24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (5144)

916. mál, tímarita- og blaðasafn Helga Tryggvasonar

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. Barð. um það, hvort ég sem fjmrh. hafi verið samþykkur því að kaupa þetta bókasafn, vil ég kannast við, að ég var það, enda allir í ríkisstj. Ég man ekki betur en að þetta væri formlega samþ. á ráðherrafundi, og ég gerði ekki ágreining. Hitt er svo annað mál, að eins og ástatt var með ríkissjóð, og peningar voru ekki fyrir hendi, þá var farin sú leið að fá greiðslufrest á andvirði safnsins og borga það niður á nokkrum árum. Það, að þessi gerning hafi einhver örlagaþrungin áhrif á afgreiðslu fjárl., skal ég ekki um dæma, en þá gerast margir örlagaþrungnir hlutir af stærri atburðum, ef þetta á að valda stórbyltingu við afgreiðslu fjárl. Þegar Alþ. samþ. heimild til ríkisstj., hver sem hún er, þá er mjög undir það ýtt, og þykir af sumum nærri skylt að nota slíka heimild. Ég segi ekki, að það sé skylt, þó að ýmsir haldi því fram, en við hitt geta allir kannazt, að ýtt er undir ríkisstj. að gera þá hluti, sem heimilað er í l. að gera.