24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í D-deild Alþingistíðinda. (5120)

71. mál, ábyrgð ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa sérstakan formála með þessum fyrirspurnum. Mér hefur þótt hlýða, að þetta kæmi fram opinberlega, hversu ábyrgðum ríkissjóðs er nú háttað, vegna þess að mér vitanlega hefur það ekki komið fram opinberlega enn, hversu miklar ábyrgðir ríkissjóðs eru nú og hvernig þær skiptast á þá aðila, sem þær hafa verið gefnar. Eru það þessir aðilar: bæjarfélög, ríkisfyrirtæki, opinberar stofnanir og einkafyrirtæki. Einnig kom það fram, í ræðu hæstv. fjmrh., þegar fjárlfrv. var lagt fram hér á hæstv. Alþ., að nokkur brögð væru að því nú, að þeir aðilar, sem fengið hefðu ríkisábyrgðir, gætu ekki staðið í skilum með lán sín. Hef ég því óskað eftir að fá upplýsingar um, hverjir aðilar það eru og hve mikil brögð eru að vanskilum.