24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (5132)

914. mál, síldarveiðar í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. ráðh. fyrir, hvað hann hefur hér glímt við nokkuð erfitt mál. Og ánægjulegt er að vita, hverjar heildartekjur hafa orðið af þessum veiðum. Hitt er náttúrlega annað atriði, — og fyrir mér vakti, að þjóðin fengi að skilja, hvernig á því stæði, — að svona miklar þjóðartekjur urðu ekki enn meira happ fyrir útgerðarmenn en raun varð á, því að mér er kunnugt um það, að mjög margir af bátunum, sem stunduðu þessar veiðar, voru verr haldnir eftir en áður. Í öðru lagi er það, að síldarverksmiðjur ríkisins, sem unnu úr þessari síld, hafa beðið við það milljónatap. Og í þriðja lagi, eins og hæstv. ráðh. segir, er ekki ósennilegt, að stjórn síldarverksmiðjanna vilji færa þetta tap yfir á almenna gjaldendur í landinu. Í þessu liggur viðurkenning hæstv. ráðh. um það, að hagnýting þessara þjóðartekna hefur þó í vissum tilfellum orðið að tapi. En þessi skýrsla sýnir, hvernig undirstaða atvinnuveganna í landinu er, fyrir áhrif dýrtíðarinnar, þegar jafnvel slíkt atvinnuhapp eins og Hvalfjarðarsíldin verður í sumu tilliti að tapi, í staðinn fyrir að af þessu mikla happi hefði átt að koma fram allsherjar gróði.