18.11.1948
Sameinað þing: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í D-deild Alþingistíðinda. (5117)

912. mál, gjaldeyrismál

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Þetta er auðvitað svo mikið mál og hér hafa verið svo heitar umr., að maður getur ekki sagt mikið á einum 5 mínútum. Ég vil þó aðeins benda á, að engin verzlunarstétt í heiminum á við þann aðbúnað að búa sem sú íslenzka, því að af öllum þeim fjölda, sem fór utan, skilst mér, að aðeins 48 kaupsýslumenn hafi fengið gjaldeyri til fararinnar. — Vegna þeirra ummæla, sem hér hafa fallið, vil ég benda á það, án þess að ég vilji nokkuð leiða aðra aðila í verzlunarmálum til samanburðar, að Íslendingar sjálfir fyrirbyggðu sínum mönnum að hafa möguleika til þess að hafa skrifstofur eða aðstöðu í öðrum löndum með þeim ákvæðum, sem sett voru. En það var eitt fyrirtæki, sem sá, að það var ákaflega á móti þeirra hagsmunum, og það var S. Í. S., og það hefur verið upplýst hér í þinginu, að þeir hafi fengið að nota umboðslaun sín til þess að greiða skrifstofukostnað og ýmis önnur gjöld. Kaupsýslumenn í öðrum löndum, t. d. í Bandaríkjunum, eru miklu frjálsari í þessum efnum en kaupmenn hér, þar sem þeir hafa aðstöðu til þess að taka upp verzlun við önnur lönd.

Nú vil ég minnast á það, sem ekki hefur komið fram, að það er fjöldi innflytjenda, sem fá engin umboðslaun. Þeir taka það í því nettóverði, sem framleiðendur í öðrum löndum bjóða. Þetta er stór liður í verzlun okkar, sem ég get sannað ekki eingöngu frá sjálfum mér, heldur fjöldamörgum stéttarbræðrum mínum.

Ég get nefnt, að í janúar 1945 lagði ég fram pöntun á þakjárni gegnum innkaupastofnun ríkisins og sem dæmi um seina afgreiðslu, þá get ég upplýst, að sumt af pöntuninni fékk ég ekki afgreitt fyrr en í ágúst í sumar, en upphæðin stóð inni frá því í janúar 1945, svo að það er margt, sem þarf að athuga, áður en komið er með staðlausar fullyrðingar.