18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í D-deild Alþingistíðinda. (5110)

912. mál, gjaldeyrismál

Hermann Jónasson:

Ég hef engar upplýsingar um það, sem komið hefur fram í þessum umr., að S. Í. S. hafi ekki skilað sínum gjaldeyri. Ég hef ekki gögnin um það í höndum nú, en ég trúi því ekki, eins og fullyrt er í Vísi, að S. Í. S. hafi átt megnið af þeim gjaldeyri, sem var erlendis. Og svo mikið veit ég, að S. Í. S. varð á sama tíma að taka lán erlendis til þess að borga skuldir sínar og þær vörur, sem það flutti til landsins.

Þá hefur og annað komið fram í þessari skýrslu og á ég þar við þessar 7 millj. dollara. Það lá ekki fyrir þá í opinberum skýrslum bankanna, að það opinbera ætti svona mikið, og var dregið frá þessari upphæð, þegar reiknað var út, hvað einstaklingar ættu. Ég hef sagt, að ekki væri vitað, hvaða einstaklingar hefðu átt það. En einstaklingar hafa átt það, um það liggur fyrir skýrsla, hverjir sem það eru. Og það var upplýst líka, að um 20 millj. króna væru í Englandi, sem einstaklingar áttu. Og ég efast um, að nokkurri stj. sé fært að fara að taka stórlán, meðan vitað er, að Íslendingar eiga um 45 millj. kr. erlendis, sem þeir hafa ekki gefið upp, bæði í Englandi og í Ameríku. Má nærri geta, þegar þetta er í bönkunum fyrir hvers manns fótum, hvað er á öðrum sviðum, og ég held það sé ekki rétt af þeim, sem það gera, eins og t. d. hv. 1. þm. Reykv., að vera að reyna að verja þetta, því að þetta fyrirkomulag verður aldrei varið. Auðvitað kemur mér ekki annað til hugar, en að þetta eigi að ganga jafnt yfir alla. Og ef hv. þm. getur bent á einhvern ákveðinn aðila, sem hafi reynzt brotlegur í þessum efnum, mundi ég ekki halda hlífiskildi yfir honum, en neita, að nokkuð sé hæft í þeim ásökunum, sem hann hefur borið fram á hendur S. Í. S., fyrr en mér hefur verið sýnt fram á það með rökum.

Nei, ég held, að þessi mál komist ekki í lag, fyrr en öðru fyrirkomulagi hefur verið komið á. Og ég hygg, að það sé rétt, að næstum ómögulegt sé að finna þessar innstæður, hvar þær eru og hverjir eiga þær, eins og hæstv. viðskmrh. lét hér í skina, þó að hér sé um 45 millj. að ræða. Þá er ástæða til að ræða um það, þegar vitað er, að inn kemur 1 millj. á ári af tekjum, sem eru um 10–20 millj., á hvern hátt koma megi í veg fyrir, að þetta safnist erlendis, án þess að þjóðin viti það, og taka upp kerfi, sem fyrirbyggi þetta, þó að ég geti hins vegar skilið, að það væri verulegum erfiðleikum bundið.