18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í D-deild Alþingistíðinda. (5112)

912. mál, gjaldeyrismál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil leyfa mér sem annar fyrirspyrjandi að þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þær glöggu upplýsingar, sem hann hefur veitt, og vil benda á, að það eru tvenns konar meginstaðreyndir, sem komið hafa fram í þessum upplýsingum. Í fyrsta lagi, að íslenzkir einstaklingar eiga verulegar gjaldeyriseignir erlendis, sem ekki hefur tekizt að fá upplýsingar um, hve miklar eru og hverjir eiga, og vil ég leggja áherzlu á, að ríkisstj. geri allt, sem hún getur, til þess að afla þeirra upplýsinga, sem hér er um að ræða. — Í öðru lagi hefur komið fram hjá hæstv. viðskmrh., að gjaldeyriseftirlitið telur, að ekki sé öllum umboðslaunum, sem íslenzkir innflytjendur fá, skilað til landsins. Vil ég þá einnig í því sambandi leggja hina mestu áherzlu á, að ríkisstj. geri allt sem hún getur til þess að koma þeirri skipun á þau mál, að eftirlitið verði stórum hert og gerðar ráðstafanir til þess að tryggja, að öllum umboðslaunum verði skilað. Þetta tvennt, að íslenzkir borgarar eiga gjaldeyriseignir erlendis og íslenzkir innflytjendur hafa umboðslaun, sem koma ekki öll til skila, hefur valdið því, að menn geta flutt ýmsar vörur, svo sem bifreiðar, til landsins án gjaldeyrisleyfa, og það hefur einnig valdið því, að menn hafa getað siglt ýmist alveg án þess að fá gjaldeyrisleyfi eða getað dvalið miklu lengur erlendis en hægt hefði verið með tilliti til þeirra leyfa, sem veitt hafa verið. Þetta er óæskilegt mjög, og mér finnst, að um það ætti ekki að geta orðið ágreiningur, að á þessu verði að ráða bót.