessa starfsemi og líka er nauðsynlegt að hafa aðgang að heitu vatni. Ég gerði því ýtarlega tilraun til þess að sjá, hvort ekki væri hægt að fá hentugra land, þar sem heitt vatn væri fáanlegt, t. d. uppi í Mosfellssveit, til þess að tryggja þessari starfsemi framtíðaraðsetur. Það er rétt, að það kom til mála að fá Reykjahlíð fyrir þessa starfsemi. Hún var fáanleg fyrir eina millj. króna, en þáverandi landbrh. féllst ekki á þau kaup, enda má segja, að sú jörð hafi ekki verið sérstaklega hentug til þessarar starfsemi, því að það, sem hún þarf, er nægilegt gott land, til þess að hægt sé að starfa þar um ófyrirsjáanlegan tíma, aðgangur að heitu vatni og hús yfir starfsmann, sem stjórnar þessari starfsemi. Ég tel henni mjög vel borgið, ef hægt er að fá landsspildu, sem dugir til 20 til 30 eða 40 ára, með heitu vatni, og svo þarf að byggja þar eitt hús yfir starfsmann. Athugun um þetta fer nú fram, og þá þori ég að fullyrða, að hægt sé að leysa út aftur það fé, sem komið er í Úlfarsána, 160 þús. kr., að viðbættum kostnaði við viðhald og endurbætur. Hún mun nú standa í 200 þús. kr. Má svo selja hana aftur til annarrar starfsemi, sem hentar henni betur. Það er spurt um kaupverð jarðarinnar. Það er, eins og áður er tekið fram, 160 þús. kr. Það er spurt um, hve mikið sé lagt í húsa- og jarðabætur. 40 þús. kr. hefur verið lagt í það hvort tveggja, mest í breytingu á húsum, t. d. raflýsingu. Um hinar tvær fyrirspurnirnar, hve mikið hafi verið lagt fram í vinnulaun og hve miklar tekjur eða tap hefur orðið á rekstrinum, er það að segja, að þeim er ekki gott að svara, vegna þess að þetta er rekið eins og hver önnur tilraunastöð og störfin falla inn í kostnað við tilraunastöðvar á vissum búum á fleiri stöðum á landinu. Sama er að segja um niðurstöðurnar. Rannsóknarkostnaðurinn á Úlfarsá var árið 1947 90 þús. kr., og er í honum innifalið bæði endurbætur á húsum o. fl. Árið 1948 var hann 56.884,54 kr. En í fjárl. fyrir árið 1947 er áætlað til annars kostnaðar, m. a. til þess að koma fótum undir þessa starfsemi, 509 þúsundir, og af þessu voru teknar 160 þúsundir, sem jörðin var keypt fyrir. (JJ: Eru launin innifalin í þessu?) Nei, þau eru alveg sér, en munu vera um 9.600 kr., auk verðlagsuppbótar. Ég þóttist hafa svarað síðasta liðnum, þegar ég sagði frá því, að ég væri að leita fyrir mér nú sem stendur með land uppi í Mosfellssveit til þessarar starfsemi. Liggur þegar fyrir tilboð um þetta efni. Ég geri ráð fyrir, að nú næstu daga fari ég með það til fjvn. og ræði við hana um þessa ráðstöfun. Þangað til þetta mál er útkljáð, verður þessi starfsemi á Úlfarsá.