02.12.1948
Sameinað þing: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (5147)

79. mál, lyfsölumál

Fyrirspyrjandi (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef nokkur undanfarin ár átt kost á því að fylgjast með ýmsu, sem gerzt hefur í lyfsölumálum hér á landi, og hefur það ekki allt verið til ánægju með yfirstjórn þessara mála. Þetta má sjálfsagt að nokkru leyti kenna því, að hann er mjög lítill lagabálkurinn um fyrirkomulag þessa rekstrar, þar sem aðallagaboðið er tilskipun frá 1672. En því betur hefði mátt rækja þetta, þar sem segja má, að sáralitlar skorður hafi verið settar og framkvæmdarvaldið hafi frjálsar hendur að laga þetta í hendi sér. En við athugun þessa máls hefur mér fundizt eins og yfirstjórn þessara mála væri langt frá því að vera viðunandi, Ég hef nú alltaf litið þannig á, að yfirstjórn sérstakra mála væri til þess fallin að koma þeim málum í sem bezt horf og reyna að halda sem beztri samvinnu við þá stétt, sem hefur málin með höndum, en finnst nokkuð öðru máli gegna í heilbrigðismálum, því að mér skilst, að allt logi í illindum, og man ekki betur en að landlæknir hafi í opinberu blaði lýst yfir, að hann teldi sig settan til höfuðs læknastéttinni, frekar en að hann væri samstarfsmaður hennar. Þessi skoðun hefur því fremur komið fram gagnvart lyfsalastéttinni, og það, sem hefur vakið einna mest hneyksli, er það, hvernig skipað er í lyfsalastöður undanfarið, þar sem gengið hefur verið fram hjá lyfsölum úti á landi, þó að þeir hafi staðið vel í stöðu sinni, og er það mjög hættulegt, því að erfitt mun reynast að fá bærilega menn til þess að taka að sér starf úti á landi, ef þeir eiga von á, ekki einasta að fram hjá þeim sé gengið, heldur að fá spörk í sig hjá ráðamönnum þessara mála, er þeir sækja um stöður í Rvík, eftir að hafa unnið dyggilega úti á landi. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, en vegna þess að ég hef heyrt, að eftir tillögu landlæknis hafi verið gengið fram hjá tveim ágætum mönnum við veitingu Kleppsholtsapóteks vegna þess, að rekstur þeirra hafi ekki verið í sæmilegu lagi, þætti mér gott að vita, hvernig eftirlitið hefur verið með rekstri lyfjabúða undanfarin ár.

Ég skal svo ekki ræða meir um þetta á þessu stigi málsins.