18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í D-deild Alþingistíðinda. (5104)

912. mál, gjaldeyrismál

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég og hv. 4. þm. Reykv. höfum leyft okkur að flytja fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um gjaldeyrismál. Sú fyrirspurn er hér í þrem liðum. Í fyrsta lagi spyrjum við um það, hvort ríkisstj. hafi reynt að fá upplýsingar um gjaldeyriseignir íslenzkra aðila í öðrum löndum, og ef svo er, hvern árangur hafi þær eftirgrennslanir borið. — Í öðru lagi, hvort rannsakað sé hverju sinni, hvort þeir íslenzku aðilar, sem hafa óskað eftir innflutningsleyfum fyrir vörur án þess að þurfa gjaldeyrisleyfi vegna greiðslu á andvirði þeirra, hafi aflað sér gjaldeyris til greiðslu á vörunum á löglegan hátt, og hvort rannsakað sé hverju sinni, hvort þeir íslenzkir menn, sem ferðast til útlanda, hafi aflað sér gjaldeyris til greiðslu ferðakostnaðar og dvalarkostnaðar erlendis með löglegum hætti. Það er talið, að allmikil brögð séu að því, að viðskiptanefnd berist innflutningsumsóknir fyrir ýmsa hluti, án þess að jafnframt sé farið fram á gjaldeyrisleyfi fyrir greiðslu á andvirði þeirra, og að viðkomandi umsækjandi eigi eitthvað af erlendum gjaldeyri, sem hann geti varið til greiðslu á þessum hlutum. Þá er þarna einnig spurt um það, hvort hafi verið rannsakað, hvort þeir íslenzkir menn, sem ferðast til útlanda án þess að hafa fengið gjaldeyrisleyfi hér hjá gjaldeyrisyfirvöldunum, sem eru allmargir, hafi aflað gjaldeyrisins til ferðarinnar og dvalarkostnaðar erlendis með löglegum hætti. — Loks er í þriðja lagi spurt um það, hvort kröfur hafi verið gerðar til þeirra íslenzku fyrirtækja, sem hafa umboð fyrir erlendar verksmiðjur eða erlend verzlanarhús, um það, að þau skiluðu til bankanna þeim umboðslaunum sem þau fá í erlendum gjaldeyri. Nú skal það að vísu tekið fram, að meðferð slíkra umboðslauna geti verið lögleg, þótt þeim fjárhæðum sé ekki skilað beint til bankanna, ef t. d. viðkomandi aðilar fá leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna til þess að nota hann til greiðslu á innfluttum vörum, sem fengið er leyfi fyrir, í stað þess að fá gjaldeyrinn hjá bönkunum til greiðslu á þeim vörum. — Það má kannske segja, að betra orðalag hefði verið hægt að hafa á fyrirspurninni. En það, sem fyrir okkur vakti, er að fá upplýsingar um það, hvort eftir þessum umboðslaunum hafi verið gengið og hvort liggi fyrir vitneskja um það, hvort þeim gjaldeyri hafi verið ráðstafað á löglegan hátt. En samkvæmt l. er skylt að afhenda tveim bönkum allan erlendan gjaldeyri, sem menn eignast eða eiga, og önnur meðferð á honum er ekki l. samkvæmt.