19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (5099)

911. mál, kynbótastöðin á Úlfarsá

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt við þessar umr. að skýra frá því, sem ég veit og brýtur í bág við yfirlýsingu hæstv. ráðh., sem segir, að sérfræðingarnir segi nú allt annað en var skoðun þeirra 1946. Þeim hafi þótt Kópavogur eini staðurinn, er til frambúðar gæti orðið. Pálmi Einarsson og dr. Áskell Löve kváði það eina staðinn á landinu, þar sem nægileg mold væri fyrir hendi. (JJ: Föðurlandssvikamold?) En fjvn. vildi eigi samþykkja málaleitunina.

Ég vil líka taka það fram, að sérfræðingarnir hafa oft sagt, að Úlfarsá væri mjög óheppilegur staður. Það var einnig vakið máls á því við sérfræðingana, hvort eigi mætti setja jurtakynbótafræðinginn niður á Sámsstöðum, Reykhólum eða Reykjum í Ölfusi, — fá honum þar land, sem hentugt kynni að þykja. En hann var ævinlega ósammála og vildi hvergi fá þetta. Stafa öll vandræðin í atvinnudeild háskólans af sífelldu ósamkomulagi, og fjvn. hefur veitzt erfitt að koma sér saman við hana. Þar vill hver maður setja sína deild sem sérstakan háskóla í landinu. Er nauðsynlegt að kippa þessu í lag.