18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í D-deild Alþingistíðinda. (5111)

912. mál, gjaldeyrismál

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Hv. þm. Str. fer með tölur, sem ég a. m. k. hef aldrei heyrt fyrr og koma mér á óvart, þar sem a. m. k. um 45 millj. kr. upphæð er að ræða. Ég veit ekki, hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu. Þessar upplýsingar um inneignir í Englandi koma mér mjög einkennilega fyrir sjónir. Ég hef ekki heyrt það fyrr, að þar liggi 19–20 millj. kr., sem menn hafi dregið þar undan. En því fer fjarri, að ég sé að reyna að verja það, að þarna séu faldir peningar. Þvert á móti hef ég gert allt, sem hægt hefur verið, en það, sem gert hefur verið í þá átt að komast fyrir þetta, virðist ekki hafa leitt til neins árangurs. Þannig að ef hv. þm. Str. vill benda á einhverja aðferð til þess að ná í þetta, skal ég verða manna fúsastur til þess að reyna hana. Hv. þm. Str. talaði um, að koma þyrfti á einhverju kerfi í þessu skyni, og vil ég þá, að hann komi með það, svo hægt sé að reyna það, því að ég vil undirstrika, að það er síður en svo, að ríkisstj. vilji ekki fá þessar upplýsingar, heldur hefur hún ekki getað náð í þær.

Í sambandi við það, sem hv. þm. fullyrti um umboðslaunatekjur, 10–20 millj., vil ég segja, að þá tölu hef ég ekki heyrt fyrr. En til skýringar skal ég taka fram, að ástæðan til þess, að þessar tekjur eru ekki greiddar inn í bankana meir en raun ber vitni, er sú, að með leyfi gjaldeyrisyfirvaldanna hefur stærstu félögunum verið heimilað að þurfa ekki að greiða umboðslaunatekjurnar inn í bankana. Umboðslaunatekjur þessara aðila og annarra hafa ekki komið fram sem greiðslur til bankanna, heldur hefur þeim verið varið til skrifstofuhalds og greiðslu á vörum.

Ég held að ég þurfi svo ekki að taka fleira fram að sinni.