18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í D-deild Alþingistíðinda. (5109)

912. mál, gjaldeyrismál

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það er langt síðan hv. þm. Str. lýsti því yfir í ræðu og riti, að íslenzkir menn ættu erlendis nokkur hundruð milljóna í erlendum gjaldeyri. Þann gjaldeyri mundu kaupsýslumenn landsins eiga, sem þeir hefðu að mestu stolið undan. Það er upplýst, að um það leyti sem deilur stóðu hæst um þetta í blöðum, hafa Íslendingar átt í bönkum úti 3,6 millj. dollara, og hefur það komið fram, að af þessari upphæð mun S.Í.S. hafa átt 2 millj. dollara, og hefur því ekki verið neitað, svo að ég viti. Skal ég ekki fara nánar út í það, en vildi minnast á annað, sem hv. þm. V-Húnv. lagði mikla áherzlu á, en það er, að kaupsýslumönnum séu ekki veitt innflutningsleyfi út á umboðslaun sín. Hæstv. ráðh. upplýsti í þ., að S.Í.S. hefði aldrei skilað umboðslaunum sínum. Hver er þá ástæðan fyrir kröfu hv. þm. V-Húnv., að kaupmenn eigi að gera það, en S.Í.S. ekki, úr því að S.Í.S. hefur aldrei skilað sínum umboðslaunum? Ég vil spyrja hv. þm. V-Húnv., hvort S.Í.S. hafi nokkurn tíma sent yfirlit til bankanna um þann gjaldeyri eða annað.