18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í D-deild Alþingistíðinda. (5115)

912. mál, gjaldeyrismál

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Út af þessari till. hv. þm. Barð. um að leyfa innflutning út á þá fjármuni, sem kunna að vera geymdir erlendis, og reyna að fá þá inn í landið á þann hátt, vil ég segja, að af öllum leiðum, sem mér hafa dottið í hug og nefndar hafa verið við mig, þykir mér þetta sú sízta. Eins og allir vita, er mestur ávinningur af því nú á dögum að flytja þær vörur til landsins, sem mest eftirspurn er eftir, og þætti mér það heldur hjáleitt, ofan á það, ef þessir peningar hafa verið dregnir undan bæði skattgreiðslum og öðru slíku, að þeir menn, sem þennan verknað kynnu að hafa framið, yrðu verðlaunaðir með því að veita þeim aukinn innflutning. Ég tel það nauðsynlegt að athuga allar aðrar leiðir áður en þessi kæmi til greina.

Hv. þm. sló því föstu, að meginhlutinn af þeim innflutningi, sem ætti sér stað gjaldeyrislaust. væri fluttur inn á þennan hátt. En þetta er, að mínu viti ekki rétt, því að meginhlutinn af þessum innflutningi, sem er kallaður innflutningur án gjaldeyris, er það bara ekki. Hann hefur verið borgaður á öðrum tíma, og þessi innflutningsleyfi án gjaldeyris eru raunverulega bæði gjaldeyris- og innflutningsleyfi, en bara veitt í tvennu lagi. Ég held, að það sé mjög lítið um það, þó að ég þori ekki að fullyrða það, að innflutningur, sem hingað kemur án gjaldeyris, sé keyptur fyrir peninga, sem hafi verið faldir erlendis, enda segir greinilega í bréfi viðskiptanefndar, að gengið sé eftir því í hverju tilfelli, að gjaldeyririnn sé fenginn á eðlilegan og löglegan hátt.

Ég held, að það hafi ekki verið annað, sem ég vildi um þetta segja við þm. út af ræðu hans, en vildi mjög lýsa eftir öðru úrræði en þessu, að láta þá, sem kynnu að eiga gjaldeyri erlendis, flytja inn fyrir hann vörur til þess að selja hér.